Þegar ég setti síðustu færsluna inn á gamlárskvöld var ég kominn með fullkomið ógeð á verkefninu 52 bækur. Ekki þannig að mér hafi leiðst að lesa. Vinnan við að ljósmynda bók og skrifa um hana var hins vegar orðin nokkuð endurtekningarsöm og leiðinleg.
Ég held ég hafi í engu tilviki skrifað sérstaklega langan eða merkilegan texta um bók. Samt tekur það aðeins á að koma frá sér heillri hugsun á þennan hátt. Það var hins vegar markmiðið með verkefninu að pína mig til að pæla aðeins í því sem ég var að lesa í staðinn fyrir að vaða bara áfram í næsta verk. Að því leyti tókst þetta mjög vel. Ég hef líka oftar en einu sinni flett upp í færslunum til að rifja upp, það er góður kostur.
Ég fékk nokkra athygli fyrir þetta verkefni í upphafi. Ég líkti þessu við kvikmyndina Julie & Julia. Í því verki eldar Julie allar uppskriftirnar í matreiðslubók Juliu Child með hörmulegum afleiðingum fyrir einkalíf sitt. Sem betur fer hafði lestrar-bloggið engar slíka dramatískar afleiðingar fyrir mig.
Líklega eru 52 bækur ekki nógu stórt markmið til að setja heimilislífið úr skorðum. Ég man eftir einu skipti þar sem ákvörðun mín um að nota kvöldið til lesturs féll í ófrjóan jarðveg. Annars fékk ég líka jákvæða hvatningu ef ég virtist vera á eftir áætlun.
Ég fékk jákvæð viðbrögð úr ýmsum áttum vegna verkefnisins og reglulegar spurningar um hvernig gengi. Sumir spurðu líka hvað ég væri að lesa þá stundina og hvort ég mælti með einhverju. Ég fékk hins vegar fáar athugasemdir um skrifin sjálf eða bækurnar. Ég skil það svo sem vel að það sé ekki endilega áhugavert að lesa rýni á bók sem maður telur ekki líklegt að maður hafi áhuga á eða nenni að lesa. Það eru enda ekki miklir bókadómar í dagblöðum lengur. Samt nýtur Kiljan vinsælda. Ég ætti ef til vill að setja inn dóm á youtube.
Ég skrifaði rýni á 52 bókum. Misjafnlega góðum. Ég las þó heldur fleiri bækur en fékk mig ekki til að setja inn dóm af einni eða annarri ástæðu. Ég held ég skelli inn einni færslu um þær við tækifæri.
Á nýju ári hef ég þegar lesið nokkrar bækur. Það verður að viðurkennast að ég hef notið þess aðeins að geta slappað aðeins af við lesturinn og ekki þurft að hafa áhyggjur af lengd bókar. Ég er farinn að finna aftur fyrir þörfinni á að tjá mig um lesturinn svo ég stefni á að halda áfram með bloggið eftir nennu og áhuga.