Friday, November 15, 2013

Bók #46: ÁRIÐ SEM TVÆR SEKÚNDUR BÆTTUST VIÐ TÍMANN

Bókin ÁRIÐ SEM TVÆR SEKÚNDUR BÆTTUST VIÐ TÍMANN er eftir rithöfundinn Rachel Joyce, sem skaust upp á stjörnuhimininn með sumarsmellinum 2012 HIN ÓTRÚLEGA PÍLAGRÍMSGANGA HAROLDS FRY. Bókin heitir á frummálinu PERFECT sem er útskýrt í sögunni. Sekúndurnar tvær eru líka mikilvægt þema bókarinnar. Samt skrítið að skipta svona um titil.


Sagan greinist í tvennt. Öðrum megin er sagt frá uppvexti Byrons og James árið 1972. Hinum megin er saga geðsjúklingsins Jim í nútímanum. Það tekur smá stund að botna í því hvernig þessar sögur tengjast, þó lesandann gruni að gælunafnið Jim eigi við þennan James úr hinni sögunni.

ÓVÆNT, ÞAÐ VAR EKKI HANN HELDUR BYRON!!! Þessi ótrúlega ómerkilega staðreynd er afhjúpuð við lok bókarinnar og lesandanum gæti ekki verið meira sama.

Byron er á barnsaldri. Hann býr með móður sinni, Díönu, og systur á eins konar sveitasetri. Þau tilheyra efri stéttinni. Móðir hans er ekki sérlega hamingjusöm. Faðirinn vinnur í borginni og kemur heim um helgar. 

James hefur sagt Byron frá því að þetta ár verði tveimur sekúndum bætt við tímann til að leiðrétta fyrir skekkju á snúningi jarðar. Sem ungum hugsandi mönnum veldur þetta þeim hugarangri. Hvernig er hægt að framlengja bara tímann?

Dag einn á leiðinni í skólann ákveður móðir Byrons að stytta sér leið í gegnum hverfi fátækra. Einmitt þar telur Byron sig sjá úrið sitt ganga aftur á bak. Hann telur að verið sé að bæta aukasekúndunum við tímann og vekur athygli móður sinnar á þessu. Hún fipast og keyrir á stúlku á reiðhjóli. Díana virðist ekki taka eftir því sem gerist og keyrir í burtu. Þetta hvílir þungt á Byroni. 

Afgangurinn af þessari sögu gengur út á samband Díönu við móður reihjólastúlkunnar. Þar spilar stéttarskiptingin inn í.

Hinum megin fylgjumst við með baráttu Jims þar sem hann reynir að fóta sig í lífinu. Hann hefur legið inni á geðdeild en hefur vinnur núna á kaffihúsi. Í þessari sögu gerist nákvæmlega ekkert. Jú, Jim reynir að taka upp samband við hana Eileen, annan starfsmann kaffihússins. Það gengur illa. 

Í lok bókarinnar fléttast þessar tvær sögur saman á mjög óáhugverðan hátt.


Ég var mjög lengi að lesa þessa bók, eins og allar leiðinlegar bækur. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Lýsingaru er flottar og andrúmsloftið ágætt. Maður finnur til með hinni einmanna húsmóður sem er á stað í lífinu sem hún kann ekkert á. Það er átakanlegt að fylgjast með henni sturta gjöfum yfir fátæka fólkið rétt eins og unglingur sem reynir að kaupa sér vini með nammi.

Fyrir utan þetta er voðalega lítið innihald í bókinni. Rassvasaheimspekin ristir ekki mjög djúpt. Maður finnur voðalega lítið til með þessum Jim karakter. Höfund skortir alveg áhugaverða fléttu í þeirri vídd.

Niðurstaða: ÁRIÐ SEM TVÆR SEKÚNDUR BÆTTUST VIÐ TÍMANN er bara mjög langdregin og leiðinleg bók. Ég gef henni 1,5 stjörnur.

No comments:

Post a Comment