Ég fékk Parísarkonuna á Íþöku. Þetta er eins konar söguleg skáldsaga. Bókin segir sögu Hadley Richardson. Sú var fyrsta eiginkona Ernests Hemingways. Höfundur er Paula McLain. Bókin kom út á frummálinu 2011 en árið 2012 á íslensku. Sagan er 392 síður.
Hadley og Ernest kynnast í gegnum sameiginlega vini í Bandaríkjunum í byrjun þriðja áratugarins. Þau virðast frekar ólík. Hemingway er ungur ævintýramaður sem hafði barist í fyrri heimsstyrjöld. Hadley er 8 árum eldri og hefur eytt mörgum árum í að hjúkra veikri móður sinni.
Þau taka upp samband, en Ernest er ævintýramaður og vill flytja til Rómar og reyna fyrir sér við skriftir. Ekki er ljóst hverning Hadley á að passa inn í þessi áform. Frekar óvænt biður Hemingway hennar, þau giftast og ákveða að flytja til Parísar.
Sagan gerist mestöll í þeirri borg næstu árin. Við fylgjumst með lífi þeirra hjóna þar sem þau feta sig áfram. Hemingway starfar fyrst að hluta sem blaðamaður en einbeitir sér síðar að eigin skrifum. Hann verður smám saman meiri sigurvegari. Hadley er húsmóðir og hefur lítið fyrir stafni. Henni virðist leiðast og hún er mjög háð eiginmanni sínum.
Það er ómögulegt annað en að setja bókina í samhengi við bók Hemingways frá sama tíma, Kvika veislu. Margt er líkt með þessum tveimur bókum. Við kynnumst sömu aðstæðum og sömu persónum. Kosturinn við Parísarkonuna er að hlutir eru kynntir fyrir lesandanum á hefðbundinn hátt. Þegar Ezra Pound kemur til sögunnar útskýrir sögumaður fyrir manni hvern um ræðir og setur í samhengi. Í bók Hemingways eru engar slíkar hækjur.
Parísarkonan er ástarsaga. Margt er mjög vel gert. Maður heldur áfram að fletta og fylgjast með hæðum og lægðum í sambandinu. Hvernig þau fjarlægjast smám saman. Endalokin eru líka nokkuð mögnuð og undarlegur ástarþríhyrningur myndast.
Niðurstaða: Ég hafði mjög gaman að þessari bók. Ég gef henni 3,5 stjörnur, og er meðvitaður um að bók Hemingways fékk minna. Ég myndi segja að eðlilegt væri að lesa þessar bækur saman. Þá væri betra að byrja á Parísarkonunni, enda langar mig núna að prófa Movable Feast aftur.
Niðurstaða: Ég hafði mjög gaman að þessari bók. Ég gef henni 3,5 stjörnur, og er meðvitaður um að bók Hemingways fékk minna. Ég myndi segja að eðlilegt væri að lesa þessar bækur saman. Þá væri betra að byrja á Parísarkonunni, enda langar mig núna að prófa Movable Feast aftur.