Wednesday, June 19, 2013

Bók #27: VEISLA í FARÁNGRINUM

VEISLA Í FARÁNGRINUM er bók eftir Ernest Hemingway. Hún kom út að honum látnum árið 1964. Halldór Laxness sneri á íslenzku. Kom sú íslenskun fyrst út árið 1966. Þýðingin er skemmtileg. Hvergi annars staðar fá menn sér reykta eða saltaða höm í morgunmat.


Kápan er í þessum dæmigerða þreytandi íslenska 9.áratugar stíl. Of mikið af litum. Ekki það að kápan á nútímaútgáfunni sé spennandi í sínum ofurraunsæisstíl.

Efni bókarinnar er endurminningar höfundar frá dvöl í París á þriðja áratug síðustu aldar. Þessi tími hefur komið fyrir í öðrum verkum. Hemingway er t.d. mikilvæg persóna í Midnight in Paris. Einnig Any Human Heart. 

Titillinn er útskýrður í byrjun:
Hver sem í æsku átti því láni að fagna að ílendast í Páris um skeið, hann mun sanna að hvar sem leiðir liggja síðan er París í för með honum einsog veisla í farángrinum.
Moveable feast heitir þetta á ensku. Það er eitthvað við þýðinguna sem truflar mig. Mér finnst vera munur á að hafa aðgang að veislu þegar það hentar manni og að vera stanslaust með veislu í farangrinum. 


Bókin skiptist í marga stutta kafla og lýsir lífi þeirra Hemingway hjóna. Samskiptum þeirra við aðra í París á þessum tíma. Gertrude Stein, F. Scott Fitzgerald og fleiri. Svo mikið er raunar af persónum að ég ruglaði öllum saman. Auðvitað spilar bókmenntaólæsi mitt þarna inn í. Ég hef bara aldrei heyrt Ezra Pounds getið né Ford Madox Fords.

Lýsingar eru myndrænar og skemmtilegar. Maður fær ágæta tilfinningu fyrir borginni og hinu ljúfa lífi sem unnt er að lifa. Höfundur er þó bláfátækur óþekktur rithöfundur. Maður kynnist því líka hungrinu, kuldanum og vosbúðinni.

Hemingway skrifar sjálfan sig sem mikinn sigurvegara í þessari bók. Hann er agaður meðan aðrir eru latir. Drekkur vel og mikið en hinir eru hænuhausar -einkum F. Scott Fitzgerald. Hann leggur duglega undir á veðreiðum og er alltaf í gróða.


Ég hef ekki lesið neitt eftir Hemingway áður. Þetta er líklega ekki besta bókin til að byrja á. Það hefði verið skemmtilegra að hafa betri filfinningu fyrir manninum og verkum hans.

Niðurstaða: VEISLA Í FARÁNGRINUM er skemmtileg saga sem skilur eftir sig ákveðna trega-tilfinningu. Ég gef henni þrjár stjörnur.

2 comments:

  1. Þessi bók hljómar áhugaverð þó ég sé sammála þér með þýðinguna á titlinum. Ég las A Farewell to Arms eftir Hemingway fyrir mörgum árum og þótti hún hrútleiðinleg og pirrandi en hann er víst einhver sem maður á að læra að meta betur með aldri og þroska.
    Sem sérlegur áhugandi Parísarborgar, og hafandi lesið endurminningar George Orwells þaðan sem og sögulega skáldsögu um eiginkonu Hemingways á þessum tíma (The Paris Wife), hljómar þetta eins og sniðug bók fyrir aðra atrennu.

    ReplyDelete
  2. Já bókin virkar einmitt mjög vel sem svona stemning-fyrir-París-lestur.

    Ég er einmitt núna að lesa Franska Svítu. Frakklandsþemað heldur áfram!

    ReplyDelete