Thursday, April 18, 2013

Bók #17: The Alloy of Law

Ég fékk bókina The Alloy of Law í jólagjöf frá vini mínum og hef síðan hlakkað til að lesa hana. Um er að ræða vísindaskáldsögu/fantasíu eftir Brandon Sanderson. Bókin er óbeint framhald hinnar svonefndu Mistborn trílógíu sem kom út á árunum 2006-2008. Slíkar bækur má fá á góðu verði. 

Mistborn þrennan kynnir áhugaverðan heim til sögunnar. Það eru einhvers konar galdrar til, en þó ekki. Það eru ákveðnir einstaklingar sem geta borðað málma og með því að "brenna" málmana öðlast þeir eiginleika eins og að ýta á aðra málma eða toga sig að málmum. Þannig er t.d. hægt að fljúga.


Þetta er mjög vandað og úthugsað kerfi fyrir yfirnáttúru, sem skortir einmitt oft í svona furðusögum. Mistborn bækurnar eru mjög góðar og ég mæli með þeim. Plottið er kunnuglegt og mjög Star Wars-legt. Það þarf að ráða niðurlögum vonda keisaraveldisins, til þess ræðst mjög óvæntur einstaklingur úr lægstu lögum samfélagsins.

The Alloy of Law gerist í sama heimi um 300 árum eftir að trílógíunni líkur. Umhverfið minnir á Bandaríkin við upphaf 20.aldarinnar. Hér eru byssur, járnbrautir og bílar. Það er mjög áhugavert að lesa fantasíu í þessu umhverfi. Hér geta menn "ýtt á" byssukúlur og bandað þeim þannig frá sér.



Plottið sjálft er ekki mjög djúpt. Aðalpersónurnar eru einhves konar Jackie Chan / Chris Tucker dúó. Þeir eru ekki lögreglumenn en taka það þó upp með sjálfum sér að leysa dularfullt mál. Lestir eru rændar og verðmætir málmar hverfa. Konur eru teknar sem gíslar. 

Upphefst frekar mikið blóðbað og takmarkalaus banter milli söguhetjanna. Í lok bókarinnar er opnað fyrir möguleikann á framhaldi sem mun vera á dagskrá hins afkastamikla höfundar.



Ég hafði gaman að þessari bók. Hún er samt heldur meira léttmeti en trílógían. Höfundur nýtur þess greinilega að skrifa í þessum heimi og þróar hann aðeins áfram. Áherslan er fullmikil á aksjón. Ég efast einnig um að bókin standi mjög vel nema sem framhald/hliðarspor við trílógíuna. Hún fær því 2,5 stjörnur. Mistborn þrennan fær fjórar stjörnur.

Monday, April 8, 2013

Bók #16: IN THE COUNTRY OF LAST THINGS

Ég fékk bókina IN THE COUNTRY OF LAST THINGS lánaða frá bróður mínum. Umrædd bók er eftir Paul Auster eins og kápunni leiðist ekki að tilkynna okkur. Bókin er frekar stutt, um 200 síður. Það skal viðurkennt að lengd bókarinnar höfðaði sterklega til mín við ákvörðun um lestur hennar. Siðlaust.

Um er að ræða framtíðar-dystópíu. Ung kona ferðast til borgar sem minnir á New York. Frásögnin er á formi bréfs. Í þessum heimi virðist samfélagið hafa fallið saman. Veður er alltaf vont, enginn hefur alvöru vinnu, lítið er um mat, glæpagengi stjórna götunum og svo framvegis. 

Sögumaður virðist þó koma frá öðrum stað þar sem ástandið er bara fínt. Minnst er á að börn hafi verið send í öruggt skjól til Bretlands. Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna heimurinn hefur hrunið á einum stað en gengur sinn vanagang spölkorn frá.



Aðalpersónan á að vera ung ævintýramanneskja sem fór til borgarinnar að leita að bróður sínum. Seinna reynir hún að komast aftur heim en það reynist ekki hægt. Á þann hátt minnir sagan dálítið á martröð. Einhver fer viljandi til hræðilegs staðar og það er einhvern veginn engin leið að komast út.

Forvitni manns er vakin. Hvað gerðist. Var kjarnorkustríð? Hnattræn hlýnun? Það er þó fátt um svör í bókinni. 


Söguhetjan kynnist konu sem rekur heimili fyrir fólk af götunni. Þetta heimili er eins og vin í eyðimörkinni. Þar fær fólk að dveljast í viku, góðan mat að borða, afþreyingu og mjúkt rúm. Þessi starfsemi stendur þó höllum fæti þar sem fjármagn er að klárast. 

Allt tengt þessu heimili er mjög ljóðrænt. Húsið stendur fyrir það góða í heiminum. Jafnvel á heimsenda er fegurðin enn til.


Við lok bókarinnar ákveður söguhetjan að flýja frá borginni ásamt öðrum. Sleppa út úr martröðinni. Vakna. Við vitum ekki hvað verður um þau.

Niðurstaða: IN THE COUNTRY OF LAST THINGS skapar áhugavert andrúmsloft. Lesandinn sogast inn í skrítinn heim. Það er snið bókarinnar að spyrja fleiri spurninga en svarað er. Það er bæði gott og slæmt. Maður vill ekki endilega lesa bók sem fer út í of mörg smáatriði og eyðir blaðsíðutugum í að smíða heim. Á hinn bóginn fær maður aðeins á tilfinninguna að höfundur sé ekki með fullskapaða hugmynd. Bókin er stutt og hefði ef till vill sómað sér betur sem smásaga. Ég gef henni 2,5 stjörnur.

Thursday, April 4, 2013

Bók #15: A VISIT from the GOON SQUAD

Ég las bókina A VISIT from the GOON SQUAD samkvæmt meðmælum frænku minnar. Umrædd bók er eftir Jennifer Egan og hefur komið út á íslensku undir hinum langsótta titli NÚTÍMINN ER TRUNTA.
Titillinn er vísun í tímann. Í bókinni segir "Time's a goon, right? You gonna let that goon push you around?" Tíminn er einmitt grunnstef bókarinnar. Í grunninn fylgir hún persónunum Bennie og Söshu og fólki sem tengist þeim. Bæði tengjast þau tónlistariðnaðinum.

Ekki er hægt að segja að bókin hafi eiginlegan söguþráð. Við hoppum fram og til baka í tíma og höfum sjónarhól ýmissa persóna. Á þann hátt er bókin meira eins og smásagnsafn frekar en eiginleg skáldsaga.

Í prinsippinu leiðast mér smásögur. Höfundi tekst þetta þó nokkuð vel hér. Hver kafli stendur vel sem ein heild, en oft langar mann samt að vita meira. Það er ekki erfitt að ímynda sér að einhvers konar framhald eða hliðarbók verði gefin út.

Áhugaverðasti kafli bókarinnar er sagður út frá powerpoint-glærum. Við sjáum mynd.

Þessi kafli, sem á að gerast í framtíðinni, er sagður frá sjónarhóli ungrar stúlku. Það kemur fram í kaflanum að hún notar þetta form sem dagbók, móður sinni til pirrings. Maður gæti ímyndað sér að rithöfundur notaði svona punkta til að glósa niður hugmyndir eða sem hugarkort. Þetta virkar hins vegar skemmtilega vel í bókinni. Maður flettir hratt í gegnum þetta og fær mjög góða tilfinningu fyrir atburðarás og tilfinningum. Besti kafli bókarinnar.

Höfundur virðist hafa mikinn áhuga á framtíðinni og hvert tæknin muni leiða okkur. Skrítnasti kafli bókarinnar gerist í frekar nálægri framtíð. Þá finnst öllum orðið óþægilegt að eiga samskipti á hefðbundinn hátt og kýs frekar að senda hvert öðru skilaboð: "U hav sum nAms 4 me?" - "hEr thA r"

Samfélagsmiðlar eru þá alls staðar. Bókin endar svo á tónleikum manns sem er "ósnertur" af samfélagsmiðlum. Þannig tekst honum að slá í gegn með því að ná til fólksins á raunverulega einlægan hátt. Sniðug sena, en virðist samt frekar ótrúleg og allur þessi kafli ber of sterkan keim af óbeit höfundar í garð internetsins eða notkun samfélagsmiðla.


Niðurstaða: A VISIT from the GOON SQUAD er mjög sniðug bók. Ég tel þó að smásagnasögu-formið skemmi fyrir henni. Það eru tvær vikur síðan ég kláraði bókina og ég get ekki rifjað upp allar persónurnar eða sögurnar án þess að fletta upp í bókinni. Ég gef henni 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.