Ég fékk bókina IN THE COUNTRY OF LAST THINGS lánaða frá bróður mínum. Umrædd bók er eftir Paul Auster eins og kápunni leiðist ekki að tilkynna okkur. Bókin er frekar stutt, um 200 síður. Það skal viðurkennt að lengd bókarinnar höfðaði sterklega til mín við ákvörðun um lestur hennar. Siðlaust.
Um er að ræða framtíðar-dystópíu. Ung kona ferðast til borgar sem minnir á New York. Frásögnin er á formi bréfs. Í þessum heimi virðist samfélagið hafa fallið saman. Veður er alltaf vont, enginn hefur alvöru vinnu, lítið er um mat, glæpagengi stjórna götunum og svo framvegis.
Sögumaður virðist þó koma frá öðrum stað þar sem ástandið er bara fínt. Minnst er á að börn hafi verið send í öruggt skjól til Bretlands. Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna heimurinn hefur hrunið á einum stað en gengur sinn vanagang spölkorn frá.
Aðalpersónan á að vera ung ævintýramanneskja sem fór til borgarinnar að leita að bróður sínum. Seinna reynir hún að komast aftur heim en það reynist ekki hægt. Á þann hátt minnir sagan dálítið á martröð. Einhver fer viljandi til hræðilegs staðar og það er einhvern veginn engin leið að komast út.
Forvitni manns er vakin. Hvað gerðist. Var kjarnorkustríð? Hnattræn hlýnun? Það er þó fátt um svör í bókinni.
Söguhetjan kynnist konu sem rekur heimili fyrir fólk af götunni. Þetta heimili er eins og vin í eyðimörkinni. Þar fær fólk að dveljast í viku, góðan mat að borða, afþreyingu og mjúkt rúm. Þessi starfsemi stendur þó höllum fæti þar sem fjármagn er að klárast.
Allt tengt þessu heimili er mjög ljóðrænt. Húsið stendur fyrir það góða í heiminum. Jafnvel á heimsenda er fegurðin enn til.
Við lok bókarinnar ákveður söguhetjan að flýja frá borginni ásamt öðrum. Sleppa út úr martröðinni. Vakna. Við vitum ekki hvað verður um þau.
Niðurstaða: IN THE COUNTRY OF LAST THINGS skapar áhugavert andrúmsloft. Lesandinn sogast inn í skrítinn heim. Það er snið bókarinnar að spyrja fleiri spurninga en svarað er. Það er bæði gott og slæmt. Maður vill ekki endilega lesa bók sem fer út í of mörg smáatriði og eyðir blaðsíðutugum í að smíða heim. Á hinn bóginn fær maður aðeins á tilfinninguna að höfundur sé ekki með fullskapaða hugmynd. Bókin er stutt og hefði ef till vill sómað sér betur sem smásaga. Ég gef henni 2,5 stjörnur.
No comments:
Post a Comment