Thursday, April 4, 2013

Bók #15: A VISIT from the GOON SQUAD

Ég las bókina A VISIT from the GOON SQUAD samkvæmt meðmælum frænku minnar. Umrædd bók er eftir Jennifer Egan og hefur komið út á íslensku undir hinum langsótta titli NÚTÍMINN ER TRUNTA.
Titillinn er vísun í tímann. Í bókinni segir "Time's a goon, right? You gonna let that goon push you around?" Tíminn er einmitt grunnstef bókarinnar. Í grunninn fylgir hún persónunum Bennie og Söshu og fólki sem tengist þeim. Bæði tengjast þau tónlistariðnaðinum.

Ekki er hægt að segja að bókin hafi eiginlegan söguþráð. Við hoppum fram og til baka í tíma og höfum sjónarhól ýmissa persóna. Á þann hátt er bókin meira eins og smásagnsafn frekar en eiginleg skáldsaga.

Í prinsippinu leiðast mér smásögur. Höfundi tekst þetta þó nokkuð vel hér. Hver kafli stendur vel sem ein heild, en oft langar mann samt að vita meira. Það er ekki erfitt að ímynda sér að einhvers konar framhald eða hliðarbók verði gefin út.

Áhugaverðasti kafli bókarinnar er sagður út frá powerpoint-glærum. Við sjáum mynd.

Þessi kafli, sem á að gerast í framtíðinni, er sagður frá sjónarhóli ungrar stúlku. Það kemur fram í kaflanum að hún notar þetta form sem dagbók, móður sinni til pirrings. Maður gæti ímyndað sér að rithöfundur notaði svona punkta til að glósa niður hugmyndir eða sem hugarkort. Þetta virkar hins vegar skemmtilega vel í bókinni. Maður flettir hratt í gegnum þetta og fær mjög góða tilfinningu fyrir atburðarás og tilfinningum. Besti kafli bókarinnar.

Höfundur virðist hafa mikinn áhuga á framtíðinni og hvert tæknin muni leiða okkur. Skrítnasti kafli bókarinnar gerist í frekar nálægri framtíð. Þá finnst öllum orðið óþægilegt að eiga samskipti á hefðbundinn hátt og kýs frekar að senda hvert öðru skilaboð: "U hav sum nAms 4 me?" - "hEr thA r"

Samfélagsmiðlar eru þá alls staðar. Bókin endar svo á tónleikum manns sem er "ósnertur" af samfélagsmiðlum. Þannig tekst honum að slá í gegn með því að ná til fólksins á raunverulega einlægan hátt. Sniðug sena, en virðist samt frekar ótrúleg og allur þessi kafli ber of sterkan keim af óbeit höfundar í garð internetsins eða notkun samfélagsmiðla.


Niðurstaða: A VISIT from the GOON SQUAD er mjög sniðug bók. Ég tel þó að smásagnasögu-formið skemmi fyrir henni. Það eru tvær vikur síðan ég kláraði bókina og ég get ekki rifjað upp allar persónurnar eða sögurnar án þess að fletta upp í bókinni. Ég gef henni 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.

No comments:

Post a Comment