Ég fékk bókina The Alloy of Law í jólagjöf frá vini mínum og hef síðan hlakkað til að lesa hana. Um er að ræða vísindaskáldsögu/fantasíu eftir Brandon Sanderson. Bókin er óbeint framhald hinnar svonefndu Mistborn trílógíu sem kom út á árunum 2006-2008. Slíkar bækur má fá á góðu verði.
Mistborn þrennan kynnir áhugaverðan heim til sögunnar. Það eru einhvers konar galdrar til, en þó ekki. Það eru ákveðnir einstaklingar sem geta borðað málma og með því að "brenna" málmana öðlast þeir eiginleika eins og að ýta á aðra málma eða toga sig að málmum. Þannig er t.d. hægt að fljúga.
Þetta er mjög vandað og úthugsað kerfi fyrir yfirnáttúru, sem skortir einmitt oft í svona furðusögum. Mistborn bækurnar eru mjög góðar og ég mæli með þeim. Plottið er kunnuglegt og mjög Star Wars-legt. Það þarf að ráða niðurlögum vonda keisaraveldisins, til þess ræðst mjög óvæntur einstaklingur úr lægstu lögum samfélagsins.
The Alloy of Law gerist í sama heimi um 300 árum eftir að trílógíunni líkur. Umhverfið minnir á Bandaríkin við upphaf 20.aldarinnar. Hér eru byssur, járnbrautir og bílar. Það er mjög áhugavert að lesa fantasíu í þessu umhverfi. Hér geta menn "ýtt á" byssukúlur og bandað þeim þannig frá sér.
Plottið sjálft er ekki mjög djúpt. Aðalpersónurnar eru einhves konar Jackie Chan / Chris Tucker dúó. Þeir eru ekki lögreglumenn en taka það þó upp með sjálfum sér að leysa dularfullt mál. Lestir eru rændar og verðmætir málmar hverfa. Konur eru teknar sem gíslar.
Upphefst frekar mikið blóðbað og takmarkalaus banter milli söguhetjanna. Í lok bókarinnar er opnað fyrir möguleikann á framhaldi sem mun vera á dagskrá hins afkastamikla höfundar.
Ég hafði gaman að þessari bók. Hún er samt heldur meira léttmeti en trílógían. Höfundur nýtur þess greinilega að skrifa í þessum heimi og þróar hann aðeins áfram. Áherslan er fullmikil á aksjón. Ég efast einnig um að bókin standi mjög vel nema sem framhald/hliðarspor við trílógíuna. Hún fær því 2,5 stjörnur. Mistborn þrennan fær fjórar stjörnur.
No comments:
Post a Comment