Monday, July 8, 2013

Bók #31: Reglur hússins

Ég tók bókina Reglur hússins á bókasafninu. Mig rámaði óljóst í meðmæli með þessari sögu. Kápan höfðaði líka til mín. Falleg ljósmynd af stúlku með bútasaumsteppi um sig. Höfundur er Jodi Picoult. Hún hefur skrifað fjölmargar bækur og nokkrar þeirra hafa verið þýddar á íslensku. Þar á meðal smellurinn -Á ég að gæta systur minnar?-



Textinn þekur 651 síðu. Útgefandi er FORLAGIÐ. Stórgóða íslenska þýðingu gerði  Magnea Matthíasdóttir.

Sagan sjálf hverfist um strákinn Jacob og fólk í kringum hann. Jacob er 18 ára og er haldinn heilkenni Aspergers. Hann hefur þannig áráttukennd áhugamál. Í æsku voru það risaeðlur en hin seinni ár hefur hann mikinn áhuga á vettvangi glæpa. Fingraför, blóðslettugreining og fleira. Það er þannig hluti af verðlaunakerfi hans að fá að setja upp morðgátu sem móðir hans fær svo að leysa.

Jacob á yngri bróðurinn Theo sem þjáist af litla-bróður-heilkenninu. Hann er afprýðissamur út í Jacob og þá athygli sem hann fær frá móður þeirra. Theo reynir að lifa eðlilegu lífi en það er víst þrautinni þyngra þegar bróðir manns er skrítinn.



Theo fær útrás fyrir tilfinningar sínar með því að brjótast inn í mannlaus hús. Hann hellir sér upp á te, gramsar í dótinu og kippir kannski einhverju með sér sem hann telur ekki verða saknað. Í einum slíkum leiðangri bregður honum þó í brún þegar stúlka reynist vera að koma úr sturtu. Hann flýr rakleiðis út.

Lesandinn kemst svo að því að stúlkan sú er leiðbeinandi Jacobs í félagsfærni. Seinna sama dag á Jacob svo tíma hjá stelpunni. Þegar hann snýr til baka er hann hamslaus og ruglaður. Það kemur á daginn að Jess er dáin. Lögreglan grunar Jacob og hann er settur í fangelsi.


Allt þetta gerist frekar snemma í bókinni. Næstu 500 síður eru svo ískrandi nákvæmar lýsingar á daglegu lífi Jacobs og fjölskyldu þar sem þau takast á við vandann og réttarhöldin. Það er ótrúlega mikið um endurtekningar. Til dæmis á þessu formi:
  1. Atburður X á sér stað
  2. Móðir Jacobs skýrir lögfræðingnum frá X
  3. Lögfræðingur yfirheyrir vitni um atburð X í vitnaleiðslu.
  4. Lesandinn er orðinn mjög þreyttur á atburði X

Það er allan tímann ljóst að Jacob og Theo vita meira um málið en þeir skýra frá. Maður les þannig áfram og bíður eftir að aðrir fái þessa vitneskju og sagan geti þannig tekið nýja stefnu. Þetta gerist hins vegar ekki fyrr en í blálokin og þannig endar bara sagan. Þetta er ekki nógu gott og það er einfaldlega ekki nógu mikið efni í bókinni fyrir þessa 651 síðu.

En verra er þó að gátan er alveg jafneinföld og lesandanum virðist frá upphafi. Það er engin dýpt, engin óvænt afhjúpun, ekkert óvænt. 


Það sem eftir stendur er frekar nákvæm persónusköpun á asperger-manninum. Aðrar persónur eru frekar klisjukenndar og grunnar. Það er pirraði litli bróðir, þreytta mamman sem gerir sitt besta, grjótharða rannsóknarlöggan og pabbinn sem gafst upp. Bestur er óreyndi lögfræðingurinn Oliver sem er fyndnasti og besti karakter bókarinnar.

Maður spyr sig líka hversu trúverðug persóna Jacobs er. Hann á að hafa asperger, en er samt afskaplega einhverfur. Hann þjáist á mjög ýktan hátt af hverju einasta atriði sem einkennir sjúkdóminn. Lýsingarnar á einhverfunni eru líka mjög endurtekningarsamar. Við heyrum mjög oft um að fötum Jacobs er raðað eftir litum inn í skáp. Einnig er mat raðað í litaröð. Það er reyndar mjög fyndið að lesa um hvíta matinn á mánudögum og hvernig bláu dagarnir eru leystir.

Niðurstaða: Reglur hússins er bók með snjalla hugmynd. Manni finnst áhugavert að kynna sér hvernig einhverfur maður bregst við morðákæru. Höfundur hefur þó ekki úr nógu miklu efni að vinna og bókin verður langdregin. Ég gef henni 1,5 stjörnur.

Wednesday, July 3, 2013

Bók #30: HÚN ER HORFIN

Ég tók bókina HÚN ER HORFIN eftir Gillian Flynn á bókasafninu um helgina og las á tveimur dögum. Hún kom út á frummálinu í fyrra en á íslensku nú nýlega. Textinn þekur 569 síður. Mér fannst þýðingin stundum stirðbusaleg og einstaka prentvillur var að finna. Þetta er einhvers konar spennu-glæpa-ástarsaga.


Það verður að segja eins og er að kápan er ekki mjög spennandi. Um er að ræða konu sem heldur fyrir augu sín. Hún er föl á hörund en með sterkan rauðan varalit. Andlitið er samhverft um kjöl bókarinnar. Myndin er í sjálfu sér ágæt, en þetta gerir kápuna einhvern veginn frekar ódýra. Enn frekar er dregið úr vægi kápunnar með tveimur plat-límmiðum sem segja okkur að bókin sé METSÖLUBÓK NEW YORK TIMES og Höfundur ársins 2012 hjá ENTERTAINMENT WEEKLY.

Alls ekki girnileg bók. Án meðmæla hefði ég líklega ekki haft rænu á að leigja hana. Kápan sem notuð er annars staðar í hinum siðmenntaða heimi er mun betri.


Sagan fjallar um þau hjónin Nick og Amy. Í upphafi bókar kemur Nick heim til sín og ekki ber á öðru en að Amy sé horfin. Inni eru ummerki um átök. Lögreglan kemur á staðinn. Lesandinn, en ekki löggan, fær að vita að Nick lýgur 5 sinnum að lögreglunni. Það er því ljóst frá upphafi að Nick er ekki allur þar sem hann er séður. Eitthvað býr að baki. Drap hann konuna sína? Við vitum það ekki. Við sjáum inn í hugarheim Nicks en við fáum ekki að vita allt. Nick virðist vera einhvers konar óáreiðanlegur sögumaður.

Amy er líka sögumaður. Óbeint. Annar hvor kafli framan af er dagbókarfærsla frá henni. Þar má lesa hennar sýn á ýmislegt úr hjónabandi þeirra Nicks. Ljóst er að þau hafa upplifað hluti á mjög misjafnan hátt. Nick virðist reyndar vera frekar mikill drullusokkur sem kemur illa fram við konuna sína. Lesandinn fær mikla samúð með Amy.

Um miðja bók verða síðan ákveðin umskipti. Við fáum innsýn í hvað Nick hefur verið að fela. En við sjáum líka að Amy hefur haft ýmislegt á prjónunum. Þetta setur fyrri hluta sögunnar í nýtt samhengi og maður vill helst lesa hann aftur.


Það er ómögulegt að segja meira frá sögunni án þess að spilla henni. 

Ég hafði gaman að þessari bók. Það er áhugavert að fylgjast með frekar misheppnuðu hjónabandi Amyjar og Nicks og sögu þess. Persónuflóran er ríkuleg og karakterar skemmtilegir. Sálfræðingarnir foreldrar Amyar eru mjög fyndnir en bestur er þó stjörnulögfræðingurinn Tanner Bolt sem Nick leitar til í neyð sinni. 

Sagan sjálf er spennandi og maður heldur áfram að fletta til að vita meira. Fyrsti hluti bókarinnar er þó bestur. Þegar manni hafa verið sögð leyndarmálin stendur ekkert mikið eftir nema úrlausn fléttunnar. 


Höfundur fer ekki beint augljósustu leiðina að því. Mér fannst allavega endirinn ekki sérlega fyrirsjáanlegur. En hann er heldur ekki mjög trúverðugur. Ég hef allavega meiri trú á bandarískri lögreglu en höfundur.

Niðurstaða: HÚN ER HORFIN er mjög spennandi og margslungin bók sem krefst þess að lesandinn haldi áfram að fletta. Tilvalin sumarbók. 4 stjörnur.

Monday, July 1, 2013

Bók #29: Suite Française

Ég las bókina Suite Française á sléttri viku. Efnið er franskt en ég las bókina á ensku. Bókin kom út á íslensku 2011 en enska útgáfan er frá 2006. Sagan af bókinni sjálfri er harmsaga því höfundurinn Iréne Némirovsky, sem var af gyðinga-ættum, ritaði hana í hernumdu Frakklandi í seinni heimsstyrjöld. Hún lést í Auswitch 1942. Bókin er ekki fullkláruð.


Kápan er falleg og sýnir mynd af pari sem býður á torgi með ferðatösku. Átakanleg mynd sem segir sögu. Á ensku útgáfunni stendur 'A MASTERPIECE' - Sunday Times. Á þeirri íslensku stendur 'MEISTARAVERK' - Observer. Furðulegt. Það skýrist reyndar í viðauka bókarinnar að höfundurinn sjálfur reyndi að sannfæra sig um að bókin væri meistaraverk. Kannski ekki skrítið að gagnrýnendur sjái sér leik á borði að staðfesta þá sýn. 


Efni bókar skiptist í tvo hluta. Storm in June og Dolce. Höfundur sér fyrir sér 2-3 hluta í viðbót. Persónur skarast að einhverju leyti milli hlutanna og sviðið er það sama. Samt stendur hvor um sig frekar sjálfstætt. Raunar eru hlutarnir mjög ólíkir.

Grunnurinn að bókinni er innrás og herseta Þjóðverja í Frakklandi. Í Storm in June er aðdragandinn sýndur. Síðan er skýrt frá flótta ýmissa fjölskyldna frá París. Það er afskaplega vel gert. Vandamálið er að höfundur segir söguna frjá sjónarhóli ýmissa og ólíkra fjölskyldna. Það eru aristókratar, rithöfundar, bankamenn og fleiri. Það er nokkuð ruglandi að byrja á bókinni og halda öllum þessum þráðum. Sumar persónur eru líka mjög líkar.

Það er átakanlegt að lesa um fólk sem flýr út í óvissuna. Lendir í loftárásum á vegum úti, reynir að snapa mat og gistingu hjá ókunnugum. Að mörgu leyti er þetta besta leiðin til að fá tilfinningu fyrir sögunni. Að lesa á þennan hátt hvað fólk gekk í gegnum er betri skóli en að skima wikipediu-grein um hernám Frakklands.


Seinni hlutinn er miklu heildstæðari. Þar er aðalpersónan Lucile. Ung kona sem býr á heimili tengdafjölskyldunnar. Maðurinn hennar er stríðsfangi og ekki er kært á milli Lucile og tengdamóðurinnar. Þau búa í litlu þorpi sem er bækistöð Þjóðverja. Einn þýskur yfirmaður býr á heimili þeirra og mikilvægt þema þessa hlutar er mögulegt ástarsamband hans við Lucile.

Við fylgjumst líka með mannlífinu í þorpinu og samskiptum fólksins við hernámsliðið. Að mörgu leyti minnir þetta á sjónvarpsseríuna Matador, sérstaklega ein senan sem er ítarleg lýsing á veislu sem þjóðverjarnir slá upp. Hlutanum líkur síðan með því að Þjóðverjarnir eru sendir á austurvígstöðvarnar fljótlega eftir að stríðið við Sovétríkin hefst. 

Eftir það taka við tveir viðaukar og síðan formáli að frönsku útgáfu bókarinnar.. Fáránlegt. Ef það á að vera formáli, hafið hann þá fremst en ekki aftast. 

Fyrri viðaukin er dagbókarskrif höfundar í stríðinu. Þar má lesa um ástandið í landinu, hugleiðingar hennar um skáldsöguna, persónur hennar og hverjir næstu hlutar eru. Þetta er erfitt að lesa. Það er að sumu leyti óþægilegt að fá svona beina innsýn í hugarheim höfundar og túlkun hans sjálfs á efni bókarinnar. Það skemmir aðeins fyrir manns eigin túlkun. Á hinn bóginn er áhugavert að sjá hvað höfundur hefur hugsað sér að "láta gerast næst". Þetta spillir þó líka fyrir upplifuninni því auðvitað les maður bókina sem heildstætt verk eins og hún er. 


Síðari viðaukinn kemur efni bókarinnar ekki beint við. Um er að ræða bréfaskriftir. Aðallega milli höfundar og útgefandans og síðan eiginmanns höfundar og útgefandans. Þetta er átakanlegt efni. Maður hugsar um mannvonskuna og ógeðið. 

Niðurstaða: Suite Française er flott bók sem gefur innsýn í erfiðan veruleika. Með fylgir raunasaga höfundar hvort sem manni líkar betur eða verr. Þrátt fyrir allt fannst mér ég aldrei detta inn í söguna. Kannski af því hún er ókláruð.  Ég gef bókinni 3 stjörnur.