Ég las bókina Suite Française á sléttri viku. Efnið er franskt en ég las bókina á ensku. Bókin kom út á íslensku 2011 en enska útgáfan er frá 2006. Sagan af bókinni sjálfri er harmsaga því höfundurinn Iréne Némirovsky, sem var af gyðinga-ættum, ritaði hana í hernumdu Frakklandi í seinni heimsstyrjöld. Hún lést í Auswitch 1942. Bókin er ekki fullkláruð.
Kápan er falleg og sýnir mynd af pari sem býður á torgi með ferðatösku. Átakanleg mynd sem segir sögu. Á ensku útgáfunni stendur 'A MASTERPIECE' - Sunday Times. Á þeirri íslensku stendur 'MEISTARAVERK' - Observer. Furðulegt. Það skýrist reyndar í viðauka bókarinnar að höfundurinn sjálfur reyndi að sannfæra sig um að bókin væri meistaraverk. Kannski ekki skrítið að gagnrýnendur sjái sér leik á borði að staðfesta þá sýn.
Efni bókar skiptist í tvo hluta. Storm in June og Dolce. Höfundur sér fyrir sér 2-3 hluta í viðbót. Persónur skarast að einhverju leyti milli hlutanna og sviðið er það sama. Samt stendur hvor um sig frekar sjálfstætt. Raunar eru hlutarnir mjög ólíkir.
Grunnurinn að bókinni er innrás og herseta Þjóðverja í Frakklandi. Í Storm in June er aðdragandinn sýndur. Síðan er skýrt frá flótta ýmissa fjölskyldna frá París. Það er afskaplega vel gert. Vandamálið er að höfundur segir söguna frjá sjónarhóli ýmissa og ólíkra fjölskyldna. Það eru aristókratar, rithöfundar, bankamenn og fleiri. Það er nokkuð ruglandi að byrja á bókinni og halda öllum þessum þráðum. Sumar persónur eru líka mjög líkar.
Það er átakanlegt að lesa um fólk sem flýr út í óvissuna. Lendir í loftárásum á vegum úti, reynir að snapa mat og gistingu hjá ókunnugum. Að mörgu leyti er þetta besta leiðin til að fá tilfinningu fyrir sögunni. Að lesa á þennan hátt hvað fólk gekk í gegnum er betri skóli en að skima wikipediu-grein um hernám Frakklands.
Seinni hlutinn er miklu heildstæðari. Þar er aðalpersónan Lucile. Ung kona sem býr á heimili tengdafjölskyldunnar. Maðurinn hennar er stríðsfangi og ekki er kært á milli Lucile og tengdamóðurinnar. Þau búa í litlu þorpi sem er bækistöð Þjóðverja. Einn þýskur yfirmaður býr á heimili þeirra og mikilvægt þema þessa hlutar er mögulegt ástarsamband hans við Lucile.
Við fylgjumst líka með mannlífinu í þorpinu og samskiptum fólksins við hernámsliðið. Að mörgu leyti minnir þetta á sjónvarpsseríuna Matador, sérstaklega ein senan sem er ítarleg lýsing á veislu sem þjóðverjarnir slá upp. Hlutanum líkur síðan með því að Þjóðverjarnir eru sendir á austurvígstöðvarnar fljótlega eftir að stríðið við Sovétríkin hefst.
Eftir það taka við tveir viðaukar og síðan formáli að frönsku útgáfu bókarinnar.. Fáránlegt. Ef það á að vera formáli, hafið hann þá fremst en ekki aftast.
Fyrri viðaukin er dagbókarskrif höfundar í stríðinu. Þar má lesa um ástandið í landinu, hugleiðingar hennar um skáldsöguna, persónur hennar og hverjir næstu hlutar eru. Þetta er erfitt að lesa. Það er að sumu leyti óþægilegt að fá svona beina innsýn í hugarheim höfundar og túlkun hans sjálfs á efni bókarinnar. Það skemmir aðeins fyrir manns eigin túlkun. Á hinn bóginn er áhugavert að sjá hvað höfundur hefur hugsað sér að "láta gerast næst". Þetta spillir þó líka fyrir upplifuninni því auðvitað les maður bókina sem heildstætt verk eins og hún er.
Síðari viðaukinn kemur efni bókarinnar ekki beint við. Um er að ræða bréfaskriftir. Aðallega milli höfundar og útgefandans og síðan eiginmanns höfundar og útgefandans. Þetta er átakanlegt efni. Maður hugsar um mannvonskuna og ógeðið.
Niðurstaða: Suite Française er flott bók sem gefur innsýn í erfiðan veruleika. Með fylgir raunasaga höfundar hvort sem manni líkar betur eða verr. Þrátt fyrir allt fannst mér ég aldrei detta inn í söguna. Kannski af því hún er ókláruð. Ég gef bókinni 3 stjörnur.
No comments:
Post a Comment