Ég tók bókina Reglur hússins á bókasafninu. Mig rámaði óljóst í meðmæli með þessari sögu. Kápan höfðaði líka til mín. Falleg ljósmynd af stúlku með bútasaumsteppi um sig. Höfundur er Jodi Picoult. Hún hefur skrifað fjölmargar bækur og nokkrar þeirra hafa verið þýddar á íslensku. Þar á meðal smellurinn -Á ég að gæta systur minnar?-
Textinn þekur 651 síðu. Útgefandi er FORLAGIÐ. Stórgóða íslenska þýðingu gerði Magnea Matthíasdóttir.
Sagan sjálf hverfist um strákinn Jacob og fólk í kringum hann. Jacob er 18 ára og er haldinn heilkenni Aspergers. Hann hefur þannig áráttukennd áhugamál. Í æsku voru það risaeðlur en hin seinni ár hefur hann mikinn áhuga á vettvangi glæpa. Fingraför, blóðslettugreining og fleira. Það er þannig hluti af verðlaunakerfi hans að fá að setja upp morðgátu sem móðir hans fær svo að leysa.
Jacob á yngri bróðurinn Theo sem þjáist af litla-bróður-heilkenninu. Hann er afprýðissamur út í Jacob og þá athygli sem hann fær frá móður þeirra. Theo reynir að lifa eðlilegu lífi en það er víst þrautinni þyngra þegar bróðir manns er skrítinn.
Theo fær útrás fyrir tilfinningar sínar með því að brjótast inn í mannlaus hús. Hann hellir sér upp á te, gramsar í dótinu og kippir kannski einhverju með sér sem hann telur ekki verða saknað. Í einum slíkum leiðangri bregður honum þó í brún þegar stúlka reynist vera að koma úr sturtu. Hann flýr rakleiðis út.
Lesandinn kemst svo að því að stúlkan sú er leiðbeinandi Jacobs í félagsfærni. Seinna sama dag á Jacob svo tíma hjá stelpunni. Þegar hann snýr til baka er hann hamslaus og ruglaður. Það kemur á daginn að Jess er dáin. Lögreglan grunar Jacob og hann er settur í fangelsi.
Allt þetta gerist frekar snemma í bókinni. Næstu 500 síður eru svo ískrandi nákvæmar lýsingar á daglegu lífi Jacobs og fjölskyldu þar sem þau takast á við vandann og réttarhöldin. Það er ótrúlega mikið um endurtekningar. Til dæmis á þessu formi:
- Atburður X á sér stað
- Móðir Jacobs skýrir lögfræðingnum frá X
- Lögfræðingur yfirheyrir vitni um atburð X í vitnaleiðslu.
- Lesandinn er orðinn mjög þreyttur á atburði X
Það er allan tímann ljóst að Jacob og Theo vita meira um málið en þeir skýra frá. Maður les þannig áfram og bíður eftir að aðrir fái þessa vitneskju og sagan geti þannig tekið nýja stefnu. Þetta gerist hins vegar ekki fyrr en í blálokin og þannig endar bara sagan. Þetta er ekki nógu gott og það er einfaldlega ekki nógu mikið efni í bókinni fyrir þessa 651 síðu.
En verra er þó að gátan er alveg jafneinföld og lesandanum virðist frá upphafi. Það er engin dýpt, engin óvænt afhjúpun, ekkert óvænt.
Það sem eftir stendur er frekar nákvæm persónusköpun á asperger-manninum. Aðrar persónur eru frekar klisjukenndar og grunnar. Það er pirraði litli bróðir, þreytta mamman sem gerir sitt besta, grjótharða rannsóknarlöggan og pabbinn sem gafst upp. Bestur er óreyndi lögfræðingurinn Oliver sem er fyndnasti og besti karakter bókarinnar.
Maður spyr sig líka hversu trúverðug persóna Jacobs er. Hann á að hafa asperger, en er samt afskaplega einhverfur. Hann þjáist á mjög ýktan hátt af hverju einasta atriði sem einkennir sjúkdóminn. Lýsingarnar á einhverfunni eru líka mjög endurtekningarsamar. Við heyrum mjög oft um að fötum Jacobs er raðað eftir litum inn í skáp. Einnig er mat raðað í litaröð. Það er reyndar mjög fyndið að lesa um hvíta matinn á mánudögum og hvernig bláu dagarnir eru leystir.
Niðurstaða: Reglur hússins er bók með snjalla hugmynd. Manni finnst áhugavert að kynna sér hvernig einhverfur maður bregst við morðákæru. Höfundur hefur þó ekki úr nógu miklu efni að vinna og bókin verður langdregin. Ég gef henni 1,5 stjörnur.
Niðurstaða: Reglur hússins er bók með snjalla hugmynd. Manni finnst áhugavert að kynna sér hvernig einhverfur maður bregst við morðákæru. Höfundur hefur þó ekki úr nógu miklu efni að vinna og bókin verður langdregin. Ég gef henni 1,5 stjörnur.
Ég gafst upp á að lesa Picoult eftir að hafa lesið tvær bækur eftir hana, Handle with Care og My Sister's Keeper, sem mér fannst of líkar. Þær fjölluðu báðar um sjúkdóm á barni og réttarhöld sem voru einhvernveginn tengd sjúkdómnum. Það sem mér fannst samt verst við bækurnar var það hvernig Picoult var að neyða ákveðnar tilfinningar út úr lesandanum, ég kalla þær tilfinningaklám.
ReplyDelete