Wednesday, July 3, 2013

Bók #30: HÚN ER HORFIN

Ég tók bókina HÚN ER HORFIN eftir Gillian Flynn á bókasafninu um helgina og las á tveimur dögum. Hún kom út á frummálinu í fyrra en á íslensku nú nýlega. Textinn þekur 569 síður. Mér fannst þýðingin stundum stirðbusaleg og einstaka prentvillur var að finna. Þetta er einhvers konar spennu-glæpa-ástarsaga.


Það verður að segja eins og er að kápan er ekki mjög spennandi. Um er að ræða konu sem heldur fyrir augu sín. Hún er föl á hörund en með sterkan rauðan varalit. Andlitið er samhverft um kjöl bókarinnar. Myndin er í sjálfu sér ágæt, en þetta gerir kápuna einhvern veginn frekar ódýra. Enn frekar er dregið úr vægi kápunnar með tveimur plat-límmiðum sem segja okkur að bókin sé METSÖLUBÓK NEW YORK TIMES og Höfundur ársins 2012 hjá ENTERTAINMENT WEEKLY.

Alls ekki girnileg bók. Án meðmæla hefði ég líklega ekki haft rænu á að leigja hana. Kápan sem notuð er annars staðar í hinum siðmenntaða heimi er mun betri.


Sagan fjallar um þau hjónin Nick og Amy. Í upphafi bókar kemur Nick heim til sín og ekki ber á öðru en að Amy sé horfin. Inni eru ummerki um átök. Lögreglan kemur á staðinn. Lesandinn, en ekki löggan, fær að vita að Nick lýgur 5 sinnum að lögreglunni. Það er því ljóst frá upphafi að Nick er ekki allur þar sem hann er séður. Eitthvað býr að baki. Drap hann konuna sína? Við vitum það ekki. Við sjáum inn í hugarheim Nicks en við fáum ekki að vita allt. Nick virðist vera einhvers konar óáreiðanlegur sögumaður.

Amy er líka sögumaður. Óbeint. Annar hvor kafli framan af er dagbókarfærsla frá henni. Þar má lesa hennar sýn á ýmislegt úr hjónabandi þeirra Nicks. Ljóst er að þau hafa upplifað hluti á mjög misjafnan hátt. Nick virðist reyndar vera frekar mikill drullusokkur sem kemur illa fram við konuna sína. Lesandinn fær mikla samúð með Amy.

Um miðja bók verða síðan ákveðin umskipti. Við fáum innsýn í hvað Nick hefur verið að fela. En við sjáum líka að Amy hefur haft ýmislegt á prjónunum. Þetta setur fyrri hluta sögunnar í nýtt samhengi og maður vill helst lesa hann aftur.


Það er ómögulegt að segja meira frá sögunni án þess að spilla henni. 

Ég hafði gaman að þessari bók. Það er áhugavert að fylgjast með frekar misheppnuðu hjónabandi Amyjar og Nicks og sögu þess. Persónuflóran er ríkuleg og karakterar skemmtilegir. Sálfræðingarnir foreldrar Amyar eru mjög fyndnir en bestur er þó stjörnulögfræðingurinn Tanner Bolt sem Nick leitar til í neyð sinni. 

Sagan sjálf er spennandi og maður heldur áfram að fletta til að vita meira. Fyrsti hluti bókarinnar er þó bestur. Þegar manni hafa verið sögð leyndarmálin stendur ekkert mikið eftir nema úrlausn fléttunnar. 


Höfundur fer ekki beint augljósustu leiðina að því. Mér fannst allavega endirinn ekki sérlega fyrirsjáanlegur. En hann er heldur ekki mjög trúverðugur. Ég hef allavega meiri trú á bandarískri lögreglu en höfundur.

Niðurstaða: HÚN ER HORFIN er mjög spennandi og margslungin bók sem krefst þess að lesandinn haldi áfram að fletta. Tilvalin sumarbók. 4 stjörnur.

No comments:

Post a Comment