Monday, October 28, 2013

Bók #45: LET THE GREAT WORLD SPIN

Ég fékk bókina Let The Great World spin á bókasafninu. Ég mundi eftir nafninu vegna þess að bókin hafði verið nokkuð í umræðunni. Hún fékk meðal annars National Book Award 2009.


Bókin er eftir írska rithöfundinn Colum McCann, hann hefur skrifað nokkrar bækur og sú nýjasta kom út á þessu ári. Let The Great World Spin er 349 síður, sem sagt ekkert voðalega löng, en samt var ég afskaplega lengi að lesa hana. Ástæðan er sú að það er mjög erfitt að detta inn í söguna. Reyndar gerðist það aldrei almennilega hjá mér.

Grunnur sögunnar, það sem kápan sýnir, og nefnt er aftan á bókinni, er atburður sem átti sér stað í ágúst 1974. Þá gekk náungi á línu milli tvíburaturnanna í New York. Það er þó ekki þannig að bókin fjalli um þennan atburð. Þetta afrek er hins vegar notað sem eins konar band sem fléttar saman ólíka þræði í bókinni. 

Fyrstu 70 síðurnar segja frá lífi írsku bræðranna Corrigan og Cieran. Maður kynnist erfiðri æsku þeirra, áfengisvanda, trúarvakningu Corrigans og seinna lífinu í New York. Corrigan lifir meinsemdarlífi og leyfir vændiskonunum í hverfinu að nota klósettið sitt og hjálpar þeim almennt. Hann deyr svo á blaðsíðu 70 þegar hann keyrir vændiskonu heim úr réttarsal.. 


Þetta er frekar frústrerandi fyrir lesandann sem hefur byggt tengingu við þennan karakter sem maður hafði ímyndað sér að væri söguhetja bókarinnar. Í staðinn færist fókusinn á miðaldra húsmóður sem er að vinna sig í gegnum sorgina eftir dauða sonarins í Víetnam-stríðinu. Hún er líka eiginkona dómarans sem kemur að máli vændiskonunnar og línudansarans.

Svona heldur bókin áfram. Það eru 11 "aðalpersónur" sem allar allar tengjast einhvern veginn vændiskonunni og línudasaranum. Sögurnar eru náttúrulega misáhugaverðar og snjallar.

Almennt myndi ég segja að þetta sé nokkuð vel gert hjá höfundi. Manni finnast persónurnar trúverðugar og venslin á milli þeirra ekkert mjög langsótt. Ég náði hins vegar aldrei alvöru tengingu við þessa sögu. Það var ekkert sem snart mig eða hvatti mig til að halda áfram að lesa. 

Maður verður að sætta sig við að bókin er ekki eiginleg skáldsaga heldur meira eins og smásagnasafn. Nálægt endanum er saga línudansarans sögð. Líklega athyglisverðasta sögubrotið í bókinni ásamt tengingunni við dómarann Salómon. Kannski er þetta allt saman yfir höfuð áhugaverðara ef maður er New York-búi. Borgin er vissulega eins konar aðalpersóna í sögunni. 


Niðurstaða: LET THE GREAT WORLD SPIN olli mér vonbrigðum. Ég átti erfitt með frásagnarformið og náði aldrei tengingu við söguna eða aðalpersónurnar. Margt er þó ágætlega gert. Tvær stjörnur.

Tuesday, October 22, 2013

Bók #44: THE MAP AND THE TERRITORY

Í sumar las ég bókina The map and the territory. Nýjasta bókin eftir franska rithöfundinn Michel Houellebecq. Bókin hefur komið út á íslensku og heitir Kortið og landið. Ég sá dálítið eftir því við lesturinn að hafa ekki útvegað mér íslensku þýðinguna. Sagan þekur 291 síðu.


Höfundur hefur sent frá sér nokkrar bækur. Þekktust og best er bókin Öreindirnar. Aðall Houellebecqs eru persónurnar í sögunum og plottið sjálft vill hálfpartinn gleymast. Ég þurfti að minnsta kosti að fletta upp á netinu til að rifja upp söguþráðinn. Bækurnar skilja frekar eftir sig ákveðna tilfinningu, jafnvel ónotatilfinningu. Þetta form er fullkomnað í Öreindunum þar sem við fylgjumst nákvæmlega með lífi tveggja bræðra sem passa illa inn í samfélagið.

Samt er ákveðið þema í hverri sögu. Öreindirnar fjalla um klónun og sagan veltir upp þeirri spurningu hvaða máli það geti skipt fyrir mannkynið að kynlíf sé ekki endilega nauðsynlegt til  að tegundinn "lifi af". 

Þetta existensjalíska þema passar mjög vel fyrir söguna og aðalpersónurnar í Öreindunum.


Kortið og landið fetar svipaða slóð. Aðalpersónan er listamaðurinn Jed sem er í frekar litlu sambandi við umheiminn og virðist hafa takmarkaða þörf fyrir mannleg samskipti. Honum tekst þó að meika það frekar óvænt með því að búa til listaverk með ljósmyndum af landakortum. Þetta skilur eftir sig athyglisverða pælingu hvort kort geti haft meira gildi í sjálfu sér en staðurinn sjálfur. 

Lítið fer fyrir Jed næstu 10 árin. Næsta stóra mál hjá honum verða portrettmyndir af fólki. Honum tekst að sannfæra rithöfundinn Michel Houellebecq til að sitja fyrir á einni þeirra. Höfundur skrifar sjálfan sig sem sagt sem persónu í bókinni. Sú persóna er ekkert sérstaklega.. geðfelld. Hennar bíða líka hræðileg örlög.

Höfundur sjálfur er þekktur fyrir að vera einfari og kynlegur kvistur. Þannig tengir maður óhjákvæmilega aðalpersónurnar í sögum hans við hann sjálfan. Það er þess vegna skemmtileg flétta að skrifa höfundinn sjálfan sem persónu. Hver er hinn raunverulega málpípa höfundar? Persónan sem heitir það sama eða sú sem maður samsvaraði með höfundi í byrjun.

Jed verður enn frægari og ríkari fyrir portrettmyndir sínar og verðmætust af öllum er auðvitað myndin af Houellebecq. 

Þema bókarinnar er greinilega listaheimurinn. Ég er ekki viss um að það sé mjög góður grunnur fyrir þá gerð af sögu sem höfundur er að reyna að skrifa. Vissulega geta listamenn verið einfararar. Jed einangrar sig svo gott sem árum saman. Þetta býður samt ekki upp á nógu áhugaverðar fléttur í frásögn

Niðurstaða: Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa bók. Ég átti einhvern veginn von á meiru og mér fannst söguhetjan bara ekki nógu áhugaverð. Engu að síður alls ekki vond bók. Ég gef henni 2,5 stjörnur. Öreindirnar er áfram langbesta bók höfundar.

Wednesday, October 16, 2013

Bók #43: Rosie verkefnið

Ég tók bókina Rosie verkefnið á bókasafni. Ég hafði engar forhugmyndir um efni bókarinnar. Höfundur er vísindamaðurinn Graeme Simsion. Þetta er hans fyrsta skáldsaga. Sagan er 304 síður og hún kom út á þessu ári bæði á ensku og íslensku.


Bókin fjallar um Don. Hann er prófessor í erfðafræði við háskóla í Ástralíu. Það er aldrei sagt beinum orðum í bókinni en það er augljóst að hann liggur einhvers staðar á einhverfurófinu. Hann er sem sagt afburðasnjall og góður í að læra nýja hluti, hvort sem það er dans, að blanda hanastél eða erfðafræði. Don er mjög skipulagður maður. Eldar mat samkvæmt nákvæmri vikuáætlun og þrífur íbúðina reglulega og nákvæmlega.

Hann skortir hins vegar félagsfærni og hæfileikann til að lesa í aðstæður. Þannig er hann orðinn fertugur, á bara tvo vini og enga kærustu. Hann ákveður að nú sé komið nóg og byrjar Eiginkonuverkefnið. Það felst í því að Don útbýr spurningalista með þeim helstu eiginleikum sem hann telur tilvonandi eiginkonu þurfa að búa yfir. Hún verður að vera greind, stundvís, má alls ekki reykja, helst ekki drekka og svo framvegis.


Ekki reynast margar konur uppfylla hinar ströngu kröfur. Það endar hins vegar þannig að Don hittir hana Rosie í gegnum verkefnið. Hún er algjörlega á skjön við kröfur Dons en samt verður hann nokkuð hrifinn af henni, þó hann afskrifi hana reyndar framan af algjörlega sem eiginkonuefni.

Bókin er því í reynd rómantísk gamansaga. Þetta er eins konar þroskasaga fyrir Don. Hann hjálpar Rosie að leita að uppruna sínum. Hún telur nefnilega að uppeldisfaðir hennar sé ekki blóðfaðirinn. Á þessu ferðalagi lærir Don ýmislegt um sjálfan sig.

Endirinn er því nokkuð fyrirsjáanlegur. Don leggur meira á sig til að verða "eins og hinir" og falla í kramið. Hann hættir að tala í formlegum frösum og afnemur skipulagða máltíðakerfið sitt.

Sagan er þannig nokkuð formúluleg en það er ekkert vandamál fyrir mér. Aðall bókarinnar eru persónurnar og þá sérílagi Don. Höfundur gefur frábæra innsýn í hugarheim hins skipulagða sérvitra manns sem á erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Manni líkar sjálfkrafa mjög vel við Don og fær sting í hjartað þegar hann fer út af sporinu með setningu eins og "Ég var að endurmeta tilboðið þitt um kynlíf".


Ég sprakk oft úr hlátri við lestur bókarinnar. Á fyrirlestri um heilkenni Aspergers eru nokkrir gestir sem haldnir eru samnefndu heilkenni. Söguhetjan reynir að sýna fram á að Asperger sé ekki sjúkdómur. Þaðan komi t.d. gagnlegar hugmyndir að lausnum:
"Ímyndaðu þér", sagði ég, "að þú sért í felum í kjallara. Óvinirnir eru að leita að ykkur, þér og vinum þínum. Enginn má gefa frá sér minnsta hljóð, en barnið þitt grætur". Ég lék þetta eftir, eins og Gene hafði gert, til að gera söguna trúverðugri. "Vaaaa." Ég þagnaði smástund til að auka áhrifin. "Þú ert með byssu." [...] "Með hljóðdeyfi. Þeir nálgast. Þeir ætla að drepa ykkur öll. Hvað áttu að gera? Barnið orgar - " Krakkarnir gátu ekki beðið eftir því að svara. Einn hrópaði: "Skjóta barnið, " og fyrr en varði æptu þeir hver upp í annan: "Skjóta barnið, skjóta barnið." 
"Skjóta óvininn" Svo bætti annar við: "Úr launsátri." Uppástungurnar ráku hver aðra. 
"Nota barnið sem tálbeitu. " 
"Hvað erum við með margar byssu?"
"Halda fyrir munninn á því".
"Hvað getur það lifað lengi án þess að fá loft?" 

Niðurstaða: ROSIE VERKEFNIÐ er afar vel skrifuð bók. Drepfyndin og frábær persónusköpun. Ég gef henni 4,5 stjörnur.

Thursday, October 10, 2013

Bók #42: Fólkið frá Öndverðu óttast ekki

Ég fékk bókina Fólkið frá Öndverðu óttast ekki senda heim í gegnum NEON-klúbbinn. Höfundurinn er Shani Boianjiu. Hún kemur frá Ísrael. Þetta er hennar fyrsta skáldsaga. Kápan er ansi áhrifarík og flott. Mjög vel lýsandi fyrir efni bókarinnar



Í grunninn fjallar bókin um þrjár vinkonur sem eru í menntaskóla í þorpi í Ísrael. Þær virðast lifa frekar hversdagslegu lífi, hugsa um stráka og farsíma, en annars fær lesandinn ekki sérlega langan tíma til að kynnast þeim. Það sem allt snýst um er að ganga í herinn. Það er sem sagt herskylda þarna. Ekki virðist vera fyrirsjáanlegt hvenær fólk er kallað í herinn svo stúlkurnar fara á mismunandi tímum.  

Eftir þessa ágætu byrjun fer bókin bara fullkomnlega út af sporinu. Sagan segir okkur eitthvað frá reynslu þeirra í hernum. Hún er sem sagt afar vond, þó stúlkurnar virðist frekar hæfar, hver á sínu sviði. Vandamálið er að sagan er alltof sundurlaus og skortir söguþráð og sannfærandi persónuuppbyggingu. 

Grunnvandamálið er að það er mjög erfitt fyrir lesandann að gera greinamun á söguhetjunum þremur. Jújú, ein á að vera óvenjulega falleg, önnur félagsfælin, en höfundur skrifar allan textann í sama sundurlausa hugsanaflæðis-stílnum. 


Við fáum smá innsýn í lífið eftir herinn. Ein er orðin þunglynd, önnur vinnur á samlokubar og geymir gamlan mann í hlekkjum heima hjá sér á daginn. Það er vissulega fyndnasta, ruglaðasta, hræðilegasta og skrítnasta atriði sögunnar.

Það virðist ekki vera mikill metnaður eða lífsgleði hjá stúlkunum. Maður á væntanlega að skilja það sem svo að hermennskan hafi verið svona skemmandi. Sem er svo sem ekki skrítið, en höfundur hefði þá mátt eyða aðeins meira púðri í að byggja upp karaktera metnaðarfullra menntaskólastelpnanna. Eða kannski er það alls ekki hugmyndin, heldur sú að latar og áhugalausar ungar konur halda áfram að vera latar og metnaðarlausar jafnvel eftir að hafa gegnt hermennsku? Hver veit, ekki ég. Höfundur hjálpar manni lítið við að túlka þessa sundurlausu atburði.

Niðurstaða: Á ákveðinn hátt er bókin áhugaverð innsýn í Ísrael og hvernig það er að búa í ríki sem er við stöðugt stríðsástand. Þetta er bara ekki nógu vel gert. Ég var mjög lengi að lesa þessar 332 blaðsíður. Ég myndi ekki mæla með þessari bók við neinn. Ein stjarna.