Ég fékk bókina Let The Great World spin á bókasafninu. Ég mundi eftir nafninu vegna þess að bókin hafði verið nokkuð í umræðunni. Hún fékk meðal annars National Book Award 2009.
Bókin er eftir írska rithöfundinn Colum McCann, hann hefur skrifað nokkrar bækur og sú nýjasta kom út á þessu ári. Let The Great World Spin er 349 síður, sem sagt ekkert voðalega löng, en samt var ég afskaplega lengi að lesa hana. Ástæðan er sú að það er mjög erfitt að detta inn í söguna. Reyndar gerðist það aldrei almennilega hjá mér.
Grunnur sögunnar, það sem kápan sýnir, og nefnt er aftan á bókinni, er atburður sem átti sér stað í ágúst 1974. Þá gekk náungi á línu milli tvíburaturnanna í New York. Það er þó ekki þannig að bókin fjalli um þennan atburð. Þetta afrek er hins vegar notað sem eins konar band sem fléttar saman ólíka þræði í bókinni.
Fyrstu 70 síðurnar segja frá lífi írsku bræðranna Corrigan og Cieran. Maður kynnist erfiðri æsku þeirra, áfengisvanda, trúarvakningu Corrigans og seinna lífinu í New York. Corrigan lifir meinsemdarlífi og leyfir vændiskonunum í hverfinu að nota klósettið sitt og hjálpar þeim almennt. Hann deyr svo á blaðsíðu 70 þegar hann keyrir vændiskonu heim úr réttarsal..
Þetta er frekar frústrerandi fyrir lesandann sem hefur byggt tengingu við þennan karakter sem maður hafði ímyndað sér að væri söguhetja bókarinnar. Í staðinn færist fókusinn á miðaldra húsmóður sem er að vinna sig í gegnum sorgina eftir dauða sonarins í Víetnam-stríðinu. Hún er líka eiginkona dómarans sem kemur að máli vændiskonunnar og línudansarans.
Almennt myndi ég segja að þetta sé nokkuð vel gert hjá höfundi. Manni finnast persónurnar trúverðugar og venslin á milli þeirra ekkert mjög langsótt. Ég náði hins vegar aldrei alvöru tengingu við þessa sögu. Það var ekkert sem snart mig eða hvatti mig til að halda áfram að lesa.
Maður verður að sætta sig við að bókin er ekki eiginleg skáldsaga heldur meira eins og smásagnasafn. Nálægt endanum er saga línudansarans sögð. Líklega athyglisverðasta sögubrotið í bókinni ásamt tengingunni við dómarann Salómon. Kannski er þetta allt saman yfir höfuð áhugaverðara ef maður er New York-búi. Borgin er vissulega eins konar aðalpersóna í sögunni.
Niðurstaða: LET THE GREAT WORLD SPIN olli mér vonbrigðum. Ég átti erfitt með frásagnarformið og náði aldrei tengingu við söguna eða aðalpersónurnar. Margt er þó ágætlega gert. Tvær stjörnur.