Ég fékk bókina Fólkið frá Öndverðu óttast ekki senda heim í gegnum NEON-klúbbinn. Höfundurinn er Shani Boianjiu. Hún kemur frá Ísrael. Þetta er hennar fyrsta skáldsaga. Kápan er ansi áhrifarík og flott. Mjög vel lýsandi fyrir efni bókarinnar
Í grunninn fjallar bókin um þrjár vinkonur sem eru í menntaskóla í þorpi í Ísrael. Þær virðast lifa frekar hversdagslegu lífi, hugsa um stráka og farsíma, en annars fær lesandinn ekki sérlega langan tíma til að kynnast þeim. Það sem allt snýst um er að ganga í herinn. Það er sem sagt herskylda þarna. Ekki virðist vera fyrirsjáanlegt hvenær fólk er kallað í herinn svo stúlkurnar fara á mismunandi tímum.
Eftir þessa ágætu byrjun fer bókin bara fullkomnlega út af sporinu. Sagan segir okkur eitthvað frá reynslu þeirra í hernum. Hún er sem sagt afar vond, þó stúlkurnar virðist frekar hæfar, hver á sínu sviði. Vandamálið er að sagan er alltof sundurlaus og skortir söguþráð og sannfærandi persónuuppbyggingu.
Grunnvandamálið er að það er mjög erfitt fyrir lesandann að gera greinamun á söguhetjunum þremur. Jújú, ein á að vera óvenjulega falleg, önnur félagsfælin, en höfundur skrifar allan textann í sama sundurlausa hugsanaflæðis-stílnum.
Við fáum smá innsýn í lífið eftir herinn. Ein er orðin þunglynd, önnur vinnur á samlokubar og geymir gamlan mann í hlekkjum heima hjá sér á daginn. Það er vissulega fyndnasta, ruglaðasta, hræðilegasta og skrítnasta atriði sögunnar.
Það virðist ekki vera mikill metnaður eða lífsgleði hjá stúlkunum. Maður á væntanlega að skilja það sem svo að hermennskan hafi verið svona skemmandi. Sem er svo sem ekki skrítið, en höfundur hefði þá mátt eyða aðeins meira púðri í að byggja upp karaktera metnaðarfullra menntaskólastelpnanna. Eða kannski er það alls ekki hugmyndin, heldur sú að latar og áhugalausar ungar konur halda áfram að vera latar og metnaðarlausar jafnvel eftir að hafa gegnt hermennsku? Hver veit, ekki ég. Höfundur hjálpar manni lítið við að túlka þessa sundurlausu atburði.
Niðurstaða: Á ákveðinn hátt er bókin áhugaverð innsýn í Ísrael og hvernig það er að búa í ríki sem er við stöðugt stríðsástand. Þetta er bara ekki nógu vel gert. Ég var mjög lengi að lesa þessar 332 blaðsíður. Ég myndi ekki mæla með þessari bók við neinn. Ein stjarna.
No comments:
Post a Comment