Wednesday, October 16, 2013

Bók #43: Rosie verkefnið

Ég tók bókina Rosie verkefnið á bókasafni. Ég hafði engar forhugmyndir um efni bókarinnar. Höfundur er vísindamaðurinn Graeme Simsion. Þetta er hans fyrsta skáldsaga. Sagan er 304 síður og hún kom út á þessu ári bæði á ensku og íslensku.


Bókin fjallar um Don. Hann er prófessor í erfðafræði við háskóla í Ástralíu. Það er aldrei sagt beinum orðum í bókinni en það er augljóst að hann liggur einhvers staðar á einhverfurófinu. Hann er sem sagt afburðasnjall og góður í að læra nýja hluti, hvort sem það er dans, að blanda hanastél eða erfðafræði. Don er mjög skipulagður maður. Eldar mat samkvæmt nákvæmri vikuáætlun og þrífur íbúðina reglulega og nákvæmlega.

Hann skortir hins vegar félagsfærni og hæfileikann til að lesa í aðstæður. Þannig er hann orðinn fertugur, á bara tvo vini og enga kærustu. Hann ákveður að nú sé komið nóg og byrjar Eiginkonuverkefnið. Það felst í því að Don útbýr spurningalista með þeim helstu eiginleikum sem hann telur tilvonandi eiginkonu þurfa að búa yfir. Hún verður að vera greind, stundvís, má alls ekki reykja, helst ekki drekka og svo framvegis.


Ekki reynast margar konur uppfylla hinar ströngu kröfur. Það endar hins vegar þannig að Don hittir hana Rosie í gegnum verkefnið. Hún er algjörlega á skjön við kröfur Dons en samt verður hann nokkuð hrifinn af henni, þó hann afskrifi hana reyndar framan af algjörlega sem eiginkonuefni.

Bókin er því í reynd rómantísk gamansaga. Þetta er eins konar þroskasaga fyrir Don. Hann hjálpar Rosie að leita að uppruna sínum. Hún telur nefnilega að uppeldisfaðir hennar sé ekki blóðfaðirinn. Á þessu ferðalagi lærir Don ýmislegt um sjálfan sig.

Endirinn er því nokkuð fyrirsjáanlegur. Don leggur meira á sig til að verða "eins og hinir" og falla í kramið. Hann hættir að tala í formlegum frösum og afnemur skipulagða máltíðakerfið sitt.

Sagan er þannig nokkuð formúluleg en það er ekkert vandamál fyrir mér. Aðall bókarinnar eru persónurnar og þá sérílagi Don. Höfundur gefur frábæra innsýn í hugarheim hins skipulagða sérvitra manns sem á erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Manni líkar sjálfkrafa mjög vel við Don og fær sting í hjartað þegar hann fer út af sporinu með setningu eins og "Ég var að endurmeta tilboðið þitt um kynlíf".


Ég sprakk oft úr hlátri við lestur bókarinnar. Á fyrirlestri um heilkenni Aspergers eru nokkrir gestir sem haldnir eru samnefndu heilkenni. Söguhetjan reynir að sýna fram á að Asperger sé ekki sjúkdómur. Þaðan komi t.d. gagnlegar hugmyndir að lausnum:
"Ímyndaðu þér", sagði ég, "að þú sért í felum í kjallara. Óvinirnir eru að leita að ykkur, þér og vinum þínum. Enginn má gefa frá sér minnsta hljóð, en barnið þitt grætur". Ég lék þetta eftir, eins og Gene hafði gert, til að gera söguna trúverðugri. "Vaaaa." Ég þagnaði smástund til að auka áhrifin. "Þú ert með byssu." [...] "Með hljóðdeyfi. Þeir nálgast. Þeir ætla að drepa ykkur öll. Hvað áttu að gera? Barnið orgar - " Krakkarnir gátu ekki beðið eftir því að svara. Einn hrópaði: "Skjóta barnið, " og fyrr en varði æptu þeir hver upp í annan: "Skjóta barnið, skjóta barnið." 
"Skjóta óvininn" Svo bætti annar við: "Úr launsátri." Uppástungurnar ráku hver aðra. 
"Nota barnið sem tálbeitu. " 
"Hvað erum við með margar byssu?"
"Halda fyrir munninn á því".
"Hvað getur það lifað lengi án þess að fá loft?" 

Niðurstaða: ROSIE VERKEFNIÐ er afar vel skrifuð bók. Drepfyndin og frábær persónusköpun. Ég gef henni 4,5 stjörnur.

No comments:

Post a Comment