Tuesday, October 22, 2013

Bók #44: THE MAP AND THE TERRITORY

Í sumar las ég bókina The map and the territory. Nýjasta bókin eftir franska rithöfundinn Michel Houellebecq. Bókin hefur komið út á íslensku og heitir Kortið og landið. Ég sá dálítið eftir því við lesturinn að hafa ekki útvegað mér íslensku þýðinguna. Sagan þekur 291 síðu.


Höfundur hefur sent frá sér nokkrar bækur. Þekktust og best er bókin Öreindirnar. Aðall Houellebecqs eru persónurnar í sögunum og plottið sjálft vill hálfpartinn gleymast. Ég þurfti að minnsta kosti að fletta upp á netinu til að rifja upp söguþráðinn. Bækurnar skilja frekar eftir sig ákveðna tilfinningu, jafnvel ónotatilfinningu. Þetta form er fullkomnað í Öreindunum þar sem við fylgjumst nákvæmlega með lífi tveggja bræðra sem passa illa inn í samfélagið.

Samt er ákveðið þema í hverri sögu. Öreindirnar fjalla um klónun og sagan veltir upp þeirri spurningu hvaða máli það geti skipt fyrir mannkynið að kynlíf sé ekki endilega nauðsynlegt til  að tegundinn "lifi af". 

Þetta existensjalíska þema passar mjög vel fyrir söguna og aðalpersónurnar í Öreindunum.


Kortið og landið fetar svipaða slóð. Aðalpersónan er listamaðurinn Jed sem er í frekar litlu sambandi við umheiminn og virðist hafa takmarkaða þörf fyrir mannleg samskipti. Honum tekst þó að meika það frekar óvænt með því að búa til listaverk með ljósmyndum af landakortum. Þetta skilur eftir sig athyglisverða pælingu hvort kort geti haft meira gildi í sjálfu sér en staðurinn sjálfur. 

Lítið fer fyrir Jed næstu 10 árin. Næsta stóra mál hjá honum verða portrettmyndir af fólki. Honum tekst að sannfæra rithöfundinn Michel Houellebecq til að sitja fyrir á einni þeirra. Höfundur skrifar sjálfan sig sem sagt sem persónu í bókinni. Sú persóna er ekkert sérstaklega.. geðfelld. Hennar bíða líka hræðileg örlög.

Höfundur sjálfur er þekktur fyrir að vera einfari og kynlegur kvistur. Þannig tengir maður óhjákvæmilega aðalpersónurnar í sögum hans við hann sjálfan. Það er þess vegna skemmtileg flétta að skrifa höfundinn sjálfan sem persónu. Hver er hinn raunverulega málpípa höfundar? Persónan sem heitir það sama eða sú sem maður samsvaraði með höfundi í byrjun.

Jed verður enn frægari og ríkari fyrir portrettmyndir sínar og verðmætust af öllum er auðvitað myndin af Houellebecq. 

Þema bókarinnar er greinilega listaheimurinn. Ég er ekki viss um að það sé mjög góður grunnur fyrir þá gerð af sögu sem höfundur er að reyna að skrifa. Vissulega geta listamenn verið einfararar. Jed einangrar sig svo gott sem árum saman. Þetta býður samt ekki upp á nógu áhugaverðar fléttur í frásögn

Niðurstaða: Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa bók. Ég átti einhvern veginn von á meiru og mér fannst söguhetjan bara ekki nógu áhugaverð. Engu að síður alls ekki vond bók. Ég gef henni 2,5 stjörnur. Öreindirnar er áfram langbesta bók höfundar.

1 comment:

  1. Ég las hana einmitt á íslensku í sumar. Fín þýðing. En ég var hrifnari af bókinni en þú, myndi kannski segja 3,5 af 5.

    ReplyDelete