Monday, February 25, 2013

Bók #9: Lífið framundan

Bókin LÍFIÐ FRAMUNDAN er eftir franska rithöfundinn Romain Gary. Í góðum eftirmála bókarinnar, rituðum af þýðandanum Guðrúnu Finnbogadóttur, kemur fram að hann skrifaði bókina undir dulnefninu Émile Ajar.

Það skal viðurkennt að ég hafði aldrei fyrr heyrt Romains Garys getið. Móðir mín laumaði bókinni að mér með þeim orðum að þetta væri "lítill gullmoli". Það eykur vægi bókarinnar hve stutt hún er, 192 síður með eftirmála. Engu að síður var ég nákvæmlega viku að lesa hana. Það skýrist af því að bókin greip mig aldrei alveg.

Söguhetja bókarinnar er Mómó litli. Hann er 10 ára, eða kannski 14. Mómó er munaðarleysingi sem er alinn upp af Rósu gömlu. Hún er sjálf fyrrum gleðikona, sem hefur atvinnu sína af því að passa og ala upp börn portkvenna sem þurfa að koma afkvæmum sínum fyrir í fóstri. Mómó er sem sagt slíkur einstaklingur. Frá byrjun er samt gefið í skyn að Mómó sé sérstakur.

Bókin fjallar sem sagt um lífsbaráttu Mómós, Rósu, hinna barnanna á heimilinu og hinna ýmsu furðufugla sem finna má í vandræðahverfum Parísarborgar á áttunda áratugnum. Það er vissulega fyndið að lesa sumar lýsingarnar, eins og af fyrrum atvinnuboxaranum, transgender konunni Lólu. Maður ímyndar sér að þessar lýsingar hafi verið eldfimari þegar bókin kom út, en hvað veit ég.

Það er vissulega átakanlegt að lesa um þá erfiðu hluti sem ungur drengur þarf að takast á við. Samkvæmt eftirmálanum má skilja það sem svo að bókin sé að hluta til sjálfsævisöguleg. Einhvern veginn fannst mér samt erfitt að tengja við Mómó. Ég datt ekki inn í bókina. Prósinn er fallegur, en nær einhvern veginn ekki að draga mann áfram í lestrinum. Mér fannst fléttan í bókinni ekki nógu sniðug. Maður býr sig undir að Mómó sé í raun sonur forsætisráðherrans eða eitthvað álíka, en það er ekkert svoleiðis í spilunum.

Í fyrri umfjöllunum hefur hugmyndin um "girnilega bók" verið nefnd. Kápan á þessu verki er það versta sem sést hefur lengi. Hræðileg skjámynd úr kvikmynd eftir bókinni, umlukið einhvers konar grárri slikju sem á mögulega að tákna niðurnídda hverfið sem Mómó býr í. Titllinn er síðan negldur inn í einhvern neon-bláan ramma. Agalega vont.

Niðurstaða: Ég gef bókinni LÍFIÐ FRAMUNDAN tvær stjörnur af fimm mögulegum. Hún fær prik fyrir að vera stutt og koma sér að efninu, en samt er einhvern veginn ekki nógu mikið kjöt á beinunum.

Friday, February 15, 2013

Bók #8 The Marriage Plot

 
Ein leiðin til að meta gæði bókar er að skoða hversu langan tíma lestur hennar tók. Góðar bækur les maður hratt. Þessi aðferð er ekki algild. Sumar lélegar bækur les maður mjög hratt, eins og til að losna við þær. Öðrum góðum bókum smjattar maður á og er lengi að lesa.

Reglan gildir þó fullkomnlega um bókina The Marriage Plot eftir Jeffrey Eugenides. Ég tók þessa bók fyrir rælni á bókasafninu fyrir nokkrum vikum. Amazon hafði áður reynt að selja mér hana á kyndilinn, svo ég lét slag standa.

Grunn-premis bókarinnar er gefið í titlinum. Aðalpersónan heitir Madeleine og er bókaormur sem les enskar bókmenntir við Brown háskóla. Hún er falleg, kemur af efnuðu fólki og veit ekki hvað hún vill gera við líf sitt. Þetta kemur fram á fyrstu opnu bókarinnar. En samt fer fyrsti fjórðungur textans í persónusköpun fyrir hana. Sá texti bætir nákvæmlega engu við, en drepur lesandann úr leiðindum þar sem hann neiðist til að fylgjast með ævintýrum Madeleine í kúrsinum Táknfræði 211..

Einn kennarana hefur þá kenningu að skáldsagan sem listform hafi náð hápunkti sínum með Jane Austen á 19.öld. Með tilkomu "skilnaðar" hættir það að meika sens að láta skáldsögu enda með brúðkaupi, því hvað gerist næst? Við vitum ekki hvort Emma skilur við Mr. Knightley.

Óhjákvæmilega fjallar þá skáldsagan The Marriage Plot um nákvæmlega þetta. Madeleine er unga blómarósin. Vonbiðlarnir eru tveir, Leonard og Mitchell. Leonard er eldklár og myndarlegur töffari sem tyggir skro. Mitchell er "góði gaurinn". Alltaf indæll og kurteis við Madeleine, enda lítur hún bara á hann sem vin.

Madeleine og Leonard verða hamingjusamt par. En Adam er ekki lengi í paradís því Leonard þjáist af hræðilegum sjúkdómi.. GEÐHVARFASÝKI. Hvernig taka þau á þessu vandamáli? Þolir sambandið þennan fleyg? Þessum spurningum er svarað á næstu 250 síðum. Og já, gleymum ekki 100 síðum af Mitchell að ferðast á Indlandi að finna sjálfan sig og vinna sem sjálfboðaliði fyrir Móður Teresu og zzzzzzzzzzzzzzzz......

Ég held ég hafi verið tvær vikur að lesa þessa bók. Ég sýndi mikla staðfestu að henda henni ekki í ruslið. Til að fyllstu sanngirni sé gætt þá er seinni hlutinn öllu skárri en sá fyrri. Vondur samt. Ég uppgötvaði bara við vinnslu þessa pistils að höfundur skrifaði einnig bókina The Virgin Suicides. Þá bók las ég fyrir nokkrum árum og þurfti þrjár atlögur til. Samt er hún miklu styttri. Höfuðverk Jeffrey Eugenides er víst MIDDLESEX. Ég segi pass.

Niðurstaða: Bókin The Marriage Plot er ógurlega langdregin skáldsaga um fólk sem manni er sama um að gera leiðinlega hluti. Ég gef henni hálfa stjörnu.

Monday, February 4, 2013

Bók #7 ILMURINN

Ég las bókina ILMURINN - Saga af morðingja, á sléttri viku. Slík bók er eftir Patrick Süskind. Hún er 180 síður í útgáfu Forlagsins frá 1987. Línubilið er einfalt sem dregur mjög úr læsileika textans. Kristján Árnason þýddi.

Kápa bókarinnar sýnir Nymphe sofandi. Ég tók kápuna af á meðan lestri stóð.



Það hafa ótrúlega margir sem ég þekki lesið þessa bók og mælt með henni. Allir hugsandi menn fengu greinilega ILMINN í jólagjöf 1987. Sjálfur kynntist ég þó ekki þessu verki fyrr en árið 2006 þegar ég sá samnefnda mynd í bíói. Mér fannst myndin góð, flott og óvenjuleg. Mjög litrík og eftirminnileg. Leiksigur hjá Ben Whishaw sem alltof fáir kunna að nefna.


Ég las þessa bók sem sagt að áeggjan ýmissa sem töldu bókina meistaraverk. Ég var því frekar hissa á því að bókin er alveg eins og kvikmyndin, sérstaklega framan af. Réttara sagt, þá finnst mér myndin fylgja bókinni mjög vel. Sem dæmi er það algjört aukaatriði í sögunni þegar hús eitt sem stendur á brú í París hrynur. Þetta atriði skilar sér þó í myndina og er mjög flott þar. Sjá atriði hér.

Í bókinni segir um þetta mál:
Með þessar ljúfu hugsanir í sínum gamla heimska haus, sem hann lagði á koddann léttari í lundu - en undir honum fann hann notalega fyrir þrýstingi formúlukversins - sofnaði meistari Baldini og átti ekki eftir að vakna aftur í þessu lífi.

Um nóttina varð nefnilega smáslys, sem gaf, eftir tilhlýðilega töf, tilefni til þess, að öll hús á öllum brúm Parísarborgar væru smám saman rifin að skipan konungsins: af ókunnum orsökum hrundi Pond-au-Change, vestan megin milli þriðja og fjórða brúarstólpans. Tvö hús hrundu í fljótið, svo gjörsamlega og svo skyndilega, að engum íbúanna var bjargað.

-Ljúffeng kommusetning þarna.


Bókin fjallar um Jean-Baptiste Grenouille sem er munaðarleysingi í París á 18.öld. Hann reynist ungur hafa næmt þefskyn þó ekki sé líkamslykt af honum sjálfum. Hann fer í "læri" hjá útbrunna ilmvatnsmeistaranum Baldini og kemur honum aftur á kortið í ilmvatnsheiminum með snilligáfu sinni.

Lesandinn fræðist þannig óhjákvæmilega um ilmvötn, eðli þeirra og framleiðslu. Við lærum líka um franskt stéttarskipulag í París á 18.öld. Textinn er allur mjög myndrænn (og þefrænn!) og alls ekki mikið um samtöl.

Eins og titill bókarinnar ber með sér er aðalpersónan þó enginn kórdrengur. Hann vill fanga ilm af öðrum mannverum. Í þessu samhengi fær bókin mikinn ævintýrablæ. Í sögunni eru menn sem sagt ekki skilgreindir út frá útliti sínu eða gáfum. Öllu máli skiptir hvernig lykt er af þeim. Karisma einstaklings er eingöngu skilgreind út frá lykt hans.

Aðalpersónan er þannig í ákveðinni tilvistarkreppu þar sem hún hefur alls ekki þennan grundvallareiginleika mannskepnunar. Út frá þeirri staðreynd miðast síðan öll framvinda sögunnar.


Í bókinni dvelst Grenouille í 7 ár í helli um miðja sögu og fer þannig í sjálfskipaða útlegð frá samfélagi mannanna. Þessi hluti tekur merkilega mikið pláss í bókinni en skilar sér ekki á sama hátt í myndinni (að mig minnir), eðlilega. Hér er um hefðbundið bókmennafræðilegt stílbragð að ræða. Sjö mögur ár. Sá einfaldi verkfræðingur sem þetta ritar skilur þó ekki nákvæmlega tilganginn með þessu.

Niðurstaða: Ilmurinn er mjög flott bók. Ég verð þó að segja að kvikmyndin nær bókinni mjög vel. Þeir sem hafa séð hana bæta ekki miklu við með lestri bókarinnar. Það er þó athyglisvert að allir sem ég þekki sem lásu bókina fyrst og sáu svo myndina fannst hún ekki nógu góð. Ég veit ekki hvað veldur þessu.

Ég gef ILMINUM 3,5 stjörnur. Ég mæli með bókinni við alla (þá sem ekki hafa séð myndina). Ég ímynda mér að hún sé til í bílförmum á bókasöfnum landsins.

Friday, February 1, 2013

Neon bækur

Ég er í bókaklúbbnum NEON. Í prinsippinu finnst mér bókaklúbbur vond hugmynd og sé fyrir mér agalega doðranta sem hrúgast ólesnir upp heima hjá manni. Neon bækurnar eru ekki svona. Í fyrsta lagi koma ekkert voðalega margar bækur á ári. Svo eru bækurnar yfirleitt frekar nettar. Eftir nokkur ár hefur ekki einu sinni tekist að fylla eina hillu. Þarna laumar doðranturinn HEIMANFYLGJA sér reyndar inn á myndina.

Í vikunni barst með pósti nýjasta bókin. Hún heitir ÁSTIR og er eftir Javier Marias sem ég kann engin deili á. Þetta er það skemmtilega við klúbbinn. Í hendurnar koma bækur sem maður hefði aldrei annars lesið.
Margar af síðustu bókum hafa verið stórgóðar. Í fyrra kom út bókin Að endingu eftir Julian Barnes. Bók ársins að mínu mati.  Þá kom einnig út Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry sem var fín. Mér fannst bókin PRÝÐISLANDIÐ svona lala en bók sem heitir ALLT ER ÁST alveg vonlaus. Reyndi tvisvar að byrja á henni en gat ekki annað en sofnað yfir lestrinum.


Taumhald á skepnum eftir Magnus Mills kom út í þessum flokki og er ein af bestu bókum í heimi.
Einu sinni voru bækurnar með neon lituðum kiljum. Ég sakna þeirra.