Bókin LÍFIÐ FRAMUNDAN er eftir franska rithöfundinn Romain Gary. Í góðum eftirmála bókarinnar, rituðum af þýðandanum Guðrúnu Finnbogadóttur, kemur fram að hann skrifaði bókina undir dulnefninu Émile Ajar.
Það skal viðurkennt að ég hafði aldrei fyrr heyrt Romains Garys getið. Móðir mín laumaði bókinni að mér með þeim orðum að þetta væri "lítill gullmoli". Það eykur vægi bókarinnar hve stutt hún er, 192 síður með eftirmála. Engu að síður var ég nákvæmlega viku að lesa hana. Það skýrist af því að bókin greip mig aldrei alveg.
Söguhetja bókarinnar er Mómó litli. Hann er 10 ára, eða kannski 14. Mómó er munaðarleysingi sem er alinn upp af Rósu gömlu. Hún er sjálf fyrrum gleðikona, sem hefur atvinnu sína af því að passa og ala upp börn portkvenna sem þurfa að koma afkvæmum sínum fyrir í fóstri. Mómó er sem sagt slíkur einstaklingur. Frá byrjun er samt gefið í skyn að Mómó sé sérstakur.
Bókin fjallar sem sagt um lífsbaráttu Mómós, Rósu, hinna barnanna á heimilinu og hinna ýmsu furðufugla sem finna má í vandræðahverfum Parísarborgar á áttunda áratugnum. Það er vissulega fyndið að lesa sumar lýsingarnar, eins og af fyrrum atvinnuboxaranum, transgender konunni Lólu. Maður ímyndar sér að þessar lýsingar hafi verið eldfimari þegar bókin kom út, en hvað veit ég.
Það er vissulega átakanlegt að lesa um þá erfiðu hluti sem ungur drengur þarf að takast á við. Samkvæmt eftirmálanum má skilja það sem svo að bókin sé að hluta til sjálfsævisöguleg. Einhvern veginn fannst mér samt erfitt að tengja við Mómó. Ég datt ekki inn í bókina. Prósinn er fallegur, en nær einhvern veginn ekki að draga mann áfram í lestrinum. Mér fannst fléttan í bókinni ekki nógu sniðug. Maður býr sig undir að Mómó sé í raun sonur forsætisráðherrans eða eitthvað álíka, en það er ekkert svoleiðis í spilunum.
Í fyrri umfjöllunum hefur hugmyndin um "girnilega bók" verið nefnd. Kápan á þessu verki er það versta sem sést hefur lengi. Hræðileg skjámynd úr kvikmynd eftir bókinni, umlukið einhvers konar grárri slikju sem á mögulega að tákna niðurnídda hverfið sem Mómó býr í. Titllinn er síðan negldur inn í einhvern neon-bláan ramma. Agalega vont.
Niðurstaða: Ég gef bókinni LÍFIÐ FRAMUNDAN tvær stjörnur af fimm mögulegum. Hún fær prik fyrir að vera stutt og koma sér að efninu, en samt er einhvern veginn ekki nógu mikið kjöt á beinunum.
No comments:
Post a Comment