Ég las bókina ILMURINN - Saga af morðingja, á sléttri viku. Slík bók er eftir Patrick Süskind. Hún er 180 síður í útgáfu Forlagsins frá 1987. Línubilið er einfalt sem dregur mjög úr læsileika textans. Kristján Árnason þýddi.
Kápa bókarinnar sýnir Nymphe sofandi. Ég tók kápuna af á meðan lestri stóð.
Það hafa ótrúlega margir sem ég þekki lesið þessa bók og mælt með henni. Allir hugsandi menn fengu greinilega ILMINN í jólagjöf 1987. Sjálfur kynntist ég þó ekki þessu verki fyrr en árið 2006 þegar ég sá samnefnda mynd í bíói. Mér fannst myndin góð, flott og óvenjuleg. Mjög litrík og eftirminnileg. Leiksigur hjá Ben Whishaw sem alltof fáir kunna að nefna.
Ég las þessa bók sem sagt að áeggjan ýmissa sem töldu bókina meistaraverk. Ég var því frekar hissa á því að bókin er alveg eins og kvikmyndin, sérstaklega framan af. Réttara sagt, þá finnst mér myndin fylgja bókinni mjög vel. Sem dæmi er það algjört aukaatriði í sögunni þegar hús eitt sem stendur á brú í París hrynur. Þetta atriði skilar sér þó í myndina og er mjög flott þar. Sjá atriði hér.
Í bókinni segir um þetta mál:
Með þessar ljúfu hugsanir í sínum gamla heimska haus, sem hann lagði á koddann léttari í lundu - en undir honum fann hann notalega fyrir þrýstingi formúlukversins - sofnaði meistari Baldini og átti ekki eftir að vakna aftur í þessu lífi.Um nóttina varð nefnilega smáslys, sem gaf, eftir tilhlýðilega töf, tilefni til þess, að öll hús á öllum brúm Parísarborgar væru smám saman rifin að skipan konungsins: af ókunnum orsökum hrundi Pond-au-Change, vestan megin milli þriðja og fjórða brúarstólpans. Tvö hús hrundu í fljótið, svo gjörsamlega og svo skyndilega, að engum íbúanna var bjargað.
-Ljúffeng kommusetning þarna.
Bókin fjallar um Jean-Baptiste Grenouille sem er munaðarleysingi í París á 18.öld. Hann reynist ungur hafa næmt þefskyn þó ekki sé líkamslykt af honum sjálfum. Hann fer í "læri" hjá útbrunna ilmvatnsmeistaranum Baldini og kemur honum aftur á kortið í ilmvatnsheiminum með snilligáfu sinni.
Lesandinn fræðist þannig óhjákvæmilega um ilmvötn, eðli þeirra og framleiðslu. Við lærum líka um franskt stéttarskipulag í París á 18.öld. Textinn er allur mjög myndrænn (og þefrænn!) og alls ekki mikið um samtöl.
Eins og titill bókarinnar ber með sér er aðalpersónan þó enginn kórdrengur. Hann vill fanga ilm af öðrum mannverum. Í þessu samhengi fær bókin mikinn ævintýrablæ. Í sögunni eru menn sem sagt ekki skilgreindir út frá útliti sínu eða gáfum. Öllu máli skiptir hvernig lykt er af þeim. Karisma einstaklings er eingöngu skilgreind út frá lykt hans.
Aðalpersónan er þannig í ákveðinni tilvistarkreppu þar sem hún hefur alls ekki þennan grundvallareiginleika mannskepnunar. Út frá þeirri staðreynd miðast síðan öll framvinda sögunnar.
Í bókinni dvelst Grenouille í 7 ár í helli um miðja sögu og fer þannig í sjálfskipaða útlegð frá samfélagi mannanna. Þessi hluti tekur merkilega mikið pláss í bókinni en skilar sér ekki á sama hátt í myndinni (að mig minnir), eðlilega. Hér er um hefðbundið bókmennafræðilegt stílbragð að ræða. Sjö mögur ár. Sá einfaldi verkfræðingur sem þetta ritar skilur þó ekki nákvæmlega tilganginn með þessu.
Niðurstaða: Ilmurinn er mjög flott bók. Ég verð þó að segja að kvikmyndin nær bókinni mjög vel. Þeir sem hafa séð hana bæta ekki miklu við með lestri bókarinnar. Það er þó athyglisvert að allir sem ég þekki sem lásu bókina fyrst og sáu svo myndina fannst hún ekki nógu góð. Ég veit ekki hvað veldur þessu.
Ég gef ILMINUM 3,5 stjörnur. Ég mæli með bókinni við alla (þá sem ekki hafa séð myndina). Ég ímynda mér að hún sé til í bílförmum á bókasöfnum landsins.
Sæll. Ég er sammála þessari gagnrýni í öllum meginatriðum. Ég gef bókinni þó 3,75 stjörnur.
ReplyDelete