Efnafræðikennari niðri í skóla lánaði mér bókina The Alchemy of Air eftir Thomas Hager. Þessi bók er ekki skáldsaga heldur ævisögu/fræðibók. Þetta er er saga tveggja manna björguðu mannkyninu frá hungursneið.
Bókin byrjar strax á mjög grípandi hátt. Árið 1898 hélt nýr forseti bresku vísindaakademíunnar ræðu. Í henni segir að heimurinn standi frammi fyrir miklum vanda. Áburður heimsins er að klárast. Nítrat-námur í Chile munu tæmast fyrir 1930 og það er ekkert sem getur komið í staðinn. Þessi maður skorar á vísindamenn heimsins að leysa þennan vanda.
Bókarhöfundur fer svo stuttlega yfir áburðarsögu mannkynsins. Plöntur þurfa köfnunarefni. Það er nóg af því í loftinu, en plönturnar þurfa efnið á föstu formi. Það hjálpar til, að rækta ekki sama hlutinn ár eftir ár á ökrunum. Mykja og tað getur virkað sem áburður og hjálpar til. Besti áburðurinn er þó enn ríkari af nítrati. Á 19.öld kom slíkur áburður frá suður-ameríku og var ástæðan fyrir nokkrum stríðum í þeirri heimsálfu. Fyrst kom áburður sem gúanó-úrgangur en seinna úr nítrat-námum í Chile.
Það var þó fyrirséð að þessi auðlind myndi þverra. Því voru vísindamenn farnir að vinna að því að vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Einn af þeim var Þjóðverjinn Fritz Haber. Hann var prófessor við miðlungs háskóla en þráði frekari frama.
Haber uppgötvaði að undir miklum þrýstingi og háum hita með réttum hvata var hægt að vinna ammóníak (nitur+vetni) úr andrúmsloftinu. Þetta var mikið afrek, en þá er aðeins hálf sagan sögð. Haber tókst aðeins að vinna ammóníak í mjög litlu magni, 100 ml. á klukkustund. Nauðsynlegt var að gera þetta á miklu stærri skala.
Þar kemur hin aðalpersóna bókarinnar til sögunnar. Carl Bosch var efnafræðingur hjá þýskri efnaverksmiðju, BASF. Bosch skoðar ferlið hjá Haber og ákveður að rétt sé að kaupa hugmyndina og reyna að vinna ammóníak í miklu magni. Í bókinni er farið nákvæmlega yfir hvernig þetta gekk fyrir sig.
Eftir mikla vinnu gengur allt þó upp, áburður er framleiddur, Haber verður ríkur, Bosch líka og endar sem yfirmaður fyrirtæksins. Hér kemur þó að myrkari hliðum þessa máls. Sprengiefni og áburður eru náskyld fyrirbæri. BASF heldur að nokkru leyti þýsku stríðsvélinni gangandi í fyrri heimsstyrjöld með framleiðslu sinni. Á sama tíma var Haber einn af frumkvöðlum eiturgass-árása í stríðinu.
Sagan er rekin áfram fram í seinni heimmstyrjöld. BASF endar sem hálfgert ríkisfyrirtæki og yfirmenn þar verða að lokum dæmdir fyrir stríðsglæpi. Í seinna stríði framleiddu þeir bensín með aðferð sem tengist upphaflegu hugmynd Habers. Þessi framleiðsla var gríðarlega mikilvæg fyrir þýsku stríðsvélina. Bosch var þó á móti þessu og var á endanum settur af.
The Alchemy of Air er mjög vel skrifuð. Maður flettir síðunum hugsunarlaust af spenningi. Höfundi tekst mjög vel að gera efnið aðgengilegt og læsilegt. Manni er aldrei drekkt í efnafræði. Samt finnst manni stundum eins og fullmikið sé getið í eyðurnar og margt er afar skáldlegt. Höfundur tengir líkamlega heilsu Bosch náið við heilsu gæluverkfnis hans, risastórar verksmiðju í Leuna. Bosch á að hafa séð fyrir endalok þeirrar miklu smíði sem er að lokum sprengd í klessu í lok stríðsins.
Niðurstaða: The Alchemy of Air er afar fróðleg og skemmtilega skrifuð bók. Ég gef henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum.