Tuesday, March 26, 2013

Bók #14: The Alchemy of Air

Efnafræðikennari niðri í skóla lánaði mér bókina The Alchemy of Air eftir Thomas Hager. Þessi bók er ekki skáldsaga heldur ævisögu/fræðibók. Þetta er er saga tveggja manna björguðu mannkyninu frá hungursneið.

Bókin byrjar strax á mjög grípandi hátt. Árið 1898 hélt nýr forseti bresku vísindaakademíunnar ræðu. Í henni segir að heimurinn standi frammi fyrir miklum vanda. Áburður heimsins er að klárast. Nítrat-námur í Chile munu tæmast fyrir 1930 og það er ekkert sem getur komið í staðinn. Þessi maður skorar á vísindamenn heimsins að leysa þennan vanda.




Bókarhöfundur fer svo stuttlega yfir áburðarsögu mannkynsins. Plöntur þurfa köfnunarefni. Það er nóg af því í loftinu, en plönturnar þurfa efnið á föstu formi. Það hjálpar til, að rækta ekki sama hlutinn ár eftir ár á ökrunum. Mykja og tað getur virkað sem áburður og hjálpar til. Besti áburðurinn er þó enn ríkari af nítrati. Á 19.öld kom slíkur áburður frá suður-ameríku og var ástæðan fyrir nokkrum stríðum í þeirri heimsálfu. Fyrst kom áburður sem gúanó-úrgangur en seinna úr nítrat-námum í Chile.

Það var þó fyrirséð að þessi auðlind myndi þverra. Því voru vísindamenn farnir að vinna að því að vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Einn af þeim var Þjóðverjinn Fritz Haber. Hann var prófessor við miðlungs háskóla en þráði frekari frama. 

Haber uppgötvaði að undir miklum þrýstingi og háum hita með réttum hvata var hægt að vinna ammóníak (nitur+vetni) úr andrúmsloftinu. Þetta var mikið afrek, en þá er aðeins hálf sagan sögð. Haber tókst aðeins að vinna ammóníak í mjög litlu magni, 100 ml. á klukkustund. Nauðsynlegt var að gera þetta á miklu stærri skala.

Þar kemur hin aðalpersóna bókarinnar til sögunnar. Carl Bosch var efnafræðingur hjá þýskri efnaverksmiðju, BASF. Bosch skoðar ferlið hjá Haber og ákveður að rétt sé að kaupa hugmyndina og reyna að vinna ammóníak í miklu magni. Í bókinni er farið nákvæmlega yfir hvernig þetta gekk fyrir sig.

Eftir mikla vinnu gengur allt þó upp, áburður er framleiddur, Haber verður ríkur, Bosch líka og endar sem yfirmaður fyrirtæksins. Hér kemur þó að myrkari hliðum þessa máls. Sprengiefni og áburður eru náskyld fyrirbæri. BASF heldur að nokkru leyti þýsku stríðsvélinni gangandi í fyrri heimsstyrjöld með framleiðslu sinni. Á sama tíma var Haber einn af frumkvöðlum eiturgass-árása í stríðinu.

Sagan er rekin áfram fram í seinni heimmstyrjöld. BASF endar sem hálfgert ríkisfyrirtæki og yfirmenn þar verða að lokum dæmdir fyrir stríðsglæpi. Í seinna stríði framleiddu þeir bensín með aðferð sem tengist upphaflegu hugmynd Habers. Þessi framleiðsla var gríðarlega mikilvæg fyrir þýsku stríðsvélina. Bosch var þó á móti þessu og var á endanum settur af.

The Alchemy of Air er mjög vel skrifuð. Maður flettir síðunum hugsunarlaust af spenningi. Höfundi tekst mjög vel að gera efnið aðgengilegt og læsilegt. Manni er aldrei drekkt í efnafræði. Samt finnst manni stundum eins og fullmikið sé getið í eyðurnar og margt er afar skáldlegt. Höfundur tengir líkamlega heilsu Bosch náið við heilsu gæluverkfnis hans, risastórar verksmiðju í Leuna. Bosch á að hafa séð fyrir endalok þeirrar miklu smíði sem er að lokum sprengd í klessu í lok stríðsins.

Niðurstaða: The Alchemy of Air er afar fróðleg og skemmtilega skrifuð bók. Ég gef henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

Thursday, March 21, 2013

Bók #13: MÁLVERKIÐ

MÁLVERKIÐ eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er ein af þeim bókum sem móðir mín lánaði mér skömmu eftir áramót. Hildur hvatti mig líka til að lesa hana. Ég þráaðist við. Ég hef lengi haft varann á gagnvart þeim Ólafs-fegðum eftir að hafa lesið Litbrigði jarðarinnar í áttunda bekk.
.


Málverkið fjallar um enska konu, hana Alice. Hún giftist ítölskum manni þvert á vilja fjölskyldu sinnar. Stofna þau til stórbúskapar á jörð á Ítalíu með ýmsum hjáleigum. Upphaflega nýtur hann sín betur en hún, framhjáhald skekur hjónabandið, seinna eignast þau barn og loks setur síðari heimsstyrjöldin allt í uppnám. 

Samhliða er saga íslensku stelpunnar Krístinar sögð. Hún er annars flokks listamaður sem hefur atvinnu af því í Róm að gera við misáhugaverð gömul listaverk. Hún er ástfangin af vinnuveitanda sínum sem er hrokafullur og leiðinlegur.



Ég segi að sagan fjalli um þetta, en það er þó ekki sérlega vel ljóst fyrr en um miðja bók. Höfundur lætur þær Alice og Krístinu skiptast á að segja söguna. Oft er erfitt að átta sig á því hvor talar. Ekki hjálpar til þegar laufblöðin eru tvær opnur að falla til jarðar og maður missir aðeins athyglina. Auk þess flakkar sagan fram og til baka í tíma. Þetta getur verið sniðugt stílbragð en mér fannst þetta frekar tilgerðarleg brella í þessu tilviki.

Að því sögðu skapar höfundur þó mjög flott andrúmsloft. Maður fær ríka tilfinningu fyrir náttúrufegurðinni og lífinu á Ítalíu á þessum tíma. Ekki er laust við að maður fái á tilfinninguna að höfundur sé að skrifa fyrir kvikmyndatjaldið.


Bókin heitir MÁLVERKIÐ og umrætt málverk leikur stórt hlutverk. Það hefur að gera með hefnd Kristínar á ástmanni sínum. Alice fær það hlutverk að geyma málverkið í miðju stríðinu. Þetta er flott hugmynd og gaman að því hvernig málverkið fléttar persónurnar saman. Hins vegar er tengingin mjög langsótt. -Kristín fær verðlaust málverk, býr til fullkomna fölsun á gömlum meistara úr því, kemur því í hendur ástmanns síns og einhvern veginn er hefnd fólgin í því.. Svo heldur hún áfram að hafa þráhyggju gagnvart málverkinu á búgarði Alice og eyðir svefnlausum nóttum í að leita að því.

Niðurstaða: MÁLVERKIÐ er þokkaleg bók. Besti hlutinn er endirinn. Gaman að lesa um undanhald nasista frá Ítalíu. Engin tímaeyðsla í lestri en skilur þó ekki mikið eftir. Ég gef henni tvær stjörnur.

Friday, March 15, 2013

Bók #12 ELDUR NIÐRI


Tengdamóðir mín lánaði mér bókina ELDUR NIÐRI sem er sjálfsævisaga Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings. Ég átti satt að segja ekki von á að nenna að lesa þessa bók. Í einhverju tómarúmi milli bóka greip ég þó í hana og las hana svo á tveimur kvöldum.

Bókin er 332 síður. Prentuð á þykkan og fínan pappír. Kápan er ágæt og sýnir höfund í forgrunni í litríkri yfirhöfn en svarthvítt landslag í bakgrunni. Fallegar teikningar fylgja hverjum nýjum kafla.

Haraldur rekur viðburðaríka æfi sína. Hann elst upp á Stykkishólmi og í Reykjavík en stundar síðar nám í Bretlandi. Eftir doktorspróf í jarðfræði fær hann stöðu við háskóla í karabíska hafinu. Seinna verður hann prófessor við Rhode Island.

Haraldur skrifar skemmtilegan texta. Hann virðist koma nálægt hverju einasta áhugaverða eldgosi á seinni hluta 20.aldar. Hann gerir efnið áhugavert, jafnvel fyrir mann eins og mig sem kann ekkert í jarðfræði. Hins vegar botnaði ég ekki alltaf í fræðilegri textunum og hraðlas sumt efnið.

Haraldur er líka duglegur að klappa sjálfum sér á bakið og greinir skilmerkilega frá því hvaða greinar eftir sig hafa birst í -virtustu vísindatímaritum heims-, Nature og Science. Stundum lesum við líka um þvermóðskulega ritstjóra sem verða til þess að greinar þurfa að birtast í -síðri vísindatímaritum-.

Bókin hefði haft gott af smávegis ritstjórn. Hún er ekki of löng í sjálfu sér. Köflunum er einmitt raðað í mjög skilmerkilega röð sem tengir stórviðburð í eldgosa-heiminum vel saman við ákveðin tímabil í lífi höfundar. Hins vegar kemur sumt efni aftur af óþörfu. Samverkamaður Haraldar Steven Sparks er kynntur til leiks oftar en einu sinni. Síðan virðist Find and replace fítusinn á einstaka stað hafa gert einhverja vitleysu.

Niðurstaða: ELDUR NIÐRI eftir Harald Sigurðsson var fín lesning. Ég gef henni tvær komma fimm stjörnur.

Monday, March 11, 2013

Bók #11 THE SECRET HISTORY


Bókin THE SECRET HISTORY er eftir Donnu Tarttt. Ég virðist hafa pantað þessa bók á bókasafninu. Ég man ekkert af hverju eða hvort einhver hafi mælt með þessari bók við mig. Sagan kom út árið 1992 og virðist hafa notið vinsælda. Ég er hissa á að hún hafi ekki verið þýdd á íslensku.

Bókin er 503 síður, í handhægu kilju-formi. Kápan er frekar stílhrein en ekki sérlega merkileg. Tilvitnun í gagnrýnanda á forsíðu dregur úr mikilvægi hennar.


Frásagnarformið er skemmtilegt. Strax í upphafi er maður að nafni Bunny myrtur. "Morðinginn" er hópur manna tengdur sögumanni. Bókin fer svo með okkur aftur í tímann og skýrir frá atburðum sem leiða til þessa atviks.



Þetta er í sjálfu sér sniðug leið til að vekja áhuga lesandans, en skemmir samt nokkuð fyrir að mínu mati. Það hefði verið miklu meira spennandi að lesa síðurnar um miðja bók án þess að vita nákvæmlega að morðið muni ganga upp.

Söguhetjan heitir Richard og kemur frá Kaliforníu. Hann er klár strákur en hefur ekki almennilega komið ár sinni fyrir borð. Hann fór í læknanám fyrir föður sinn en á alls ekki heima þar. Hann ákveður að fara í skóla á norðausturströndinni. Þar kynnist hann hópi 5 nemenda í "klassískum fræðum". Henry, Charles, Camilla, Francis og Bunny.


Í bókinni eru þau kynnt til leiks með nákvæmum lýsingum. Eins og alltaf er það vonlaus leið til að fá lesandann til að gera greinarmun á persónum. Með eðlilegri framvindu sögunnar verða þessir karakterar þó ljóslifandi.

Okkar maður á í fyrstu erfitt með að brjótast inn í hóp fimm-menninganna. Þau virðast frekar snobbuð og rík. Sérstaklega Henry sem er miðpunktur sögunnar. Höfundi tekst að skapa nokkuð sannfærandi skóla-andrúmsloft. Söguhetjan Richard reynir að fóta sig á nýjum stað og gerir ýmis mistök. Maður hefur ekki alltaf mikla samúð, en heldur samt með honum.


Það er skemmtilega vel gert hvernig höfundi tekst að gera morðið á Bunny sannfærandi og "nauðsynlegt" í augum aðalpersóna. Siðferðislegum spurningum er varpað fram. Krakkarnir sannfæra sig samt um að þetta sé rétt ákvörðun og lesandinn eiginlega líka. Auðvitað kemur samt í ljós að þetta hefur ófyrirséðar afleiðingar.

Það er líka mjög vel gert hvernig ýmsum spurningum er ósvarað í lok bókar. Endir er hnýttur á fléttuna en samt veit maður ekki alveg hvað er satt og logið. Söguhetjan og lesandinn fá sínar upplýsingar í gegnum persónuna Henry. Það er hins vegar ómögulegt að vita hvenær og hvort hann sé að ljúga.

Niðurstaða: Mér fannst bókin THE SECRET HISTORY góð. Ég gef henni 3,5 stjörnur. Spennandi lesning. Mjög myndrænar lýsingar en samt mjög þétt plott. Það hlýtur að vera gerð bíómynd eftir bókinni fyrr eða síðar. Ég mæli með bókinni fyrir áhugamenn um klassísk fræði og ungt fólk.

Monday, March 4, 2013

Bók #10 ÁSTIR

 
Ég las bókina ÁSTIR eftir Javier Marias á um það bil viku. Bókin kom út í NEON bókaröðinni frá Bjarti. Verkið er 346 síður í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur. Kápan er skemmtileg. Hún sýnir par í faðmlögum og kossi. Karlmaðurinn er þó með opin augun. Við túlkum það sem svo að hann sé ekki að kyssa af eins mikilli sannfæringu og konan. Auk þess hefur útlínum konunnar verið hliðrað á hátt sem sýnir ákveðna fjarlægð á skemmtilegan hátt. Ég gef kápuhönnun Ragnars Helga Ólafssonar 5 stjörnur.

Ég var lengi af stað með þessa bók. Í fyrsta lagi er textinn settur fram á mjög ólesvænan hátt, sbr. mynd að ofan. Það er lítið um greinaskil. Svo er ekkert verið að setja setningar sem einn maður segir við annan innan gæsalappa að óþörfu. Þannig er maður sífellt að ruglast á því hver segir hvað og hvort við séum yfirhöfuð stödd í samtali eða innri hugsunum aðalpersónunnar.

Þetta leiðir okkur að öðru atriði. Langar einræður persóna eru gegnumgangandi. Þetta tekst ágætlega sums staðar. Sérstaklega í mikilvægum senum í risi bókarinnar. Snemma í lestrinum á maður þó erfitt að halda einbeitingunni þegar persónur sem maður þekkir ekki eru að tala lengi um hluti sem maður skilur ekki, tengir ekki við og er alveg sama um. Ég hef ekki lesið neitt annað eftir Javier Marias. Kannski er þetta hans aðalsmerki, en gerði það þó að verkum að ég var frímerki frá því að gefast upp á bókinni þegar ég var hálfnaður.


Bókin fjallar um konu sem starfar á bókaforlagi. Á hverjum morgni fer hún á kaffihús og nýtur þess að fylgjast með pari að fá sér morgunmat þar og ganga í gegnum morgunverkin. Síðan hætta þau að koma, maðurinn reynist hafa verið myrtur. Í Kjölfarið fer af stað atburðarrás þar sem okkar kona kynnist ekkjunni og tekur upp samband við besta vin hins látna.

Allt þetta gerist snemma sögu. Lengi vel virðist bókin svo ekki fjalla um neitt annað. Við lesum langar heimspekilegar hugleiðingar um eðli ástarinnar, vináttunnar og hvort dauðinn sé endanlegur. Þetta er góður prósi, en ekki mikill síðuflettir. Um miðja bók gerist síðan eitthvað nýtt og spennandi. Þá tekur bókin við sér. Endirinn er mjög flottur.

Niðurstaða: ÁSTIR er lengi í gang en býr yfir flottum texta sem fær mann til að hugsa. Ágæt flétta og góðar pælingar um mannlegan breyskleika. Ég gef henni tvær og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.