Thursday, March 21, 2013

Bók #13: MÁLVERKIÐ

MÁLVERKIÐ eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er ein af þeim bókum sem móðir mín lánaði mér skömmu eftir áramót. Hildur hvatti mig líka til að lesa hana. Ég þráaðist við. Ég hef lengi haft varann á gagnvart þeim Ólafs-fegðum eftir að hafa lesið Litbrigði jarðarinnar í áttunda bekk.
.


Málverkið fjallar um enska konu, hana Alice. Hún giftist ítölskum manni þvert á vilja fjölskyldu sinnar. Stofna þau til stórbúskapar á jörð á Ítalíu með ýmsum hjáleigum. Upphaflega nýtur hann sín betur en hún, framhjáhald skekur hjónabandið, seinna eignast þau barn og loks setur síðari heimsstyrjöldin allt í uppnám. 

Samhliða er saga íslensku stelpunnar Krístinar sögð. Hún er annars flokks listamaður sem hefur atvinnu af því í Róm að gera við misáhugaverð gömul listaverk. Hún er ástfangin af vinnuveitanda sínum sem er hrokafullur og leiðinlegur.



Ég segi að sagan fjalli um þetta, en það er þó ekki sérlega vel ljóst fyrr en um miðja bók. Höfundur lætur þær Alice og Krístinu skiptast á að segja söguna. Oft er erfitt að átta sig á því hvor talar. Ekki hjálpar til þegar laufblöðin eru tvær opnur að falla til jarðar og maður missir aðeins athyglina. Auk þess flakkar sagan fram og til baka í tíma. Þetta getur verið sniðugt stílbragð en mér fannst þetta frekar tilgerðarleg brella í þessu tilviki.

Að því sögðu skapar höfundur þó mjög flott andrúmsloft. Maður fær ríka tilfinningu fyrir náttúrufegurðinni og lífinu á Ítalíu á þessum tíma. Ekki er laust við að maður fái á tilfinninguna að höfundur sé að skrifa fyrir kvikmyndatjaldið.


Bókin heitir MÁLVERKIÐ og umrætt málverk leikur stórt hlutverk. Það hefur að gera með hefnd Kristínar á ástmanni sínum. Alice fær það hlutverk að geyma málverkið í miðju stríðinu. Þetta er flott hugmynd og gaman að því hvernig málverkið fléttar persónurnar saman. Hins vegar er tengingin mjög langsótt. -Kristín fær verðlaust málverk, býr til fullkomna fölsun á gömlum meistara úr því, kemur því í hendur ástmanns síns og einhvern veginn er hefnd fólgin í því.. Svo heldur hún áfram að hafa þráhyggju gagnvart málverkinu á búgarði Alice og eyðir svefnlausum nóttum í að leita að því.

Niðurstaða: MÁLVERKIÐ er þokkaleg bók. Besti hlutinn er endirinn. Gaman að lesa um undanhald nasista frá Ítalíu. Engin tímaeyðsla í lestri en skilur þó ekki mikið eftir. Ég gef henni tvær stjörnur.

3 comments:

  1. Hljómar eins og ég gæti haft gaman af Málverkinu, tékka á henni :)

    Annars var ég að ljúka við bók sem situr í 13 sæti yfir bestu sænsku klassíkerana og hefur verið þýdd á flest tungumál, Símon og eikurnar eftir Marianne Fredriksson. Besta bók sem ég hef lesið í lengri tíma, mæli með henni.

    ReplyDelete
  2. Takk Kata, Símon hljómar spennandi, kíki á hann.

    Mamma og Hildur voru einmitt mjög hrifnar á MÁLVERKINU.

    ReplyDelete
  3. Litbrigði Jarðarinnar var mjög skemmtileg og niðurdrepandi í senn. Lúsera-drengurinn fékk að sjálfsögðu ekki dömuna sem er uppbyggjandi fyrir nemendur í 8.bekk að lesa. Bókin eykur hagvöxt! Því hún stuðlar að því að fólk vilji vera sigurvegarar í lífinu...

    ReplyDelete