Tengdamóðir mín lánaði mér bókina ELDUR NIÐRI sem er sjálfsævisaga Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings. Ég átti satt að segja ekki von á að nenna að lesa þessa bók. Í einhverju tómarúmi milli bóka greip ég þó í hana og las hana svo á tveimur kvöldum.
Bókin er 332 síður. Prentuð á þykkan og fínan pappír. Kápan er ágæt og sýnir höfund í forgrunni í litríkri yfirhöfn en svarthvítt landslag í bakgrunni. Fallegar teikningar fylgja hverjum nýjum kafla.
Haraldur rekur viðburðaríka æfi sína. Hann elst upp á Stykkishólmi og í Reykjavík en stundar síðar nám í Bretlandi. Eftir doktorspróf í jarðfræði fær hann stöðu við háskóla í karabíska hafinu. Seinna verður hann prófessor við Rhode Island.
Haraldur skrifar skemmtilegan texta. Hann virðist koma nálægt hverju einasta áhugaverða eldgosi á seinni hluta 20.aldar. Hann gerir efnið áhugavert, jafnvel fyrir mann eins og mig sem kann ekkert í jarðfræði. Hins vegar botnaði ég ekki alltaf í fræðilegri textunum og hraðlas sumt efnið.
Haraldur er líka duglegur að klappa sjálfum sér á bakið og greinir skilmerkilega frá því hvaða greinar eftir sig hafa birst í -virtustu vísindatímaritum heims-, Nature og Science. Stundum lesum við líka um þvermóðskulega ritstjóra sem verða til þess að greinar þurfa að birtast í -síðri vísindatímaritum-.
Bókin hefði haft gott af smávegis ritstjórn. Hún er ekki of löng í sjálfu sér. Köflunum er einmitt raðað í mjög skilmerkilega röð sem tengir stórviðburð í eldgosa-heiminum vel saman við ákveðin tímabil í lífi höfundar. Hins vegar kemur sumt efni aftur af óþörfu. Samverkamaður Haraldar Steven Sparks er kynntur til leiks oftar en einu sinni. Síðan virðist Find and replace fítusinn á einstaka stað hafa gert einhverja vitleysu.
Niðurstaða: ELDUR NIÐRI eftir Harald Sigurðsson var fín lesning. Ég gef henni tvær komma fimm stjörnur.
No comments:
Post a Comment