Ég las bókina ÁSTIR eftir Javier Marias á um það bil viku. Bókin kom út í NEON bókaröðinni frá Bjarti. Verkið er 346 síður í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur. Kápan er skemmtileg. Hún sýnir par í faðmlögum og kossi. Karlmaðurinn er þó með opin augun. Við túlkum það sem svo að hann sé ekki að kyssa af eins mikilli sannfæringu og konan. Auk þess hefur útlínum konunnar verið hliðrað á hátt sem sýnir ákveðna fjarlægð á skemmtilegan hátt. Ég gef kápuhönnun Ragnars Helga Ólafssonar 5 stjörnur.
Ég var lengi af stað með þessa bók. Í fyrsta lagi er textinn settur fram á mjög ólesvænan hátt, sbr. mynd að ofan. Það er lítið um greinaskil. Svo er ekkert verið að setja setningar sem einn maður segir við annan innan gæsalappa að óþörfu. Þannig er maður sífellt að ruglast á því hver segir hvað og hvort við séum yfirhöfuð stödd í samtali eða innri hugsunum aðalpersónunnar.
Þetta leiðir okkur að öðru atriði. Langar einræður persóna eru gegnumgangandi. Þetta tekst ágætlega sums staðar. Sérstaklega í mikilvægum senum í risi bókarinnar. Snemma í lestrinum á maður þó erfitt að halda einbeitingunni þegar persónur sem maður þekkir ekki eru að tala lengi um hluti sem maður skilur ekki, tengir ekki við og er alveg sama um. Ég hef ekki lesið neitt annað eftir Javier Marias. Kannski er þetta hans aðalsmerki, en gerði það þó að verkum að ég var frímerki frá því að gefast upp á bókinni þegar ég var hálfnaður.
Bókin fjallar um konu sem starfar á bókaforlagi. Á hverjum morgni fer hún á kaffihús og nýtur þess að fylgjast með pari að fá sér morgunmat þar og ganga í gegnum morgunverkin. Síðan hætta þau að koma, maðurinn reynist hafa verið myrtur. Í Kjölfarið fer af stað atburðarrás þar sem okkar kona kynnist ekkjunni og tekur upp samband við besta vin hins látna.
Allt þetta gerist snemma sögu. Lengi vel virðist bókin svo ekki fjalla um neitt annað. Við lesum langar heimspekilegar hugleiðingar um eðli ástarinnar, vináttunnar og hvort dauðinn sé endanlegur. Þetta er góður prósi, en ekki mikill síðuflettir. Um miðja bók gerist síðan eitthvað nýtt og spennandi. Þá tekur bókin við sér. Endirinn er mjög flottur.
Niðurstaða: ÁSTIR er lengi í gang en býr yfir flottum texta sem fær mann til að hugsa. Ágæt flétta og góðar pælingar um mannlegan breyskleika. Ég gef henni tvær og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.
No comments:
Post a Comment