Í trúnaði er bók eftir Hélene Grémillon. Umrædd bók kom út í NEON-klúbbnum nýlega. Bókin er 245 síður í þýðingu Kristínar Jónsdóttur. Á kápunni eru ekki notaðir hástafir. Það er kostur, í þeim skilningi að sá siður útgefanda að láta bækur heita eitthvað eins og BREKKUKOTSANNÁLL er afar þreytandi. Á hinn bóginn hefði bókstafurinn 'Í' gjarnan mátt vera hástafur. Svo sem og upphafsstafirnir í nafni höfundar.
Myndin á kápunni er skemmtileg. Hún sýnir konu sitja á steinbekk, mögulega við strönd, að draga hár frá andliti sér. Þannig sjást andlitsdrættirnir ekki vel og gerir konuna mjög óræða. Þetta passar fullkomnlega við innihald bókarinnar. Plús í kladdann fyrir kápuhönnuð Bjarts og ljósmyndarann Elif Sanem Karakoc.
Um er að ræða tvöfalda rammasögu. Í nútímanum fær kona, Camille, bréf frá ókunnum manni að nafni Louis. Maðurinn segir sögu fólks sem Camille kannast ekki við. Fljótlega talar maðurinn um konu að nafni Annie, segir frá fundi þeirra þar sem Annie segir honum sögu sína, sem Lous segir aftur Camille í bréfinu, eins og Annie hafði sagt honum söguna.
Þetta er afar ruglingslegt fyrir lesandann á fyrstu metrunum. Það er erfitt að átta sig á persónunum, allt er skrifað í fyrstu persónu og engin viðvörun gefin hvenær bréfið er að tala og hvenær Camille, nema smá leturbreyting, sem ég tók ekki einu sinni eftir. Þar að auki er bréfið bæði sagt frá sjónarhóli Annie og Louis.
Það tekur um 50 síður fyrir söguna sjálfa að komast af stað en fram að því hefur bókin svæfandi áhrif á lesandann. Ég held ég hafi verið tvö kvöld með þessar 50 síður.
Saga aðalpersónunnar, Annie'ar er þessi: Hún elst upp í þorpi fyrir utan París. Í þorpið flytur rík kona, frú M, og maður hennar. Frú M tekur Annie "í fóstur". Bíður henni heim til sín, skaffar henni aðstöðu til að sinna ástríðu sinni, málun.
Í ljós kemur að frú M er óhamingjusöm í hjónabandi vegna þess að hún getur ekki eignast barn með manni sínum. Þeim verður að ráði að Annie beri barnið fyrir þau. Þó er þetta fyrir tíma nútímatækni og hún verður því að gerast barnshafandi upp á gamla mátann með eiginmanni frú M.
Það er ekki erfitt að giska á að þetta plan reynist ekki alveg fullkomið.
Milli þess sem saga Annie'ar og félaga er sögð í bréfinu reynir Camille að átta sig á því hvernig þetta mál tengist sér. Sá hluti er þó í aukahlutverki.
Síðari heimsstyrjöld setur atburðina í enn tragískari umgjörð.
Niðurstaða: Ég var mjög ánægður með þessa bók. Sagan er mjög grípandi og bæði dramatísk og spennandi. Tveir óvæntir snúningar í endann eru líka mjög vel útfærðir. Ég gef Í trúnaði 3,5 stjörnur.
Dúkkur frumburðarins virka einhvern veginn extra krípí á þessum myndum!
ReplyDelete