Tuesday, June 25, 2013

Bók #28: lost memory of skin

Ég tók bókina lost memory of skin á bókasafninu samkvæmt meðmælum dóttur minnar sem kunni vel að meta kápuna. Ég get tekið undir það. Fallega drungaleg teikning, sem gæti líkað verið ljósmynd, sem sýnir mikilvægasta svið sögunnar. Á kápunni má einnig lesa hrós frá Jonathan Franzen og Margaret Atwood. Betri gerast meðmælin ekki.


Aðalpersóna sögunnar er strákurinn. The kid. Hann hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot. Við komumst að vísu ekki að eðli þess fyrr en um miðja bók. Á ökklanum ber hann GPS tæki sem fylgist með ferðum hans. Honum er ekki heimilt að dveljast innan 2500 feta geisla frá hverjum þeim stað þar sem börn safnast saman. 

Þar með eru fáir staðir í boði til að búa. Strákurinn heldur því til undir mislægum gatnamótum ásamt fleiri mönnum í svipaðri stöðu. Í heimi þar sem auðvelt er að fletta mönnum upp á netinu er ekki auðvelt fyrir dæmda menn í þessum kringumstæðum að fá atvinnu.

Önnur mikilvæg persóna í sögunni er prófessorinn. Hann hefur áhuga á að kynna sér stöðu útgangsmanna sem einnig eru kynferðisglæpamenn. Hann finnur strákinn undir brúnni og fær hann til að tala við sig. Í gegnum þeirra samtöl fáum við svo að vita meira um bakgrunn stráksins og prófessorsins.

Strákurinn reynist hafa verið háður klámi og haft lítið annað að gera á daginn en að hanga heima og stunda sjálfsfróun. Hann var um stund í þjálfunarbúðum hersins en var sendur heim fyrir að dreifa klámi.

Strákurinn er sem sagt skrifaður sem frekar ómerkilegur karaketer. Samt er hann algjörlega fórnarlamb aðstæðna. Höfundi tekst allavega vel að skrifa hann sem symptatíska persónu. Hann á greinilega skilið að fá annað tækifæri í lífinu en það er ekki í boði í þessu umhverfi.


Prófessorinn á hinn bóginn á að vera mikill sigurvegari í lífinu. Hann á fullkomna eiginkonu, vel heppnuð börn. Farsæll í starfi. Ytri ásýndin er þó ekki fullkominn því hann þjáist af sjúklegri offitu. Fyndnustu senur bókarinnar eru þær þar sem prófessorinn stendur við ísskápinn heima og raðar í sig. Gjarnan um miðja nótt. Það er svo leiðinlegt að láta aðra horfa á sig borða.

Á þennan hátt er dregin ákveðin samsvörun á milli stráksins og prófessorsins. Sá gamli þjáist af átfíkn sem er nokkurn veginn félagslega ásættanleg og háir honum ekki beinilínis. Strákurinn á hinn bóginn er klámfíkill. Honum er útskúfað úr samfélaginu.

Fléttan í bókinni, sem er nokkuð lengi að verða ljós, hefur svo að gera með að prófessorinn er kannski ekki allur þar sem hann er séður. Hann á ef til vill meira sameiginlegt með stráknum en maður gæti haldið.

Mér fannst persónusköpunin ekki alveg fullkomin. Strákurinn á að vera hlédrægur og félagsfælinn. Samt er hann rekinn úr vinnu vegna þess að hann getur ekki haldið kjafti. Einnig fær maður aðeins á tilfinninguna að höfundur hafi átt dálítið í erfiðleikum með að smíða plott út frá heiminum sem hann hefur skapað. Sagan skiptir dálítið um stefnu sitt á hvað. Endirinn er samt góður og skemmtilega tvíræður.


Niðurstaða: Sagan heldur lesandanum vel við efnið og maður heldur merkilega mikið með báðum, gölluðu, persónunum. Viðfangsefnið er þungt og kannski eldfimt. Ég get þess vegna ekki mælt með henni við alla. Ég gef bókinni 3,5 stjörnur.

Wednesday, June 19, 2013

Bók #27: VEISLA í FARÁNGRINUM

VEISLA Í FARÁNGRINUM er bók eftir Ernest Hemingway. Hún kom út að honum látnum árið 1964. Halldór Laxness sneri á íslenzku. Kom sú íslenskun fyrst út árið 1966. Þýðingin er skemmtileg. Hvergi annars staðar fá menn sér reykta eða saltaða höm í morgunmat.


Kápan er í þessum dæmigerða þreytandi íslenska 9.áratugar stíl. Of mikið af litum. Ekki það að kápan á nútímaútgáfunni sé spennandi í sínum ofurraunsæisstíl.

Efni bókarinnar er endurminningar höfundar frá dvöl í París á þriðja áratug síðustu aldar. Þessi tími hefur komið fyrir í öðrum verkum. Hemingway er t.d. mikilvæg persóna í Midnight in Paris. Einnig Any Human Heart. 

Titillinn er útskýrður í byrjun:
Hver sem í æsku átti því láni að fagna að ílendast í Páris um skeið, hann mun sanna að hvar sem leiðir liggja síðan er París í för með honum einsog veisla í farángrinum.
Moveable feast heitir þetta á ensku. Það er eitthvað við þýðinguna sem truflar mig. Mér finnst vera munur á að hafa aðgang að veislu þegar það hentar manni og að vera stanslaust með veislu í farangrinum. 


Bókin skiptist í marga stutta kafla og lýsir lífi þeirra Hemingway hjóna. Samskiptum þeirra við aðra í París á þessum tíma. Gertrude Stein, F. Scott Fitzgerald og fleiri. Svo mikið er raunar af persónum að ég ruglaði öllum saman. Auðvitað spilar bókmenntaólæsi mitt þarna inn í. Ég hef bara aldrei heyrt Ezra Pounds getið né Ford Madox Fords.

Lýsingar eru myndrænar og skemmtilegar. Maður fær ágæta tilfinningu fyrir borginni og hinu ljúfa lífi sem unnt er að lifa. Höfundur er þó bláfátækur óþekktur rithöfundur. Maður kynnist því líka hungrinu, kuldanum og vosbúðinni.

Hemingway skrifar sjálfan sig sem mikinn sigurvegara í þessari bók. Hann er agaður meðan aðrir eru latir. Drekkur vel og mikið en hinir eru hænuhausar -einkum F. Scott Fitzgerald. Hann leggur duglega undir á veðreiðum og er alltaf í gróða.


Ég hef ekki lesið neitt eftir Hemingway áður. Þetta er líklega ekki besta bókin til að byrja á. Það hefði verið skemmtilegra að hafa betri filfinningu fyrir manninum og verkum hans.

Niðurstaða: VEISLA Í FARÁNGRINUM er skemmtileg saga sem skilur eftir sig ákveðna trega-tilfinningu. Ég gef henni þrjár stjörnur.

Friday, June 14, 2013

Bók #26: ENDIMÖRK HEIMSINS

Bókin ENDIMÖRK HEIMSINS er eftir Sigurjón Magnússon sem kom út árið 2012. Bókin er mjög stutt, nákvæmlega 100 síður. Sigurjón hefur skrifað nokkrar bækur. Þar með talið bókina ÚTLAGAR. Það er afar góð bók sem fjallar um Íslending sem fer til náms í austur-þýskalandi kommúnismans. 


Kápan er ljót en þjónar tilgangi sínum. Kornótt mynd af ungum dreng sem réttir upp hendurnar í uppgjöf. Eðlilegt hefði verið að skýra frá myndinni á höfundarréttar-síðunni, en það er ekki gert. Með gúggli er þó ljóst að myndin er upphafleg og af einni persónu bókarinnar. Alexei litla. Kannski er þetta fræg ljósmynd. Allavega ekki nógu fræg til að ég þekki hana. 

Umfjöllunarefnið er síðustu dagar Rómanov-fjölskyldunnar í stofufangelsi. Frásagnarstíllinn er nokkuð ruglandi framan af og maður er frekar lengi að komast inn í bókina. Sagan er sögð í fyrstu persónu. Ekki er ljóst á fyrstu 10 síðunum hver er að tala. Það reynist vera Pétur Jermakov. Sá maður talar aðallega um annan sem nefnist Júrovskí. Ég er sjálfur svo einfaldur að þegar tvær persónur bera óþjált eftirnafn með sama upphafsstaf þá tekur mig langan tíma að muna hvor er hvor. 

Þetta minnir mig á kosningarnar í Úkraínu 2006 þegar maður þurfti að gera greinarmun á Janúkóvíts og Júsjenskó. 


Nema hvað. Pétur Jermakov er að tala á samkomu þar sem markmiðið er að rifja upp þá síðustu daga Rómanov-fjölskyldunnar. Fyrst þarf hann samt að fjalla aðeins um álíka samkomu í sama húsi nokkru fyrr þar sem allt fór úr böndunum. Þessi grunnur fyrir rammasöguna tekur varla 20 síður. Samt er einhvern veginn erfitt að átta sig á því hvað er í gangi þegar maður frumles þetta. 

Síðan byrjar Jermakov að segja frá. Hann lýsir aðeins aðdraganda þess að rússneska keisarafjölskyldan er sett í stofufangelsi. Við kynnumst aðbúnaði þeirra þar. Þetta er hins vegar allt uppbygging fyrir lokafléttuna sem er aftakan.  

Maður hefur lesið alls konar ógeð og séð þeim mun verri hluti í sjónvarpi. Það var samt ekkert sem hafði búið mig undir að lesa fyrstu persónu lýsingu sýkópata sem ristir börn á hol. Það er að segja eftir að hafa reynt að skjóta sem flesta. Við lesum svo sjálfsréttlætingu hans fyrir þessu og hve mikla skömm hann hefur á liðsfélögum sínum sem "meika þetta ekki". 

Að þessu leyti verður maður að gefa höfundi prik fyrir persónusköpun. Jermakov er söguleg persóna og honum er fullkomnlega lýst sem siðblindingja sem lesandinn fyrirlítur. Ég átti erfitt með að festa svefn kvöldið sem ég kláraði bókina.


Niðurstaða: Það er erfitt að meta þessa bók. Umfjöllunarefnið er óneitanlega athyglisvert. Kostur bókarinnar er líka hve stutt hún er. Það tekur hins vegar á sálarlífið að lesa nákvæmar lýsingar á barnamorðum. Mér líður eins og ritskoðunarsinna frá níunda áratugnum; Af hverju var ekki hægt að skrifa fallega bók? Algild gæði bókarinnar eru mikil. Samt get ég ekki mælt með henni við hvern sem er. Stjörnugjöf er ómöguleg.

Tuesday, June 11, 2013

Bók #25: Ráðskonan og prófessorinn

Ráðskonan og prófessorinn er Neon-bók sem kom út nýlega á íslensku. Á frummálinu er útgáfuárið 2003. Höfundur er Yoko Ogawa. Frábæra þýðingu gerði Elísa björg Þorsteinsdóttir. Bókin er 191 síða.


Það er auðvelt að lýsa sögunni. Söguhetjan er ráðskonan. Hún hefur ekkert nafn, frekar en aðrar persónur bókarinnar. Sú starfar hjá Húshjálparmiðlun Akebonosar. Hún hefur þjónað ýmsum herrum en er nú send til prófessorins. Mágkona hans setur ráðskonuna inn í verkið. Vandamálið er að minni prófessorins síðustu 20 árin nær aðeins yfir síðustu 80 mínútur. 

Þetta þýðir að prófessorinn þekkir enn mágkonu sína en ráðskonan þarf að kynna sig fyrir honum á hverjum morgni. Prófessorinn hefur þó fundið snjalla leið til að hjálpa sér. Hann límir minnismiða á fötin sín með helstu upplýsingum. Ýmsar glósur um daglegt líf. Sú mikilvægasta af öllum er þó þessi: "Minni mitt nær aðeins yfir 80 mínútur". 

Ráðskonan á 10 ára son. Prófessornum finnst höfuðlag hans minna á táknið fyrir kvaðratrót. Hann er því nefndur Róti. Prófessorinn virðist vera mjög hændur að börnum. Róta líkar einnig vel við prófessorinn og ráðskonan brýtur reglur Húshjálparmiðlunar Akebonosar og hefur Róta með sér í vinnuna að skóla loknum. Prófessorinn kennir Róta stærðfræði og ráðskonan er líka áhugasöm. 



Það er nokkuð mikið af stærðfræði í bókinni. Sérstaklega framan af. Ég gæti trúað að það virki fráhrindandi á marga lesendur: 
"Að sjálfsögðu eru samtölur úr þáttum talna sem ekki eru fullkomnar annaðhvort hærri eða lægri en þær sjálfar. Ef samtalan er hærri er hún kölluð 'ríkuleg tala' og ef hún er lægri kallast hún 'fátæklega tala'. Gegnsæ nöfn finnst yður ekki? Tökum töluna 18 til dæmis: 1 + 2 + 3 + 6 + 9 = 21, svo að hún er sem sé ríkuleg tala. 14 er hins vegar fátækleg: 1 + 2 + 7 = 10"
Áhugavert efni en höfundur hlýtur að reyna á þolrif lesandans. En það er reyndar þannig að í bókum er ýmislegt misáhugavert sem maður les mishratt.

Ráðskonunni fer að þykja vænt um prófessorinn. Á endanum lendir hún í vandræðum hjá Húshjálparmiðlun Akebonosar og mágkonunni. 

Hlutverk mágkonunnar í sögunni er áhugavert. Hún ræður ráðskonuna en vill alls ekki eiga nein samskipti við hana. Reyndar virðast samskipti hennar við prófessorinn ekki vera nein heldur. Hún virðist hýsa mág sinn í garðhúsi og halda honum uppi. Ástæðurnar eru ekki vel ljósar. Lesandinn fer þó að geta í eyðurnar meðan á lestri stendur. Þessi hluti sögunnar er mjög vel útfærður.


Róti leikur lykilhlutverk. Hvers vegna prófessorinn er svo hændur að honum er ekki heldur skýrt. Róta þykir einnig afar vænt um prófessorinn og verður reiður móður sinni fyrir að treysta prófessornum ekki fullkomnlega gagnvart sér. 

Niðurstaða: Ráðskonan og prófessorinn er falleg og hugljúf saga um mannlegar tilfinningar. Ég gef henni 3,5 stjörnur.

Thursday, June 6, 2013

Bók #24: EKKI ÞESSI TÝPA

Mér barst bókin EKKI ÞESSI TÝPA eftir Björgu Magnúsdóttur rétt fyrir helgi og kláraði hana á þriðjudag. Bókin er sú fyrsta eftir Björgu. Útgefandi er JPV og sagan er 350 síður.


Það verður að segjast að kápa bókarinnar er ekki mjög aðlaðandi. Forgrunnurinn er einhvers konar sæ-græn-blár litur. Út úr honum hafa verið klipptar myndir af fjórum fígúrum í appelsínugulum og bleikum lit þar sem enn er mynd af miðbæ Reykjavíkur á bak við. Titillinn er svo ritaður með gulum lit og nafn höfundar með bleikum. 

Allt í lagi, maður nær skilaboðunum, þetta eru stelpur, höfundur er stelpa, djammið mun koma við sögu. Ég fæ lánaðan frasa úr bókinni: Þetta er bara einhvern veginn aðeins of mikið.


Sagan sver sig í ætt svokallaðra skvísubókmennta. Þetta er sumarbók, stelpubók. "Drífðu þig nú með þessa gellubók, mig langar að lesa hana!". Að þessu leyti er hún skyld bókum á borð við DÍS frá árinu 2000 og Kortér sem kom út í fyrra.

Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf haft gaman að þessari tegund bókmennta. Það er ánægjulegt að lesa sögur um samskipti vinkvenna, tenginguna við hitt kynið, sumarlega Reykjavík og sjálfskoðun persóna á tímamótum í sínu lífi.


Sagan er sögð frá sjónarhóli fjögura kvenna sem eru allar góðar vinkonur. Þetta tengir bókina aftur sterkt við Kortér nema þar eru vensl persónana ekki bein. Maður hugsar líka óhjákvæmilega til Sex and the City og reynir að máta karaktera saman.

Við höfum Bryndísi (virðist vera aðalpersónan), Ingu (settlegi lögfræðingurinn í Grafarvogi), Regínu (hægrisinnaða bankakonan) og Tinnu (ofsalega fallega listagallerískonan). Bókin byrjar nokkuð hressilega með spaugilegu atviki á klósetti sem stíflast. Síðan tekur nokkuð langan tíma að kynna konurnar til leiks. Það er gert nokkuð vel og aðallega með samtölum. Það er reyndar mjög mikið af samtölum í bókinni. Kannski of mikið. Maður hefði gjarnan vilja fá betri yfirsýn hvað varðar bakgrunn stúlknanna.


Framan af bíður maður dálítið eftir að "sagan byrji", en bókin hefur enga eiginlega fléttu. Hver karakter fær sitt mál til að glíma við. Bryndís þarf að takast á við áfengissýki föður síns og áhrif þess á sig. Inga á erfiða tengdafjölskyldu. Regína tekst á við ótímabært þvaglát hjásvæfu sinnar. Tinna þarf að hugsa út í mögulega samkynhneigð kærasta síns.

Í heildina tekst þetta nokkuð vel. Þegar maður er "kominn inn í" bókina er gaman að lesa um samskipta þeirra vinkvenna. Það er hins vegar oft ruglandi að þurfa að sitja við sjónarhól hverrar og einnar. Sérstaklega þar sem þær eru allar fjórar saman meirihlutann af bókinni. Ég þurfti iðulega að fletta til baka á byrjun kafla til að rifja upp hver er sögumaður til að ljóst sé hver "ég" sé í hverju tilviki.

Þrátt fyrir að vera sumarsmellurinn í ár gerist bókin reyndar alls ekki um sumar. Ég saknaði dálítið staðarlýsinga. Sérstaklega í tengslum við næturlífið. Þær lýsingar á (óhóflegri) áfengisneyslu eru reyndar skemmtilegar. Sagan ristir líka nokkuð djúpt og tekur býsna vel á hlutum eins og alkahólisma. Víða eru síðan samtöl og hugmyndir um jafnrétti og femínsma sem heppnast vel. Sérstaklega eftir að lesandinn fær betri tilfinningu fyrir persónunum.


Út um alla bók eru ýmsar eftirminnilegar og mjög fyndnar senur sem standa upp úr. Lýsingar eru myndrænar og það ætti að vera auðvelt að búa til kvikmynd eftir bókinni. Banter á milli Regínu og Bryndísar er líka vel útfærður. Þær eru ólíkar týpur, en bæta hvor aðra upp og eru bestu vinkonur.

Niðurstaða: Ekki þessi týpa er mjög fín bók sem hentar ýmsum aldurshópum. Sagan flæðir vel og það leynir sér ekki að Björg er flottur penni sem hefur gott vald á íslensku. "Langflottust!" virðist vera slagorð bókarinnar. Ég gef henni þrjár stjörnur.