Ráðskonan og prófessorinn er Neon-bók sem kom út nýlega á íslensku. Á frummálinu er útgáfuárið 2003. Höfundur er Yoko Ogawa. Frábæra þýðingu gerði Elísa björg Þorsteinsdóttir. Bókin er 191 síða.
Það er auðvelt að lýsa sögunni. Söguhetjan er ráðskonan. Hún hefur ekkert nafn, frekar en aðrar persónur bókarinnar. Sú starfar hjá Húshjálparmiðlun Akebonosar. Hún hefur þjónað ýmsum herrum en er nú send til prófessorins. Mágkona hans setur ráðskonuna inn í verkið. Vandamálið er að minni prófessorins síðustu 20 árin nær aðeins yfir síðustu 80 mínútur.
Þetta þýðir að prófessorinn þekkir enn mágkonu sína en ráðskonan þarf að kynna sig fyrir honum á hverjum morgni. Prófessorinn hefur þó fundið snjalla leið til að hjálpa sér. Hann límir minnismiða á fötin sín með helstu upplýsingum. Ýmsar glósur um daglegt líf. Sú mikilvægasta af öllum er þó þessi: "Minni mitt nær aðeins yfir 80 mínútur".
Ráðskonan á 10 ára son. Prófessornum finnst höfuðlag hans minna á táknið fyrir kvaðratrót. Hann er því nefndur Róti. Prófessorinn virðist vera mjög hændur að börnum. Róta líkar einnig vel við prófessorinn og ráðskonan brýtur reglur Húshjálparmiðlunar Akebonosar og hefur Róta með sér í vinnuna að skóla loknum. Prófessorinn kennir Róta stærðfræði og ráðskonan er líka áhugasöm.
Það er nokkuð mikið af stærðfræði í bókinni. Sérstaklega framan af. Ég gæti trúað að það virki fráhrindandi á marga lesendur:
"Að sjálfsögðu eru samtölur úr þáttum talna sem ekki eru fullkomnar annaðhvort hærri eða lægri en þær sjálfar. Ef samtalan er hærri er hún kölluð 'ríkuleg tala' og ef hún er lægri kallast hún 'fátæklega tala'. Gegnsæ nöfn finnst yður ekki? Tökum töluna 18 til dæmis: 1 + 2 + 3 + 6 + 9 = 21, svo að hún er sem sé ríkuleg tala. 14 er hins vegar fátækleg: 1 + 2 + 7 = 10"
Áhugavert efni en höfundur hlýtur að reyna á þolrif lesandans. En það er reyndar þannig að í bókum er ýmislegt misáhugavert sem maður les mishratt.
Ráðskonunni fer að þykja vænt um prófessorinn. Á endanum lendir hún í vandræðum hjá Húshjálparmiðlun Akebonosar og mágkonunni.
Hlutverk mágkonunnar í sögunni er áhugavert. Hún ræður ráðskonuna en vill alls ekki eiga nein samskipti við hana. Reyndar virðast samskipti hennar við prófessorinn ekki vera nein heldur. Hún virðist hýsa mág sinn í garðhúsi og halda honum uppi. Ástæðurnar eru ekki vel ljósar. Lesandinn fer þó að geta í eyðurnar meðan á lestri stendur. Þessi hluti sögunnar er mjög vel útfærður.
Róti leikur lykilhlutverk. Hvers vegna prófessorinn er svo hændur að honum er ekki heldur skýrt. Róta þykir einnig afar vænt um prófessorinn og verður reiður móður sinni fyrir að treysta prófessornum ekki fullkomnlega gagnvart sér.
Niðurstaða: Ráðskonan og prófessorinn er falleg og hugljúf saga um mannlegar tilfinningar. Ég gef henni 3,5 stjörnur.
No comments:
Post a Comment