Thursday, June 6, 2013

Bók #24: EKKI ÞESSI TÝPA

Mér barst bókin EKKI ÞESSI TÝPA eftir Björgu Magnúsdóttur rétt fyrir helgi og kláraði hana á þriðjudag. Bókin er sú fyrsta eftir Björgu. Útgefandi er JPV og sagan er 350 síður.


Það verður að segjast að kápa bókarinnar er ekki mjög aðlaðandi. Forgrunnurinn er einhvers konar sæ-græn-blár litur. Út úr honum hafa verið klipptar myndir af fjórum fígúrum í appelsínugulum og bleikum lit þar sem enn er mynd af miðbæ Reykjavíkur á bak við. Titillinn er svo ritaður með gulum lit og nafn höfundar með bleikum. 

Allt í lagi, maður nær skilaboðunum, þetta eru stelpur, höfundur er stelpa, djammið mun koma við sögu. Ég fæ lánaðan frasa úr bókinni: Þetta er bara einhvern veginn aðeins of mikið.


Sagan sver sig í ætt svokallaðra skvísubókmennta. Þetta er sumarbók, stelpubók. "Drífðu þig nú með þessa gellubók, mig langar að lesa hana!". Að þessu leyti er hún skyld bókum á borð við DÍS frá árinu 2000 og Kortér sem kom út í fyrra.

Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf haft gaman að þessari tegund bókmennta. Það er ánægjulegt að lesa sögur um samskipti vinkvenna, tenginguna við hitt kynið, sumarlega Reykjavík og sjálfskoðun persóna á tímamótum í sínu lífi.


Sagan er sögð frá sjónarhóli fjögura kvenna sem eru allar góðar vinkonur. Þetta tengir bókina aftur sterkt við Kortér nema þar eru vensl persónana ekki bein. Maður hugsar líka óhjákvæmilega til Sex and the City og reynir að máta karaktera saman.

Við höfum Bryndísi (virðist vera aðalpersónan), Ingu (settlegi lögfræðingurinn í Grafarvogi), Regínu (hægrisinnaða bankakonan) og Tinnu (ofsalega fallega listagallerískonan). Bókin byrjar nokkuð hressilega með spaugilegu atviki á klósetti sem stíflast. Síðan tekur nokkuð langan tíma að kynna konurnar til leiks. Það er gert nokkuð vel og aðallega með samtölum. Það er reyndar mjög mikið af samtölum í bókinni. Kannski of mikið. Maður hefði gjarnan vilja fá betri yfirsýn hvað varðar bakgrunn stúlknanna.


Framan af bíður maður dálítið eftir að "sagan byrji", en bókin hefur enga eiginlega fléttu. Hver karakter fær sitt mál til að glíma við. Bryndís þarf að takast á við áfengissýki föður síns og áhrif þess á sig. Inga á erfiða tengdafjölskyldu. Regína tekst á við ótímabært þvaglát hjásvæfu sinnar. Tinna þarf að hugsa út í mögulega samkynhneigð kærasta síns.

Í heildina tekst þetta nokkuð vel. Þegar maður er "kominn inn í" bókina er gaman að lesa um samskipta þeirra vinkvenna. Það er hins vegar oft ruglandi að þurfa að sitja við sjónarhól hverrar og einnar. Sérstaklega þar sem þær eru allar fjórar saman meirihlutann af bókinni. Ég þurfti iðulega að fletta til baka á byrjun kafla til að rifja upp hver er sögumaður til að ljóst sé hver "ég" sé í hverju tilviki.

Þrátt fyrir að vera sumarsmellurinn í ár gerist bókin reyndar alls ekki um sumar. Ég saknaði dálítið staðarlýsinga. Sérstaklega í tengslum við næturlífið. Þær lýsingar á (óhóflegri) áfengisneyslu eru reyndar skemmtilegar. Sagan ristir líka nokkuð djúpt og tekur býsna vel á hlutum eins og alkahólisma. Víða eru síðan samtöl og hugmyndir um jafnrétti og femínsma sem heppnast vel. Sérstaklega eftir að lesandinn fær betri tilfinningu fyrir persónunum.


Út um alla bók eru ýmsar eftirminnilegar og mjög fyndnar senur sem standa upp úr. Lýsingar eru myndrænar og það ætti að vera auðvelt að búa til kvikmynd eftir bókinni. Banter á milli Regínu og Bryndísar er líka vel útfærður. Þær eru ólíkar týpur, en bæta hvor aðra upp og eru bestu vinkonur.

Niðurstaða: Ekki þessi týpa er mjög fín bók sem hentar ýmsum aldurshópum. Sagan flæðir vel og það leynir sér ekki að Björg er flottur penni sem hefur gott vald á íslensku. "Langflottust!" virðist vera slagorð bókarinnar. Ég gef henni þrjár stjörnur.

No comments:

Post a Comment