Bókin ENDIMÖRK HEIMSINS er eftir Sigurjón Magnússon sem kom út árið 2012. Bókin er mjög stutt, nákvæmlega 100 síður. Sigurjón hefur skrifað nokkrar bækur. Þar með talið bókina ÚTLAGAR. Það er afar góð bók sem fjallar um Íslending sem fer til náms í austur-þýskalandi kommúnismans.
Kápan er ljót en þjónar tilgangi sínum. Kornótt mynd af ungum dreng sem réttir upp hendurnar í uppgjöf. Eðlilegt hefði verið að skýra frá myndinni á höfundarréttar-síðunni, en það er ekki gert. Með gúggli er þó ljóst að myndin er upphafleg og af einni persónu bókarinnar. Alexei litla. Kannski er þetta fræg ljósmynd. Allavega ekki nógu fræg til að ég þekki hana.
Umfjöllunarefnið er síðustu dagar Rómanov-fjölskyldunnar í stofufangelsi. Frásagnarstíllinn er nokkuð ruglandi framan af og maður er frekar lengi að komast inn í bókina. Sagan er sögð í fyrstu persónu. Ekki er ljóst á fyrstu 10 síðunum hver er að tala. Það reynist vera Pétur Jermakov. Sá maður talar aðallega um annan sem nefnist Júrovskí. Ég er sjálfur svo einfaldur að þegar tvær persónur bera óþjált eftirnafn með sama upphafsstaf þá tekur mig langan tíma að muna hvor er hvor.
Þetta minnir mig á kosningarnar í Úkraínu 2006 þegar maður þurfti að gera greinarmun á Janúkóvíts og Júsjenskó.
Nema hvað. Pétur Jermakov er að tala á samkomu þar sem markmiðið er að rifja upp þá síðustu daga Rómanov-fjölskyldunnar. Fyrst þarf hann samt að fjalla aðeins um álíka samkomu í sama húsi nokkru fyrr þar sem allt fór úr böndunum. Þessi grunnur fyrir rammasöguna tekur varla 20 síður. Samt er einhvern veginn erfitt að átta sig á því hvað er í gangi þegar maður frumles þetta.
Síðan byrjar Jermakov að segja frá. Hann lýsir aðeins aðdraganda þess að rússneska keisarafjölskyldan er sett í stofufangelsi. Við kynnumst aðbúnaði þeirra þar. Þetta er hins vegar allt uppbygging fyrir lokafléttuna sem er aftakan.
Maður hefur lesið alls konar ógeð og séð þeim mun verri hluti í sjónvarpi. Það var samt ekkert sem hafði búið mig undir að lesa fyrstu persónu lýsingu sýkópata sem ristir börn á hol. Það er að segja eftir að hafa reynt að skjóta sem flesta. Við lesum svo sjálfsréttlætingu hans fyrir þessu og hve mikla skömm hann hefur á liðsfélögum sínum sem "meika þetta ekki".
Að þessu leyti verður maður að gefa höfundi prik fyrir persónusköpun. Jermakov er söguleg persóna og honum er fullkomnlega lýst sem siðblindingja sem lesandinn fyrirlítur. Ég átti erfitt með að festa svefn kvöldið sem ég kláraði bókina.
Niðurstaða: Það er erfitt að meta þessa bók. Umfjöllunarefnið er óneitanlega athyglisvert. Kostur bókarinnar er líka hve stutt hún er. Það tekur hins vegar á sálarlífið að lesa nákvæmar lýsingar á barnamorðum. Mér líður eins og ritskoðunarsinna frá níunda áratugnum; Af hverju var ekki hægt að skrifa fallega bók? Algild gæði bókarinnar eru mikil. Samt get ég ekki mælt með henni við hvern sem er. Stjörnugjöf er ómöguleg.
No comments:
Post a Comment