Thursday, August 1, 2013

Bók #32: TIGERS IN RED WEATHER

Ég tók bókina TIGERS IN RED WEATHER eftir Lizu Klaussmann á bókasafninu eftir rælni. Blaðsíðufjöldinn er 389 og kom sagan út árið 2012. 


Þetta er fyrsta bók höfundar sem áður hefur starfað sem blaðamaður. „Intelligent beach read of the summer“ segir Sunday Times. Mátulega yfirlætisleg ummæli sem höfðuðu til mín ásamt ágætri kápu.

Sagan gerist á árunum 1945-1967. Í forgrunni eru hjónin Nick (kvk) og Hughes (kk). Hann snýr heim úr stríðinu og þau reyna að byrja fjölskyldulíf saman. Það gengur ekki sérlega vel framan af. Við fylgjumst með Nick leika hlutverk hagsýnu húsmóðurinnar í Flórída meðan Hughes starfar enn fyrir herinn. Það umhverfi hentar henni ekki. Þau flytja á æskuslóðirnar á norðausturströndinni og eignast dótturina Daisy.


Bókin skiptir miskunnarlaust um sjónarhorn og tíma. Persóna Helenu, frænku Nickur, er mikilvæg. Hún á soninn Ed og þau búa í Kaliforníu ásamt lúsernum eiginmanni hennar.

Megin-flétta bókarinnar hverfist um morð sem framið er 1959. Frændsystkinin Ed og Daisy ganga fram á líkið. Ed virðist frekar ógeðug persóna og lesandann grunar að hann viti meira en ljóst er í byrjun.


Hér spilar frásagnaraðferð höfundar sterkt hlutverk. Fyrst er Nick sögumaður, þá Daisy, svo Helena, Hughes og loks Ed. Þannig fær maður upplifun hverrar persónu af atburðum og heildarmynd púslast saman, smám saman.

Persónurnar eru trúverðugar og litríkar, en að vísu frekar klisjukenndar. Veikleiki sögunnar liggur í skortinum á almennilegum söguþræði. Umhverfi og tíðaranda er líst mjög vel. Það er þó eins og persónurnar nái ekki alveg að njóta sín í þessari skáldsögu. Þær hafa einfaldlega ekki úr nógu miklu að spila. Það getur verið skemmtilegt fyrir lesanda að sjá sama atburðin frá fleiri en einu sjónarhorni en í þessari bók er um of mikla endurtekningu að ræða.


Annar galli er persóna Eds. Hann á að vera einhvers konar vondi-kall bókarinnar en þó ef til vill bara misskilinn einfari. Hann á ömurlega foreldra sem á að útskýra geðslag hans. Þrátt fyrir allt kynnumst við honum aldrei af neinni dýpt. Lokaatriði bókarinnar með Ed í miðpunkti kemur þannig eins og skrattinn úr sauðaleggnum.

Niðurstaða: TIGERS IN RED WEATHER er bók sem skilur lítið eftir og vinnur ekki nógu vel úr efniviði. Forðist að taka með á ströndina. Notist ekki til aukningar á greindarvísitölu. 1,5 stjarna.

No comments:

Post a Comment