Í kjölfar ánægju minnar með bókina HOW TO TALK TO A WIDOWER ákvað ég að taka aðra bók eftir sama höfund á bókasafninu. Bókin kom út árið 2010 og telur 338 síður.
Forsíða kápunnar er ágæt í einfaldleika sínum. Litríkir bókstafir ofan á teikningu af húsi sem er miðpunktur sögunnar. Bakhliðin fær mínusstig. Hún er þakin tilvitnunum með jákvæðum umsögnum um verk höfundar. Þetta er alvarleg synd útgefandans. Bakhliðin á að gefa hugmynd um efni sögunnar og/eða segja frá höfundi. Inni í bókinni er svo vísað í heimildir. Ekki batnar það því ekkert er sagt um nákvæmlega hvaða verk fékk eiginlega þessa frábæru ummæli sem slitin eru úr samhengi. Fáránlegt.
Sagan fjallar um Judd og fjölskyldu hans. Judd er karlmaður um þrítugt sem lendir í alls konar ógæfu á sama tíma. Faðir hans deyr, konan heldur framhjá honum og hann missir vinnuna. Það var auðvitað yfirmaðurinn sem var að sofa hjá konunni.
Í kjölfar andláts föðurins safnast fjölskyldan saman í 7 daga shiva-vöku þar sem hins látna er minnst. Sagan gerist á þessum 7 dögum á æskuheimili söguhetjunnar. Aðrir leikendur eru
- Systirin Wendy. Falleg og greind. Gift bisnessmanninum Barry. Ekki mjög hamingjusamlega, en þau hafa það allavega gott.
- Bróðirinn Paul. Myndarlegur sigurvegari. Lenti í slysi í æsku sem hann kennir Judd um. Giftur Alice, fyrrum kærustu söguhetjunnar.
- Bróðirinn Philip. Töluvert yngri en hin systkinin. Villingur sem hefur einstakt lag á að kynnast konum
- Móðirin Hillary. Frjálsleg og hispurslaus, ólíkt eiginmanni sínum heitnum.
Sagan fjallar um okkar mann vinna úr sínum málum í faðmi fjölskyldunnar. Það kemur auðvitað í ljós að hinir hafa líka sinn djöful að draga. Söguþráður er ekki mikill. Við fylgjumst með hverju slysinu á fætur öðru. Þannig er bókin nokkuð farsakennd: Philip stendur uppi á þaki og hótar að fyrirfara sér. Greindarskerti nágranninn fær flogaveikiskast í kjölfar kynmaka. Litli frændinn gubbar yfir alla borðstofuna.
Maður hefur mikla samkennd með söguhetjunni. Heimurinn er á móti honum en okkar maður reynir að gera sitt besta. Sumt er þó ekki sérlega trúverðugt. Judd á að hafa legið í volæði vikum saman. Leigir kjallaraíbúð, hangir heima og borðar pítsur. Fitnar. Virkar sem sagt þunglyndur, en annars er ekkert í sögunni sem styður það. Hann er bara frekar hress og snöggur með tilsvör og virðist eiga nógan séns.
Hér komum við að stærsta galla bókarinnar. Hún er alltof lík fyrri bókinni, How to talk to a Widower. Söguhetjan er nákvæmlega eins persóna. Karlmaður í kringum þrítugt sem er í miklum mínus með sitt líf. Reynir að endurbyggja en heimurinn virðist á móti hinum. Viðkomandi lætur sem hann sé klunnalegur nálægt konum en á samt alltaf auðvelt með að kynnast þeim.
Ýmislegt fleira er líkt með bókunum. Systirin Wendy í þessari bók er mjög líka systurinni Clair í þeirri fyrri. Báðar eru óvenjulega fallegar og greindar. Svona "eldibrandar" sem eru ráðríkar gagnvart bróður sínum en virðast fastar í slæmu hjónabandi.
Niðurstaða: THIS IS WHERE I LEAVE YOU hefur mjög svipað skemmtanagildi og systurbókin HOW TO TALK TO A WIDOWER. Ég gæti alveg gefið henni fjórar stjörnur. Hinar endurnýttu hugmyndir trufla mig þó og lækka bókina niður í 3 stjörnur. Auðvitað ætlast maður til að fá "meira af því sama" þegar maður heldur tryggð við höfund sem manni líkar við, en fyrr má nú rota en dauðrota. En bókin er alveg þess virði að lesa. Verður spennandi að sjá myndina líka.
No comments:
Post a Comment