Thursday, September 5, 2013

Bók #38: How to talk to a widower

Ég tók bókina how to talk to a widower á bókasafninu. Eitthvað við kápuna höfðaði til mín. Sennilega Jack Daniels flaskann með hjartalaga sogrörinu. Sagan þekur 341 blaðsíðu og kom út árið 2007. Bókin er eftir Jonathan Tropper. Sá er háskólaprófessor í ensku og hefur skrifað nokkrar bækur.


Söguhetjan er Doug. Hann starfar sem rithöfundur en hefur litla fasta vinnu. Hans gæfa í lífinu er að kynnast henni Hailey. Hún er áratug eldri, fráskilin og móðir drengs á táningsaldri. Doug og Hailey giftast. Eftir hamingjurík ár deyr hún svo í slysi. 

Þegar við kynnumst Doug er ár liðið frá þeim atburði og hann er enn að jafna sig. Doug er aðeins 29 ára. Hann hangir heima, drekkur Jack Daniels og fer í mesta lagi í bíó. Einn. Um miðjan dag.



Í upphafi bókar fer þó ákveðin atburðarrás af stað og Doug byrjar að þróast sem persóna. Fyrrum stjúpsonur hans þarfnast aðstoðar sem og tvíburasystir hans. Bókin er þannig ákveðin þroskasaga, eða úrvinnslusaga. Doug vinnur úr málunum.

Söguhetjan er mjög bitur úr í heiminn. Doug þolir ekki að andlát eiginkonu sinnar hafi nokkur einustu jákvæð áhrif. Hvorki gagnvart honum sjálfum né öðrum. Þannig hefur hann skrifað nokkrar greinar um reynslu sína sem ekkill sem eru mjög vinsælar. Útgefandinn vill að hann skrifi bók og græði fullt af peningum. Doug hugnast það ekki. 

Doug á líka mjög erfitt með að fyrirgefa systur sinni og besta vini að hafa kynnst í útför Hailyar. Það gengur of langt.



Það er einhvern veginn mjög auðvelt að samsvara sér með Doug. Hann er í hlutverki góðlátlega lúsersins. Samt alltaf tilbúinn með fyndinn tilsvör. Stíllinn er mjög læsilegur og maður heldur áfram að fletta. Samt er varla hægt að tala um að það sé mikið plott í sögunni.

Höfundur minnir nokkuð á Nick Hornby, sem er mjög jákvætt. Þetta er svona strákabók. Að sumu leyti minnir þetta líka á bókina Kona fer til læknis og framhald hennar. Stundum finnst manni eins og höfundur sé að skrifa fyrir sjónvarp. Það eru víst þrjár aðrar sögu eftir hann í vinnslu sem kvikmyndir. Ég held að það væri auðvelt að ráða Jason Siegel í hlutverk Dougs og setja myndavél í gang.



Niðurstaða: Ég var mjög ánægður með bókina HOW TO TALK TO A WIDOWER. Ég hlakka til að lesa meira eftir Jonathan Tropper. Ég gef bókinni fjórar stjörnur.

No comments:

Post a Comment