Á bókasafninu rambaði ég á bókina COLD SPRING HARBOR. Ég leigði hana á grundvelli þess að höfundur skrifaði einnig bókina Revolutionary Road. Ég hef að vísu ekki lesið slíka bók en kvikmyndin með Leonardo Di Caprio og Kate Winslet er afar góð.
Höfundur er Richard Yates. Bókin er frekar stutt, 178 síður. Kápan fær mínusstig fyrir að nafn höfundar kemur ekki almennilega fyrir á forsíðunni. Að öðru leyti er myndin falleg og nokkuð lýsandi fyrir efni bókarinnar.
Bókin segir sögu Evans og gerist í kringum 1940 í Bandaríkjum. Hann var erfiður unglingur en kom sér þó á réttan kjöl, kynnist stúlku, giftist, eignast barn. Það kemur þó í ljós að þetta var slæm ráðstöfun. Ótímabær. Sambandið endist ekki. Í kjölfarið kynnist hann nýrri stúlku, Rachel, og við fylgjumst náið með þeirra sambandi.
Tengdamóðirinn er viss gerandi í þeirra sambandi. Hún stuðlar að því að þau flytja þrjú saman undir eitt þak. Eins og vænta má er þetta ekki frjór hamingju-jarðvegur fyrir ungt fólk. Rachel verður ólétt og við fylgjumst með þeirra lífi þróast. Evan er ekki sérlega lukkulegur í sínu verksmiðju-starfi. Rachel gerir sitt besta til að skapa jákvætt andrúmsloft á heimilinu. Það reynist þó erfitt með móður sína á staðnum. Helsta markmið þeirra gömlu er að leggja undir sig föður Evans sem býr í nágrenninu ásamt veikri eiginkonu.
Það er ekki beinilínis hægt að tala um mikinn söguþráð í þessari bók. Við fylgjumst með fólkinu þjást í gegnum hversdagsleikann og glíma við þá staðreynd að lífið veldur þeim vonbrigðum. Þetta er að mörgu leyti vel gert og mjög svipað þema og í Revolutionary Road. Bókin minnir einnig á áður lesna bók, Tigers in red Weather. Óánægt fólk um miðja tuttugustu öld á austurströnd Bandaríkjanna glímir við þrúgandi hversdagsleikann. Ég hafði ekki áttað mig á því hve frjór jarðvegur þetta er fyrir bókmenntir. Ég er allavega búinn að fá nóg.
No comments:
Post a Comment