Friday, September 27, 2013

Bók #41: TUESDAYS WITH MORRIE

Ég fékk bókina TUESDAYS WITH MORRIE lánaða hjá samkennara mínum. Bókin er stutt, 192 síður. Um er að ræða eins konar samtalsbók. Höfundur er Mitch Albom og fjallar bókin um tengsl hans við háskólaprófessorinn Morrie.


Morrie kenndi Mitch á sínum tíma og áttu þeir gott samband. Hittust gjarnan á þriðjudögum, spjölluðu um fræðin en ekki síður um lífið. Eftir útskrift fjaraði þeirra samband út. Höfundur reynir fyrir sér sem tónlistarmaður en finnur fjölina sína sem blaðamaður. 

Honum tekst að verða einhvers konar stjörnublaðamaður. Verður ríkur af stafinu, vinnur mikið, en er þó alltaf leitandi og vantar lífsfyllingu. Kvöld eitt sér hann viðtal í sjónvarpinu við Morrie gamla. Morrie þjáist af sjúkdómi Lou Gehrigs og er dauðvona. Morrie tekur sínum sjúkdómi af miklu æðruleysi. Vingjarnlegt fas hans og ljúfmennska snertir hjörtu áhorfenda. Mitch ákveður að heilsa upp á sinn gamla lærimeistara.

Morrie tekur vel á móti höfundi og fagnar mjög endurfundunum. Mitch hins vegar er sjálfsmeðvitaður og skammast sín fyrir að hafa ekki haft samband við hann fyrr. Þeir detta þó fljótt í sitt gamla form og ræða um lífið. Þeim verður að ráði að hittast hvern þriðjudag og fljótlega fæðist hugmyndin að bókinni. 



Morrie er mikill viskubrunnur og hver þriðjudagur hefur sitt þema: Ástin, hjónabandið, eftirsjá, dauðinn, fyrirgefning. Morrie talar stundum í tilvitnunum en setur annars oft ástand sitt í samhengi við mikilvægu hlutina í lífinu. Hann sóttist ekki eftir frama eða fé enda er hann ríkur af ástvinum sem vitja hans á dánarbeðinu. - Reyndar getur höfundur þess að sjúkrakostnaðurinn er stjarnfræðilegur og fyrirframgreiðsla vegna bókarinnar hjálpar til að greiða hann.

Höfundur fjallar um þá hluti sem betur mættu fara í hans eigin lífi og hvernig lífssýn Morries hefur fengið hann til að breyta um lífsstíl. Hann sér eftir að hafa drekkt sér í vinnu og týnt sér í lífsgæðakapphlaupinu. Fjallað er um hvernig hann nær tengslum við yngri bróður sinn á ný.

Heilsu Morries hrakar jafnt og þétt. Fyrst er hann nokkuð sprækur, baðar út öllum öngum þegar hann talar og raðar ofan í sig mat. Undir lokin liggur hann rúmfastur, getur varla talað eða kyngt. Þetta er óneitanlega átakanleg lesning og erfitt að fella ekki tár á síðustu blaðsíðunum.


Helsti galli bókarinnar er persóna höfundar. Hún er fyrirferðarmikil og fer nokkuð í taugarnar á mér. Hann lýsir sér sem frekar hrokafullum bjána, en viska Morries á að hafa temprandi áhrif á hann. Mér fannst þetta ekkert sérlega trúverðugt. Kannski er þó nauðsynlegt að hafa þess konar persónu í miðdepli svona bókar til að hún verði ekki samhengislítið safn tilvitnanna í deyjandi mann. Engu að síður fær maður þá tilfinningu að höfundur sé frekar ómerkilegur pappír sem stekkur á karma-vagninn með löndum sínum.

Niðurstaða: TUESDAYS WITH MORRIE er bók sem situr í manni en er þó ekki gallalaus. Höfundur skrifar of mikið um sjálfan sig og gerir ekki nógu mikið af því að setja hugleiðingar Morries í aðeins víðara samhengi. Ég gef bókinni 3 stjörnur en myndi samt mæla með henni við ýmsa. Það er spurning um að horfa á samnefnda kvikmynd.

No comments:

Post a Comment