Friday, May 17, 2013

Bók #19: SUMARHÚS MEÐ SUNDLAUG



Ég las bókina SUMARHÚS MEÐ SUNDLAUG eftir HERMAN KOCH á einni helgi. Umrædd bók kom út á íslensku á síðasta ári og var sumarsmellurinn 2012.

Umræddur Koch skrifaði einnig bókina KVÖLDVERÐURINN sem var vinsæl fyrir nokkrum árum. Aftan á kápunni er skjáskot af kápu KVÖLDVERÐARINS og tilvitnun í Kolbrúnu Bergþórsdóttur þar sem hún virðist vera að mæra bókina. Það er að segja KVÖLDVERÐINN. Óþolandi vinnubrögð. Ef að það besta sem hægt er að segja um bók er að ja, fyrri bók höfundar hafi verið býsna góð, þá er betra að sleppa því að segja nokkuð yfir höfuð.


Söguhetjan er heimilislæknirinn Marc sem er einhvers konar geðþekkur sósíópati. Í byrjun bókar er dramatísk sena þar sem kona ryðst inn á læknastofuna og ásakar lækninn um morð. Þá er spólað til baka og bókin er næstum öll endurlit.

Marc rekur vinsæla læknastofu. Hann sérhæfir sig nefnilega í að hlusta vinalega á sjúklingana, sem hann fyrirlítur samt flesta í raun. Hann er líka liðlegur að skrifa upp á örvandi lyf þar sem það á við. Síðast en ekki síst er hann alls ekkert dæmandi gagnvart hinum fjölmörgu alkahólistum sem hann sinnir. Þeir drekka bara hálfa flösku af hvítvíni með matnum, ekki meira! Marc tekur hlutverk sitt sem forvörður sérfræðinganna alvarlega.


Þessar lýsingar af læknastofunni og yfirlæti læknisins eru mjög fyndnar og skemmtilegasti hluti bókarinnar. Um leið er höfundur að stinga á kýlum. Áfengissýki, hlutverk heilbrigðiskerfisins og þörf mannsins til að bera grímu.

Hin eiginlega flétta spinnst í kringum einn nýjan sjúkling Marcs. Sá er leikari, einhvers konar Gérard Depardieu týpa. Marc ber virðingu fyrir honum, en fyrirlítur hann um leið. Þeir taka upp vinskap og fjölskyldur þeirra fara í frí saman, í sumarhús með sundlaug.

Marc og Gérard eru eins og andstæður. Gérard er barnslega einfaldur. Leikur sér með flugelda, lifir ljúfa lífinu, borðar duglega og drekkur mikið. Vill helst liggja allsber í sólbaði. Marc er hins vegar sjálfsmeðvitaður, vill alls ekki bera nekt sína. Allt sem hann gerir er útreiknað.


Framhjáhald, perraskapur, kynferðisbrot, traust. Um þetta fjallar bókin. Það sem stendur þó upp úr eru persónurnar. Siðlausi læknirinn, góðviljaði leikarinn. Kannski eru þeir ekki svo ólíkir.

Niðurstaða: SUMARHÚS MEÐ SUNDLAUG er skemmtilegt lesning. Maður vill helst klára hana í einum rykk. Sagan fjarar samt aðeins út í endann. Lýsingar á augum dótturinnar í fjölskyldualbúminu passa ekkert voðalega vel. Það dregur líka aðeins úr væginu hve formúlan er lík þeirri úr KVÖLDVERÐINUM. Ég gef bókinni 3,5 stjörnur.

No comments:

Post a Comment