Wednesday, May 22, 2013

Bók #20: THE POSITION

Tuttugasta bókin nefnist the Pos!tion og er eftir Meg Wolitzer. Ég greip þessa bók á bókasafninu fyrir rælni. Seinna komst ég að því að ég hef lesið aðra bók eftir þessa konu. Sú nefnist THE UNCOUPLING og var nokkuð áhugaverð. Í þeirri bók falla álög á lítinn bæ í BNA með þeim afleiðingum að konurnar fara í kynlífsverkfall. Þetta á að vera einhvers konar nútíma-Lysistrata. Sniðug hugmynd, en ekki nógu vel unnið úr efniviðnum og bókin varð frekar langregin.

Meg Wolitzer virðist vera þekkt fyrir bókina The Interestings. Um hana segir á Amazon og vitnað er í New York Times Book Review: 
"among the ranks of books like Jonathan Franzen’s Freedom and Jeffrey Eugenides The Marriage Plot." 
Þessi setning er móðgun. The Marriage Plot er ömurleg bók en Freedom er ein af bestu bókum sem ég hef lesið.



The Pos¡tion hefst á því að fjögur börn, systkini, á ýmsum aldri komast í bók úr hillu foreldra sinna. Sú bók inniheldur lýsingar á hinum ýmsu stellingum sem elskendur geta notað í ástarlífinu. Bókin er auk þess myndskreitt. Höfundarnir og fyrirsætur myndanna reynast vera foreldrar systkinanna.

Þessi atburður og "frægð" foreldranna tengd útgáfu þessa rits hefur mikil áhrif á systkinin. Bókin segir sögu þeirra á fullorðinsárum. Við höfum samkynhneigða manninn, þunglynda manninn, óreglu-konuna og félagsfælnu konuna.



Við fylgjumst mest með þunglynda manninum. Hann ferðast til Flórída þar sem faðir hans býr. Markmiðið er að sannfæra hann um að leggja blessun sína yfir endurútgáfu kynlífs-ritsins, nú 30 árum síðar. Hjónun skyldu sem sagt fljótlega eftir útkomu bókarinnar. Í Flórída hættir þunglyndi maðurinn að taka þunglyndislyfin sín og líf hans tekur nýja stefnu..

Það er voðalega lítið meira um "plott" bókarinnar að segja. Við fylgjumst með þessu fólki gera sitt besta á afmörkuðum tíma í þess lífi. Þetta getur alveg verið ágætt ef höfundur er frjór og hefur frá nógu að segja. En einhvern veginn er þetta ekki nógu eftirminnilegt hér. Ég stend mig að því að fletta upp í bókinni til að rifja upp hvað verður um persónurnar, en það verður eiginlega ekkert um þær. Lífið heldur bara áfram.

Sem er ágætt, þannig. Samlíkingin við Jonathan Franzen er ekkert galin. Þetta er svona fjölskyldu-drama. Það vantar bara aðeins meira drama í þetta. Hún Meg kemst bara ekki með tærnar þar sem Franzen hefur hælana



Niðurstaða: The Pos!tion er ekki leiðinleg bók. Hún er auðveld aflestar, manni leiðist ekki. Þetta er eins og að horfa á þátt úr 19.seríu af The Simpsons. Meðalmennska. Ég gef þessu tvær stjörnur. 
-Ég er að hugsa um að lesa ekki fleiri bækur eftir Meg Wolitzer.

No comments:

Post a Comment