Friday, May 24, 2013

Bók #21: BREKKUKOTSANNÁLL

Ég fékk bókina BREKKUKOTSANNÁLL í afmælisgjöf. Umrædd bók er eftir Halldór Laxness og kom út árið 1957. Af öðrum verkum skáldsins hef ég eingöngu lesið Íslandsklukkuna. Tvisvar hef ég byrjað á INNANSVEITARKRÓNÍKU en ekki komist mjög langt.


Brekkukotsannáll segir frá Álfgrími, ungum manni, sem elst upp hjá "afa og ömmu" í Brekkukoti. Það er bær sem stendur norðan megin við gamla kirkjugarðinn. Sagan er að einhverju leyti saga Halldórs sjálfs. Brekkukot hét í raun Melkot og þar ólst móðir hans upp.



Lengi framan af er erfitt að átta sig á því hvort bókin hafi eiginlegt plott. Hver kafli er eins og bloggfærsla. Álfgrímur þvælist niður í Sogamýri til að sækja hann Grána hest. Álfgrímur er óþekkur og fær smá skömm í hattinn frá ömmu. Í Brekkukoti býr alls kyns fólk og hver gestur fær sinn kafla. Ég átti erfitt með að greina í sundur Kaftein Hogensen, eftirlitsmanninn og Runólf Jónsson.


Fyrst fræðumst við aðeins um uppruna Álfgríms. Hann er sonur konu sem var á leið í vesturheim, ól drenginn í Brekkukoti og skildi þar eftir. Afi og amma eru sem sagt ekki skyld honum, né heldur eru þau raunar hjón. Framan af kynnumst við mannlífinu í Brekkukoti. Afi veiðir fisk á morgnanna og selur í bænum. Alltaf á sama verði, hagfræðingum til armæðu. Við fræðumst svo um hinar ýmsu persónur, og klukku.


Sagan sjálf snýst síðan í kringum óskabarn þjóðarinnar, nágranna okkar manns, söngvarann heimsþekkta, Garðar Hólm. Það er ómögulegt annað en að sjá fyrir sér Garðar Thor Cortes. Garðar þessi Hólm mun sem sagt hafa brotist til frægðar og komið fram bæði í Ástralíu og Japan, eða svo segir "Foldin" allavega.

Okkar maður er áhugamaður um tónlist og lítur upp til Garðars Hólms. Þeir eiga enda margt sameiginlegt. Þegar Garðar lætur svo lítið að koma í heimsókn til Íslands fer reyndar lítið fyrir söng. 


Garðar þessi er mjög tragískur og skemmtilegur karakter. Manni finnst hann auðveldlega eiga mikið erindi við nútímann. Garðari er mikið haldið á lofti á Íslandi, einkum í blöðunum. Innistæðan fyrir hólinu er þó líklega ekki mikil. Garðar er þannig sigurvegari út á við, en ekki inn á við.

Áhrifin og tengingin við hinn unga Álfgrím er einnig mikilvæg, enda fyrirstillir hann hina ungu íslensku kynslóð. sem mun kannski sigra heiminn á nýjan hátt. Mun Álfgrímur þiggja fé af burgeisinum eða fetar hann sína eigin slóð?



Niðurstaða: Ég var afar lengi að lesa BREKKUKOTSANNÁL. Rúmar tvær vikur. Maður ræður reyndar varla við meiri hraða, þá missir maður af gullkornunum. Á hinn bóginn var bókin ekki mjög grípandi, heldur afar svæfandi. "Lýsingu hvaða furðufugls sofnaði ég aftur út frá í gær?" - spurði ég mig.

Í heildina er þetta góð lesning. Þetta er bók sem maður sér fyrir sér að lesa aftur. Ekki eins stressaður á söguþræði. Ég gef BREKKUKOTSANNÁL þrjár stjörnur.

No comments:

Post a Comment