Tuesday, May 28, 2013

Bók #22: WHATEVER YOU LOVE

Ég greip bókina WHATEVER YOU LOVE frekar handahófskennt úr hillu á bókasafninu. Slík bók er eftir Louise Doughty og kom út árið 2010. Höfundinn hef ég aldrei heyrt talað um. Bókin var tilnefnd til COSTA BOOK AWARDS 2010, eins og kápan bendir  frekar frekjulega á.


Söguhetjan heitir Laura. Hún er hjúkrunarfræðingur í Bretlandi. Strax í byrjun er sagt frá andláti 9 ára dóttur hennar. Bókin skiptist síðan nokkurn veginn í tvennt. Annars vegar er sagt frá sorg móður og fjölskyldu í kjölfarið, hins vegar er saga fjölskyldunnar rakin fram að þessum atburði.

Sú saga er ágæt. Laura verður ástfangin af David. Sá er kvennabósi. Það tekur þau nokkur ár að ná saman. Að lokum biður David Lauru að giftast sér við bjargbrún. Þó ekki fyrr en hann heldur henni yfir brúninni og lætur sem hann ætli að steypa henni fram af. Þetta er besta sena bókarinnar og skilar vel hve tilfinningalega ruglaður þessi maður á að vera. Sem og hve blind og ástfangin Laura er.

 


Þau eignast dótturina Betty en hann David er ekki í rónni. Hann fer fljótlega að halda fram hjá og stofnar að lokum nýja fjölskyldu með Chloe. 

Þegar Betty er orðin 9 ára fær hún að labba ein heim úr skólanum með vinkonu sinni. Hún verður fyrir bíl á leiðinni ásamt vinkonu sinni. Við fylgjumst svo með viðbrögðum Lauru við þessu. Hún er auðvitað í rúst, en David virðist höndla þetta ögn betur.

Laura vill hefna sín. Því er líst nokkuð vel í bókinni hvernig konan missir vitið.

Það verður að teljast sögunni til hróss að hún er ekki mjög fyrirsjáanleg. Samt er það þannig að það situr ekkert mikið eftir. Höfundur er að reyna að skrifa einhvers konar sálfræðitrylli. Laura fær dularfull bréf. Skyldi Chloe vera að senda þau? Þar sem hún gerir ráð fyrir því, er of augljóst að svo er ekki, svo spennan er algjörlega farin fyrir lesandann.


Hversu langt getur maður gengið við þessar aðstæður? Þessari spurningu reynir höfundur að svara. Vill maður drepa gerandann, eða er það ekki nóg? Hvað með að steypa frænda hans fram af sömu bjargbrún og fyrrverandi eiginmaður manns bar upp bónorðið á?

Niðurstaða: WHATEVER YOU LOVE er ágæt fyrir það sem hún er. Móðir glímir við dótturmissi. Maður vill synda í tilfinningum. Það gerist samt ekki. Í staðinn er þetta meira eins og spennusaga. Ég var ekki lengi að lesa bókina, maður vill vita hvað gerist næst.  Það stendur samt ekki mikið upp úr. Ég get ekki mælt með þessari bók. Tvær stjörnur.

No comments:

Post a Comment