Friday, September 27, 2013

Bók #41: TUESDAYS WITH MORRIE

Ég fékk bókina TUESDAYS WITH MORRIE lánaða hjá samkennara mínum. Bókin er stutt, 192 síður. Um er að ræða eins konar samtalsbók. Höfundur er Mitch Albom og fjallar bókin um tengsl hans við háskólaprófessorinn Morrie.


Morrie kenndi Mitch á sínum tíma og áttu þeir gott samband. Hittust gjarnan á þriðjudögum, spjölluðu um fræðin en ekki síður um lífið. Eftir útskrift fjaraði þeirra samband út. Höfundur reynir fyrir sér sem tónlistarmaður en finnur fjölina sína sem blaðamaður. 

Honum tekst að verða einhvers konar stjörnublaðamaður. Verður ríkur af stafinu, vinnur mikið, en er þó alltaf leitandi og vantar lífsfyllingu. Kvöld eitt sér hann viðtal í sjónvarpinu við Morrie gamla. Morrie þjáist af sjúkdómi Lou Gehrigs og er dauðvona. Morrie tekur sínum sjúkdómi af miklu æðruleysi. Vingjarnlegt fas hans og ljúfmennska snertir hjörtu áhorfenda. Mitch ákveður að heilsa upp á sinn gamla lærimeistara.

Morrie tekur vel á móti höfundi og fagnar mjög endurfundunum. Mitch hins vegar er sjálfsmeðvitaður og skammast sín fyrir að hafa ekki haft samband við hann fyrr. Þeir detta þó fljótt í sitt gamla form og ræða um lífið. Þeim verður að ráði að hittast hvern þriðjudag og fljótlega fæðist hugmyndin að bókinni. 



Morrie er mikill viskubrunnur og hver þriðjudagur hefur sitt þema: Ástin, hjónabandið, eftirsjá, dauðinn, fyrirgefning. Morrie talar stundum í tilvitnunum en setur annars oft ástand sitt í samhengi við mikilvægu hlutina í lífinu. Hann sóttist ekki eftir frama eða fé enda er hann ríkur af ástvinum sem vitja hans á dánarbeðinu. - Reyndar getur höfundur þess að sjúkrakostnaðurinn er stjarnfræðilegur og fyrirframgreiðsla vegna bókarinnar hjálpar til að greiða hann.

Höfundur fjallar um þá hluti sem betur mættu fara í hans eigin lífi og hvernig lífssýn Morries hefur fengið hann til að breyta um lífsstíl. Hann sér eftir að hafa drekkt sér í vinnu og týnt sér í lífsgæðakapphlaupinu. Fjallað er um hvernig hann nær tengslum við yngri bróður sinn á ný.

Heilsu Morries hrakar jafnt og þétt. Fyrst er hann nokkuð sprækur, baðar út öllum öngum þegar hann talar og raðar ofan í sig mat. Undir lokin liggur hann rúmfastur, getur varla talað eða kyngt. Þetta er óneitanlega átakanleg lesning og erfitt að fella ekki tár á síðustu blaðsíðunum.


Helsti galli bókarinnar er persóna höfundar. Hún er fyrirferðarmikil og fer nokkuð í taugarnar á mér. Hann lýsir sér sem frekar hrokafullum bjána, en viska Morries á að hafa temprandi áhrif á hann. Mér fannst þetta ekkert sérlega trúverðugt. Kannski er þó nauðsynlegt að hafa þess konar persónu í miðdepli svona bókar til að hún verði ekki samhengislítið safn tilvitnanna í deyjandi mann. Engu að síður fær maður þá tilfinningu að höfundur sé frekar ómerkilegur pappír sem stekkur á karma-vagninn með löndum sínum.

Niðurstaða: TUESDAYS WITH MORRIE er bók sem situr í manni en er þó ekki gallalaus. Höfundur skrifar of mikið um sjálfan sig og gerir ekki nógu mikið af því að setja hugleiðingar Morries í aðeins víðara samhengi. Ég gef bókinni 3 stjörnur en myndi samt mæla með henni við ýmsa. Það er spurning um að horfa á samnefnda kvikmynd.

Monday, September 23, 2013

Bók #40: THIS IS WHERE I LEAVE YOU

Í kjölfar ánægju minnar með bókina HOW TO TALK TO A WIDOWER ákvað ég að taka aðra bók eftir sama höfund á bókasafninu. Bókin kom út árið 2010 og telur 338 síður.


Forsíða kápunnar er ágæt í einfaldleika sínum. Litríkir bókstafir ofan á teikningu af húsi sem er miðpunktur sögunnar. Bakhliðin fær mínusstig. Hún er þakin tilvitnunum með jákvæðum umsögnum um verk höfundar. Þetta er alvarleg synd útgefandans. Bakhliðin á að gefa hugmynd um efni sögunnar og/eða segja frá höfundi. Inni í bókinni er svo vísað í heimildir. Ekki batnar það því ekkert er sagt um nákvæmlega hvaða verk fékk eiginlega þessa frábæru ummæli sem slitin eru úr samhengi. Fáránlegt.

Sagan fjallar um Judd og fjölskyldu hans. Judd er karlmaður um þrítugt sem lendir í alls konar ógæfu á sama tíma. Faðir hans deyr, konan heldur framhjá honum og hann missir vinnuna. Það var auðvitað yfirmaðurinn sem var að sofa hjá konunni.



Í kjölfar andláts föðurins safnast fjölskyldan saman í 7 daga shiva-vöku þar sem hins látna er minnst. Sagan gerist á þessum 7 dögum á æskuheimili söguhetjunnar. Aðrir leikendur eru
  • Systirin Wendy. Falleg og greind. Gift bisnessmanninum Barry. Ekki mjög hamingjusamlega, en þau hafa það allavega gott.
  • Bróðirinn Paul. Myndarlegur sigurvegari. Lenti í slysi í æsku sem hann kennir Judd um. Giftur Alice, fyrrum kærustu söguhetjunnar. 
  • Bróðirinn Philip. Töluvert yngri en hin systkinin. Villingur sem hefur einstakt lag á að kynnast konum
  • Móðirin Hillary. Frjálsleg og hispurslaus, ólíkt eiginmanni sínum heitnum.


Sagan fjallar um okkar mann vinna úr sínum málum í faðmi fjölskyldunnar. Það kemur auðvitað í ljós að hinir hafa líka sinn djöful að draga. Söguþráður er ekki mikill. Við fylgjumst með hverju slysinu á fætur öðru. Þannig er bókin nokkuð farsakennd: Philip stendur uppi á þaki og hótar að fyrirfara sér. Greindarskerti nágranninn fær flogaveikiskast í kjölfar kynmaka. Litli frændinn gubbar yfir alla borðstofuna.

Maður hefur mikla samkennd með söguhetjunni. Heimurinn er á móti honum en okkar maður reynir að gera sitt besta. Sumt er þó ekki sérlega trúverðugt. Judd á að hafa legið í volæði vikum saman. Leigir kjallaraíbúð, hangir heima og borðar pítsur. Fitnar. Virkar sem sagt þunglyndur, en annars er ekkert í sögunni sem styður það. Hann er bara frekar hress og snöggur með tilsvör og virðist eiga nógan séns.

Hér komum við að stærsta galla bókarinnar. Hún er alltof lík fyrri bókinni, How to talk to a Widower. Söguhetjan er nákvæmlega eins persóna. Karlmaður í kringum þrítugt sem er í miklum mínus með sitt líf. Reynir að endurbyggja en heimurinn virðist á móti hinum. Viðkomandi lætur sem hann sé klunnalegur nálægt konum en á samt alltaf auðvelt með að kynnast þeim.


Ýmislegt fleira er líkt með bókunum. Systirin Wendy í þessari bók er mjög líka systurinni Clair í þeirri fyrri. Báðar eru óvenjulega fallegar og greindar. Svona "eldibrandar" sem eru ráðríkar gagnvart bróður sínum en virðast fastar í slæmu hjónabandi.

Niðurstaða:  THIS IS WHERE I LEAVE YOU hefur mjög svipað skemmtanagildi og systurbókin HOW TO TALK TO A WIDOWER. Ég gæti alveg gefið henni fjórar stjörnur. Hinar endurnýttu hugmyndir trufla mig þó og lækka bókina niður í 3 stjörnur. Auðvitað ætlast maður til að fá "meira af því sama" þegar maður heldur tryggð við höfund sem manni líkar við, en fyrr má nú rota en dauðrota. En bókin er alveg þess virði að lesa. Verður spennandi að sjá myndina líka.

Friday, September 13, 2013

Bók #39: COLD SPRING HARBOR

Á bókasafninu rambaði ég á bókina COLD SPRING HARBOR. Ég leigði hana á grundvelli þess að höfundur skrifaði einnig bókina Revolutionary Road. Ég hef að vísu ekki lesið slíka bók en kvikmyndin með Leonardo Di Caprio og Kate Winslet er afar góð. 


Höfundur er Richard Yates. Bókin er frekar stutt, 178 síður. Kápan fær mínusstig fyrir að nafn höfundar kemur ekki almennilega fyrir á forsíðunni. Að öðru leyti er myndin falleg og nokkuð lýsandi fyrir efni bókarinnar.

Bókin segir sögu Evans og gerist í kringum 1940 í Bandaríkjum. Hann var erfiður unglingur en kom sér þó á réttan kjöl, kynnist stúlku, giftist, eignast barn. Það kemur þó í ljós að þetta var slæm ráðstöfun. Ótímabær. Sambandið endist ekki. Í kjölfarið kynnist hann nýrri stúlku, Rachel, og við fylgjumst náið með þeirra sambandi.


Tengdamóðirinn er viss gerandi í þeirra sambandi. Hún stuðlar að því að þau flytja þrjú saman undir eitt þak. Eins og vænta má er þetta ekki frjór hamingju-jarðvegur fyrir ungt fólk. Rachel verður ólétt og við fylgjumst með þeirra lífi þróast. Evan er ekki sérlega lukkulegur í sínu verksmiðju-starfi. Rachel gerir sitt besta til að skapa jákvætt andrúmsloft á heimilinu. Það reynist þó erfitt með móður sína á staðnum. Helsta markmið þeirra gömlu er að leggja undir sig föður Evans sem býr í nágrenninu ásamt veikri eiginkonu.


Það er ekki beinilínis hægt að tala um mikinn söguþráð í þessari bók. Við fylgjumst með fólkinu þjást í gegnum hversdagsleikann og glíma við þá staðreynd að lífið veldur þeim vonbrigðum. Þetta er að mörgu leyti vel gert og mjög svipað þema og í Revolutionary Road. Bókin minnir einnig á áður lesna bók, Tigers in red Weather. Óánægt fólk um miðja tuttugustu öld á austurströnd Bandaríkjanna glímir við þrúgandi hversdagsleikann.  Ég hafði ekki áttað mig á því hve frjór jarðvegur þetta er fyrir bókmenntir. Ég er allavega búinn að fá nóg.


Niðurstaða: COLD SPRING HARBOR er ágæt, en ekkert sérlega eftirminnileg eða frumleg. Ég gef henni 2 stjörnur.

Thursday, September 5, 2013

Bók #38: How to talk to a widower

Ég tók bókina how to talk to a widower á bókasafninu. Eitthvað við kápuna höfðaði til mín. Sennilega Jack Daniels flaskann með hjartalaga sogrörinu. Sagan þekur 341 blaðsíðu og kom út árið 2007. Bókin er eftir Jonathan Tropper. Sá er háskólaprófessor í ensku og hefur skrifað nokkrar bækur.


Söguhetjan er Doug. Hann starfar sem rithöfundur en hefur litla fasta vinnu. Hans gæfa í lífinu er að kynnast henni Hailey. Hún er áratug eldri, fráskilin og móðir drengs á táningsaldri. Doug og Hailey giftast. Eftir hamingjurík ár deyr hún svo í slysi. 

Þegar við kynnumst Doug er ár liðið frá þeim atburði og hann er enn að jafna sig. Doug er aðeins 29 ára. Hann hangir heima, drekkur Jack Daniels og fer í mesta lagi í bíó. Einn. Um miðjan dag.



Í upphafi bókar fer þó ákveðin atburðarrás af stað og Doug byrjar að þróast sem persóna. Fyrrum stjúpsonur hans þarfnast aðstoðar sem og tvíburasystir hans. Bókin er þannig ákveðin þroskasaga, eða úrvinnslusaga. Doug vinnur úr málunum.

Söguhetjan er mjög bitur úr í heiminn. Doug þolir ekki að andlát eiginkonu sinnar hafi nokkur einustu jákvæð áhrif. Hvorki gagnvart honum sjálfum né öðrum. Þannig hefur hann skrifað nokkrar greinar um reynslu sína sem ekkill sem eru mjög vinsælar. Útgefandinn vill að hann skrifi bók og græði fullt af peningum. Doug hugnast það ekki. 

Doug á líka mjög erfitt með að fyrirgefa systur sinni og besta vini að hafa kynnst í útför Hailyar. Það gengur of langt.



Það er einhvern veginn mjög auðvelt að samsvara sér með Doug. Hann er í hlutverki góðlátlega lúsersins. Samt alltaf tilbúinn með fyndinn tilsvör. Stíllinn er mjög læsilegur og maður heldur áfram að fletta. Samt er varla hægt að tala um að það sé mikið plott í sögunni.

Höfundur minnir nokkuð á Nick Hornby, sem er mjög jákvætt. Þetta er svona strákabók. Að sumu leyti minnir þetta líka á bókina Kona fer til læknis og framhald hennar. Stundum finnst manni eins og höfundur sé að skrifa fyrir sjónvarp. Það eru víst þrjár aðrar sögu eftir hann í vinnslu sem kvikmyndir. Ég held að það væri auðvelt að ráða Jason Siegel í hlutverk Dougs og setja myndavél í gang.



Niðurstaða: Ég var mjög ánægður með bókina HOW TO TALK TO A WIDOWER. Ég hlakka til að lesa meira eftir Jonathan Tropper. Ég gef bókinni fjórar stjörnur.