Mér áskotnaðist bókin THE RACKETEER eftir John Grisham og las hana á nokkrum kvöldum. Sagan er 386 síður og kom út árið 2012. Grisham hefur skrifað fjölmargar bækur. Kvikmyndir hafa verið gerðar eftir mörgum þeirra. Pelican Brief, The Firm, A Time to Kill og fleiri. Þetta efni er frá tíunda áratugnum. Bækur Grishams á 21.öldinni eru ekki eins kunnuglegar.
THE RACKETEER segir sögu lögmannsins Malcolm Bannister. Sá situr í fangelsi og hefur afplánað fimm ár af tíu. Hann var dæmdur sekur fyrir peningaþvætti en er að sjálfsögðu saklaus. Malcolm starfaði á lítilli stofu í smábæ. Það fór lítið fyrir honum og hann hefði seint orðið ríkur á störfum sínum. Hann var giftur konu og á 6 ára strák. Hún skilur þó við hann fljótlega eftir að refsivistin hefst.
Malcolmi er farið að leiðast þófið í fangelsinu og er kominn með plan um hvernig sleppa skal út. FBI er nefnilega að leita að manni sem myrti dómara. Malcolm einn veit hver það er og hvar hann er að finna. Honum tekst að semja um sakaruppgjöf fyrir þessar upplýsingar. Planið gengur eftir og Malcolm sleppur út. Fær meira að segja að fara í vitnavernd.
Á þessum tímapunkti er svona þriðjungur af bókinni búinn og hún skiptir þá algjörlega um gír. Malcolm fer að búa til heimildarmynd um náunga sem lesandinn botnar lítið í hver er eða hvað er í gangi. Ekkert er útskýrt varðandi plott Malcolms. Maður flettir til baka og reynir að rifja upp en nei, þessi persóna var aldrei kynnt til leiks.
Þessi flétta dregst mjög á langinn og ég var alvarlega að íhuga að gefast upp. Það kemur þó fljótlega í ljós að það er miklu dýpra á plotti Malcolms en virðist í fyrstu. Malcolm er ekki allur þar sem hann er séður og er greinilega óáreiðanlegur sögumaður. Þetta er vissulega mjög áhugavert. Enda stendur á kápunni: HE WAS BETRAYED BY THE FBI. NOW HE WANTS REVENGE.
Söguhetjan er sem sagt að hefna sín grimmilega á FBI. Malcolm dregur hverja kanínuna á fætur annarri upp úr hattinum og bókin endar næstum bókstaflega á því að hann ríður syngjandi inn í sólsetrið vellauðugur með gullfallega konu upp á arminn.
Fyrir utan erfiða miðju leiðist manni ekki við lestur bókarinnar. Margt virkar þó afskaplega ótrúlega. Malcolm er þvílíkur sigurvegari og leikur á alla sem á vegi hans verða. Þetta er sérstaklega ótrúverðugt í ljósi þess hvað hann á að hafa verið "venjulegur" fyrir fangelsisvist sína.
Tengsl hans við fjölskyldu sína eru líka skrítin. Hann á að hafa verið góður faðir. Hins vegar er varla minnst á þennan 6 ára son hans eftir sakaruppgjöfina.
Niðurstaða: THE RACKETEER er ágætis spennusaga. Höfundur heldur þó ekki nógu vel á spöðunum. Það á víst að gera kvikmynd eftir bókinni. Það gæti alveg orðið vel heppnað með réttum breytingum á handritinu. Ég gef bókinni 2 stjörnur.
No comments:
Post a Comment