Sunday, December 29, 2013

Bók #51: SIGRÚN OG FRIÐGEIR

Jólasveinnin kom með bókina SIGRÚN OG FRIÐGEIR. Hún er eftir Sigrúnu Pálsdóttur og sagan sjálf þekur 183 síður en 228 síður með tilvísunum, skrám og heimildum.

Kápan sjálf er mjög flott og tilgerðarlaus. Myndin sýnir hjónin á siglingu og passar mjög vel við efni bókarinnar. Eini gallinn er að gyllti titillinn passar illa við hvítan bakgrunninn og er ekki sérlega læsilegur.


Bókin segir sögu hjónanna Sigrúnar og Friðgeirs. Þau eru fædd á öðrum áratug síðustu aldar. Bókin hefur undirtitilinn FERÐASAGA og fókusinn er á dvöl þeirra á Bandaríkjunum á stríðsárunum. Þar stunda þau bæði læknanám.

Í byrjun fáum við smá innsýn í bernsku þeirra beggja. Þó fáum við að vita meira um Sigrúnu, væntanlega vegna ítarlegra safns heimilda um hana. Alls staðar eru tilvísanir og höfundur nálgast söguna með nákvæmum vinnubrögðum fræðimannsins. Þetta verður bæði styrkleiki og veikleiki bókarinnar. 

Það er að mörgu leyti mjög jákvætt að textinn sé knappur og skýr. Oft langar lesandann þó að vita meira. Maður hefur afskaplega litla tilfinningu fyrir Friðgeiri sem persónu. Saga hans frá fæðingu til hjónabands nær frá bls. 26 til 33 og þar á milli eru líka sjö stórar ljósmyndir.

Sums staðar er manni þó drekkt í staðreyndum:
Í barnæsku Sigrúnar Briem leit samfélagið við Tjarnargötuna svo út: nyrst í númer 18 bjó Sigrún Bjarnason, móðursystir Sigrúnar og ekkja eftir Björn augnlækni, ásamt síðari manni sínum, Þorleifi H. Bjarnasyni, málfræðingi og kennara við Menntaskólann. Sigrún og Þorleifur áttu tvo syni en dóttirin Karítas var Björns augnlæknis. Í húsinu bjó líka móðuramman Karítas Markúsdóttir, ekkja séra Ísleifs Gíslasonar í Arnarbæli. Sigrún Bjarnason var stórbrotinn persónuleiki og glæsileg kona, vægast sagt, sem gerði við regnhlífar og bjó til konfekt sem var ólíkt öðrum sætindum sem Reykvíkingar höfðu þá smakkað. Í númer 22 voru svo Klemens Jónsson og seinni kona hans, Anna Schiöth, ásamt syninum Agnari Klemens. 
..og svo framvegis í hálfa blaðsíðu enn. Maður fær aðeins á tilfinninguna við lesturinn að þessu efni væru gerð betri skil í sögulegri skáldsögu.

 

Við fylgjumst með þeim hjónum ferðast til Bandaríkjanna og takast á við lífið þar. Ekkert er fast í hendi en þau leita víða og fá loksins stöðu við sjúkrahús í New York, síðar í Winnipeg, aftur New York, Nashville og loks Boston þar sem Friðgeir lýkur doktorsprófi. Þau eignast tvö börn úti en ekkert annað kemur til greina en að halda heim til Íslands þegar náminu er lokið. Það má skilja það sem svo að Sigrúnu líði ekki sem best í Bandaríkjunum og vilji gjarnan skipta um umhverfi.

Þau fara þannig heim með alla fjölskylduna haustið 1944. Þetta er erfið ákvörðun þar sem siglingar yfir Atlantshafið eru varasamar í miðju stríðinu. Besti kafli bókarinnar er án vafa sá síðasti með ísköldum og nákvæmum lýsingum á þessu ferðalagi. Höfundur setur aðstæður í samhengi fyrir lesandann á þægilegan hátt með því að lýsa gangi stríðsins og aðstæðum kafbátahermanna.


Niðurstaða: SIGRÚN OG FRIÐGEIR segir mjög áhugaverða sögu á mjög læsilegan og aðgengilegan hátt. Sagan er stutt. Þetta er bæði kostur og galli. Eftir stendur sú tilfinning að maður þekki persónurnar ekki sérlega vel. Hins vegar hefði hin hefðbundna þriggja binda íslenska æfisaga ekki heldur verið góður kostur. Ég gef bókinni 3,5 stjörnur.

No comments:

Post a Comment