Ég fékk VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM á Íþöku. Bókin er erftir Halldór Armand Ásgeirsson. Þetta er hans fyrsta bók eftir því sem ég kemst næst. Ég segi bók, því þetta er ekki eiginleg skáldsaga heldur tvær smásögur. Þetta er þó ekki vel ljóst fyrir grunlausum bókaunnendum.
Á kápunni stendur VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM en á titilsíðunni VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM OG HJARTAÐ ER JÓJÓ. Þar kemst upp um glæp útgefandans. Fyrri sagan fjallar sem sagt um Vince Vaughn og nær frá síðu 7 til 78. Síðari sagan, HJARTAÐ ER JÓJÓ spannar síður 81 til 149.
Nú er það mögulega svo að smásögur seljast ekki jafnvel og skáldsögur. Engu að síður er það mjög skrítin ákvörðun að spyrða þessum tveimur sögum saman og selja undir merkjum annarar. Lesandinn er blekktur. Á bakhliðinni er gerð tilraun til að samþætta sögurnar og láta eins og bókin hafi eitt þema sem er líka frekar langsótt og nokkuð augljóst að höfundur hefur ekki hugsað það þannig.
Kápan sjálf er mjög fín. Notalegur þrívíddar-effekt á forsíðunni og frábær ljósmynd af höfundi á bakhlið.
Saga 1: Ég giskaði á að titillinn "Vince Vaughn í skýjunum" benti til dæmigerðrar fyrirsagnar af slúðurmiðli á vefnum. Sagan fjallar þó bókstaflega um þetta. Sara er stelpa sem vinnur í Laugardalslauginni um sumar. Dag einn sér hún magnaða skýjamyndun sem hún tekur upp á símann sinn. Þar virðist sjálft mini-selebbið Vince Vaughn gægjast í gegnum skýin.
Sara setur myndbandið á vefinn og upptakan slær í gegn. Hún birtist í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og Sara verður "fræg".
Þessi saga er nokkuð lengi í gang. Nokkru púðri er eytt í myndrænar lýsingar af sundlauginni og andrúmsloftinu þar. Lesandinn dettur þannig ekki beint inn í söguna. Fléttan sjálf er hins vegar mjög vel unnin og frásögnin afar góð og kímin.
Mér finnst höfundur ná að vinna mjög vel með þetta fyrirbæri sem stundarfrægð er. Fjölmiðlasirkúsinn í kringum mjög ómerkilega hluti. Jafnvel þegar hinn frægi einstaklingur er kannski ekki mjög frægur. Vince Vaughn hlýtur allavega að hafa verið í skýjunum með þetta.
Endir þessa þáttar er líka flottur. Sagan fjarar bara út og lífið heldur áfram, rétt eins og stundarfrægðin.
Niðurstaða 1: Smásagan VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM er mjög vel unnin. Ég gef henni fjórar stjörnur.
Saga 2: "Hjartað er jójó" fjallar um lottókynninn Þóri. Hann er ekkert sérstaklega ánægður með sinn stað í lífinu. Nótt eina dreymir hann kvæði. Hann skrifar það niður strax þegar hann vaknar. Þórir fær þá flugu í höfuðið að kvæðið hljóti að vera eftir eitt af þjóðskáldum Íslendinga sem hafi vitjað hans í draumi.
Þórir sendir fjölmiðlum upplýsingar um þessi merkilegu tíðindi. Furðulegt nokk sýna þeir því þó engan áhuga. Næsti leikur Þóris er þá að flytja kvæðið í heild sinni í Lottóinu. Þar vekur hann auðvitað athygli en honum finnst þó aðalatriðið, kvæðið sjálft, ekki fá næga virðingu.
Þema þessarar sögu er nokkuð gott. Aðalpersónan virðist búa í sínum lokaða heimi og fókuserar eingöngu á þetta eina atriði. Sagan minnir að því leyti nokkuð á leikrit.
Sagan endar á mjög óvæntan og gróteskan hátt sem er frekar erfitt að botna í. Höfundi tekst ekki að binda slaufu á söguna og klára hana á sannfærandi hátt.
Þó er margt mjög fyndið í henni. Hinn hrifnæmi Þórir eldri með sitt klósett í stofunni á mjög góða innkomu.
Niðurstaða 2: Smásagan HJARTAÐ ER JÓJÓ er ekki eins vel unnin og fyrri sagan þó hugmyndin sé fín. Ég gef henni 2,5 stjörnur.
No comments:
Post a Comment