Ég fékk bókina ÞORSTI á Íþöku. Höfundur er Esther Gerritsen. Þessi bók telst því með í hollensku nýbylgjunni hér á landi. Við Íslendingar elskum hollenskar bókmenntir. Sporgöngumaður hollenska landnámsins er auðvitað Herman Koch.
Höfundur hefur skrifað nokkrar bækur en aðrar virðast ekki hafa komið út á íslensku. Reyndar finnst ekkert yfirhöfuð um bókina eða höfundinn á íslenskum síðum. Kápan vísar á forlagid.is sem afneitar tilvist þessarar bókar. Furðulegt. ÞORSTI telur 206 síður.
Söguhetjan er ung stúlka, hún Coco. Sú er frekar stefnulaus í lífinu. Lærir rússnesku í háskóla með hangandi hendi. Hún á í ástarsambandi við eldri mann.
Coco er að mestu leyti alin upp af föður sínum og stjúpmóður. Móðir hennar, Elizabeth, er óvenjuleg og þjáist líklega af asperger-heilkenni. Þannig hittast þær fyrir tilviljun á förnum vegi og Elizabeth tilkynnir dóttur sinni að hún sé dauðvona með krabbamein.
Coco veit ekki hvernig hún á að bregðast við þessu en tekur þá ákvörðun að flytja inn til móður sinnar og hjúkra henni.
Það er reyndar ekki sérlega líklegt að móðirin vilji þennan greiða yfir höfuð. Samband þeirra er ekki mikið og þær kunna ekki að umgangast hvor aðra. Frá sjónarhóli Cocoar er þetta móðurinni að kenna, enda afleit í mannlegum samskiptum. Lesandanum er það þó vel ljóst að Coco sjálf er ekki barnanna best. Hún er feimin við móður sína og á erfitt með að sinna henni af einlægni og líta fram hjá göllum hennar.
Coco á greinilega líka óuppgerðar tilfinningar í garð móður sinnar vegna hugsanlegrar vanrækslu í æsku. Inn í þetta fléttast skrítnar senur þar sem Coco fer á bari og býðst til að sofa hjá karlmönnum. Eitthvað sem veldur hennar reyndar sársauka. Þetta er ekki sérlega vel útskýrt í bókinni og ég átti persónulega erfitt með að botna vel í þessu.
Mér fannst ÞORSTI lýsa ákveðinni stemningu mjög vel. Coco er leitandi persóna sem hefur ekki mikla lífsfyllingu og tekur erfiða (örvæntingarfulla?) ákvörðun um að hjálpa móður sinni. Hið stirða samband þeirra er kómískt en jafnframt sársaukafullt að lesa um.
Niðurstaða. ÞORSTI er bók um lífið. Mér fannst þó vanta aðeins stærri punkt í söguna eða aðeins óvæntari fléttu inn í þetta. Ég gef henni þrjár stjörnur.
Takk fyrir árið! Hlakka til að lesa um uppgjör þitt á verkefninu, ég kunni mjög vel að meta umfjallanirnar.
ReplyDeleteHvar er uppgjörið?
ReplyDelete