Ég fékk bókina "má ekki elska þig" á Íþöku. Slík bök er eftir Jenny Downham, sem hefur áður skrifað metsölubókina "áður en ég dey" eins og bókarkápan minnir okkur á, en ég hef reyndar aldrei heyrt talað um. Kápan sjálf er nokkuð góð. Falleg mynd af ungu fólki í faðmlögum. Tilvísunin í fyrri bók höfundar dregur þó úr vægi kápunnar. Sagan þekur 384 síður.
Sagan gerist í litlum bæ í Englandi. Söguhetjan er Mikey. Hann er 18 ára, virðist vera frekar street-smart náungi. Hefur flosnað upp úr námi en hefur atvinnu sem aðstoðarmaður í eldhúsi og vill gjarnan verða kokkur. Hann á tvær systur og móður sem er atvinnulaus áfengissjúklingur. Mikey gerir sitt besta til að sinna fjölskyldunni.
Í upphafi bókar er fjölskyldan að byrja að vinna sig í gegnum það áfall að annarri systurinni er nauðgað. Eða svo segir hún. Mikey og vinir hans hafa ekki mikla trú á því að réttvísin muni standa sig í stykkinu í þessu máli og ákveða að taka málin í eigin hendur. Þeir mæta því í samkvæmi að heimili hins meinta nauðgara og ætla sér að lemja hann með skiptilykli. Ekki gengur það eftir, enda Mikey kannski ekki alveg eins harður og hann heldur. Hins vegar kynnist hann þar henni Ellí, 16 ára systur nauðgarans.
Eins og gefur að skilja verða þau ástfanginn. Mikey telur sér að vísu trú um að hans markmið sé að ná upp úr henni upplýsingum. Ellí hefur verið góða stelpan allt sitt líf og á því í mestu vandræðum með að vinna úr tilfinningum sínum.
Stéttaskiptingin spilar hérna sterkt inn í eins og í öllum enskum bókmenntum virðist vera. Mikey býr í bæjarblokk en Ellí er af stofni aristókrata. Í bókinni fylgjumst við með þessu ástarsambandi og erfiðleikunum sem þau glíma við. Mikey vill hjálpa systur sinni og fjölskyldu, eiga vini og halda vinnunni en líka elska Ellí. Ellí vill hjálpa bróður sínum, ganga vel í skólanum en líka elska Mikey.
Þetta reynist ekki hið einfaldasta mál.
Þessi bók verður að flokkast sem unglingabók. Sumt virkar barnalega og kjánalega á mann. Mikey virðist mun reyndari og vitrari en aldur hans segir til um. Ellí er að þessu leyti trúverðugari persóna. 16 ára skólastelpa sem þarf að þroskast hratt við erfiðar aðstæður.
Þarna liggur líka styrkleiki bókarinnar. Þemað kynferðisglæpur sem rammi utan um ástarsögu er auðvitað frekar þungt. En það er vel skrifað utan um þetta. Hinn meinti nauðgari er nokkuð sannfærandi og atburðarásin trúverðug. Faðir nauðgarans er hins vegar óþarflega mikil erkitýpa. Ríki kallinn sem trúir engu upp á einkason sinn og hefur takmarkaðan tíma fyrir dóttur sína.
Niðurstaða: "má ekki elska þig" er fín bók fyrir það sem hún er. Ég myndi segja að markhópurinn sé 13 - 30 ára áhugamenn um ástarsögur. 3 stjörnur.
No comments:
Post a Comment