Bókablogg fyrir bókaþjóðina
Wednesday, April 2, 2014
Mánasteinn
Ég hef ákveðið að svara kröfum nútímans og gefa út rýni á myndrænu formi. Á myndbandinu að neðan má finna dóm minn á bókinni Mánasteinn eftir Sjón.
Friday, March 28, 2014
Hinn lesandi maður
Þegar ég setti síðustu færsluna inn á gamlárskvöld var ég kominn með fullkomið ógeð á verkefninu 52 bækur. Ekki þannig að mér hafi leiðst að lesa. Vinnan við að ljósmynda bók og skrifa um hana var hins vegar orðin nokkuð endurtekningarsöm og leiðinleg.
Ég held ég hafi í engu tilviki skrifað sérstaklega langan eða merkilegan texta um bók. Samt tekur það aðeins á að koma frá sér heillri hugsun á þennan hátt. Það var hins vegar markmiðið með verkefninu að pína mig til að pæla aðeins í því sem ég var að lesa í staðinn fyrir að vaða bara áfram í næsta verk. Að því leyti tókst þetta mjög vel. Ég hef líka oftar en einu sinni flett upp í færslunum til að rifja upp, það er góður kostur.
Ég fékk nokkra athygli fyrir þetta verkefni í upphafi. Ég líkti þessu við kvikmyndina Julie & Julia. Í því verki eldar Julie allar uppskriftirnar í matreiðslubók Juliu Child með hörmulegum afleiðingum fyrir einkalíf sitt. Sem betur fer hafði lestrar-bloggið engar slíka dramatískar afleiðingar fyrir mig.
Líklega eru 52 bækur ekki nógu stórt markmið til að setja heimilislífið úr skorðum. Ég man eftir einu skipti þar sem ákvörðun mín um að nota kvöldið til lesturs féll í ófrjóan jarðveg. Annars fékk ég líka jákvæða hvatningu ef ég virtist vera á eftir áætlun.
Ég fékk jákvæð viðbrögð úr ýmsum áttum vegna verkefnisins og reglulegar spurningar um hvernig gengi. Sumir spurðu líka hvað ég væri að lesa þá stundina og hvort ég mælti með einhverju. Ég fékk hins vegar fáar athugasemdir um skrifin sjálf eða bækurnar. Ég skil það svo sem vel að það sé ekki endilega áhugavert að lesa rýni á bók sem maður telur ekki líklegt að maður hafi áhuga á eða nenni að lesa. Það eru enda ekki miklir bókadómar í dagblöðum lengur. Samt nýtur Kiljan vinsælda. Ég ætti ef til vill að setja inn dóm á youtube.
Ég skrifaði rýni á 52 bókum. Misjafnlega góðum. Ég las þó heldur fleiri bækur en fékk mig ekki til að setja inn dóm af einni eða annarri ástæðu. Ég held ég skelli inn einni færslu um þær við tækifæri.
Á nýju ári hef ég þegar lesið nokkrar bækur. Það verður að viðurkennast að ég hef notið þess aðeins að geta slappað aðeins af við lesturinn og ekki þurft að hafa áhyggjur af lengd bókar. Ég er farinn að finna aftur fyrir þörfinni á að tjá mig um lesturinn svo ég stefni á að halda áfram með bloggið eftir nennu og áhuga.
Tuesday, December 31, 2013
Bók #52: ÞORSTI
Ég fékk bókina ÞORSTI á Íþöku. Höfundur er Esther Gerritsen. Þessi bók telst því með í hollensku nýbylgjunni hér á landi. Við Íslendingar elskum hollenskar bókmenntir. Sporgöngumaður hollenska landnámsins er auðvitað Herman Koch.
Höfundur hefur skrifað nokkrar bækur en aðrar virðast ekki hafa komið út á íslensku. Reyndar finnst ekkert yfirhöfuð um bókina eða höfundinn á íslenskum síðum. Kápan vísar á forlagid.is sem afneitar tilvist þessarar bókar. Furðulegt. ÞORSTI telur 206 síður.
Söguhetjan er ung stúlka, hún Coco. Sú er frekar stefnulaus í lífinu. Lærir rússnesku í háskóla með hangandi hendi. Hún á í ástarsambandi við eldri mann.
Coco er að mestu leyti alin upp af föður sínum og stjúpmóður. Móðir hennar, Elizabeth, er óvenjuleg og þjáist líklega af asperger-heilkenni. Þannig hittast þær fyrir tilviljun á förnum vegi og Elizabeth tilkynnir dóttur sinni að hún sé dauðvona með krabbamein.
Coco veit ekki hvernig hún á að bregðast við þessu en tekur þá ákvörðun að flytja inn til móður sinnar og hjúkra henni.
Það er reyndar ekki sérlega líklegt að móðirin vilji þennan greiða yfir höfuð. Samband þeirra er ekki mikið og þær kunna ekki að umgangast hvor aðra. Frá sjónarhóli Cocoar er þetta móðurinni að kenna, enda afleit í mannlegum samskiptum. Lesandanum er það þó vel ljóst að Coco sjálf er ekki barnanna best. Hún er feimin við móður sína og á erfitt með að sinna henni af einlægni og líta fram hjá göllum hennar.
Coco á greinilega líka óuppgerðar tilfinningar í garð móður sinnar vegna hugsanlegrar vanrækslu í æsku. Inn í þetta fléttast skrítnar senur þar sem Coco fer á bari og býðst til að sofa hjá karlmönnum. Eitthvað sem veldur hennar reyndar sársauka. Þetta er ekki sérlega vel útskýrt í bókinni og ég átti persónulega erfitt með að botna vel í þessu.
Mér fannst ÞORSTI lýsa ákveðinni stemningu mjög vel. Coco er leitandi persóna sem hefur ekki mikla lífsfyllingu og tekur erfiða (örvæntingarfulla?) ákvörðun um að hjálpa móður sinni. Hið stirða samband þeirra er kómískt en jafnframt sársaukafullt að lesa um.
Niðurstaða. ÞORSTI er bók um lífið. Mér fannst þó vanta aðeins stærri punkt í söguna eða aðeins óvæntari fléttu inn í þetta. Ég gef henni þrjár stjörnur.
Sunday, December 29, 2013
Bók #51: SIGRÚN OG FRIÐGEIR
Jólasveinnin kom með bókina SIGRÚN OG FRIÐGEIR. Hún er eftir Sigrúnu Pálsdóttur og sagan sjálf þekur 183 síður en 228 síður með tilvísunum, skrám og heimildum.
Kápan sjálf er mjög flott og tilgerðarlaus. Myndin sýnir hjónin á siglingu og passar mjög vel við efni bókarinnar. Eini gallinn er að gyllti titillinn passar illa við hvítan bakgrunninn og er ekki sérlega læsilegur.
Bókin segir sögu hjónanna Sigrúnar og Friðgeirs. Þau eru fædd á öðrum áratug síðustu aldar. Bókin hefur undirtitilinn FERÐASAGA og fókusinn er á dvöl þeirra á Bandaríkjunum á stríðsárunum. Þar stunda þau bæði læknanám.
Í byrjun fáum við smá innsýn í bernsku þeirra beggja. Þó fáum við að vita meira um Sigrúnu, væntanlega vegna ítarlegra safns heimilda um hana. Alls staðar eru tilvísanir og höfundur nálgast söguna með nákvæmum vinnubrögðum fræðimannsins. Þetta verður bæði styrkleiki og veikleiki bókarinnar.
Það er að mörgu leyti mjög jákvætt að textinn sé knappur og skýr. Oft langar lesandann þó að vita meira. Maður hefur afskaplega litla tilfinningu fyrir Friðgeiri sem persónu. Saga hans frá fæðingu til hjónabands nær frá bls. 26 til 33 og þar á milli eru líka sjö stórar ljósmyndir.
Sums staðar er manni þó drekkt í staðreyndum:
Sums staðar er manni þó drekkt í staðreyndum:
Í barnæsku Sigrúnar Briem leit samfélagið við Tjarnargötuna svo út: nyrst í númer 18 bjó Sigrún Bjarnason, móðursystir Sigrúnar og ekkja eftir Björn augnlækni, ásamt síðari manni sínum, Þorleifi H. Bjarnasyni, málfræðingi og kennara við Menntaskólann. Sigrún og Þorleifur áttu tvo syni en dóttirin Karítas var Björns augnlæknis. Í húsinu bjó líka móðuramman Karítas Markúsdóttir, ekkja séra Ísleifs Gíslasonar í Arnarbæli. Sigrún Bjarnason var stórbrotinn persónuleiki og glæsileg kona, vægast sagt, sem gerði við regnhlífar og bjó til konfekt sem var ólíkt öðrum sætindum sem Reykvíkingar höfðu þá smakkað. Í númer 22 voru svo Klemens Jónsson og seinni kona hans, Anna Schiöth, ásamt syninum Agnari Klemens...og svo framvegis í hálfa blaðsíðu enn. Maður fær aðeins á tilfinninguna við lesturinn að þessu efni væru gerð betri skil í sögulegri skáldsögu.
Við fylgjumst með þeim hjónum ferðast til Bandaríkjanna og takast á við lífið þar. Ekkert er fast í hendi en þau leita víða og fá loksins stöðu við sjúkrahús í New York, síðar í Winnipeg, aftur New York, Nashville og loks Boston þar sem Friðgeir lýkur doktorsprófi. Þau eignast tvö börn úti en ekkert annað kemur til greina en að halda heim til Íslands þegar náminu er lokið. Það má skilja það sem svo að Sigrúnu líði ekki sem best í Bandaríkjunum og vilji gjarnan skipta um umhverfi.
Þau fara þannig heim með alla fjölskylduna haustið 1944. Þetta er erfið ákvörðun þar sem siglingar yfir Atlantshafið eru varasamar í miðju stríðinu. Besti kafli bókarinnar er án vafa sá síðasti með ísköldum og nákvæmum lýsingum á þessu ferðalagi. Höfundur setur aðstæður í samhengi fyrir lesandann á þægilegan hátt með því að lýsa gangi stríðsins og aðstæðum kafbátahermanna.
Niðurstaða: SIGRÚN OG FRIÐGEIR segir mjög áhugaverða sögu á mjög læsilegan og aðgengilegan hátt. Sagan er stutt. Þetta er bæði kostur og galli. Eftir stendur sú tilfinning að maður þekki persónurnar ekki sérlega vel. Hins vegar hefði hin hefðbundna þriggja binda íslenska æfisaga ekki heldur verið góður kostur. Ég gef bókinni 3,5 stjörnur.
Thursday, December 26, 2013
Bók #50: má ekki elska þig
Ég fékk bókina "má ekki elska þig" á Íþöku. Slík bök er eftir Jenny Downham, sem hefur áður skrifað metsölubókina "áður en ég dey" eins og bókarkápan minnir okkur á, en ég hef reyndar aldrei heyrt talað um. Kápan sjálf er nokkuð góð. Falleg mynd af ungu fólki í faðmlögum. Tilvísunin í fyrri bók höfundar dregur þó úr vægi kápunnar. Sagan þekur 384 síður.
Sagan gerist í litlum bæ í Englandi. Söguhetjan er Mikey. Hann er 18 ára, virðist vera frekar street-smart náungi. Hefur flosnað upp úr námi en hefur atvinnu sem aðstoðarmaður í eldhúsi og vill gjarnan verða kokkur. Hann á tvær systur og móður sem er atvinnulaus áfengissjúklingur. Mikey gerir sitt besta til að sinna fjölskyldunni.
Í upphafi bókar er fjölskyldan að byrja að vinna sig í gegnum það áfall að annarri systurinni er nauðgað. Eða svo segir hún. Mikey og vinir hans hafa ekki mikla trú á því að réttvísin muni standa sig í stykkinu í þessu máli og ákveða að taka málin í eigin hendur. Þeir mæta því í samkvæmi að heimili hins meinta nauðgara og ætla sér að lemja hann með skiptilykli. Ekki gengur það eftir, enda Mikey kannski ekki alveg eins harður og hann heldur. Hins vegar kynnist hann þar henni Ellí, 16 ára systur nauðgarans.
Eins og gefur að skilja verða þau ástfanginn. Mikey telur sér að vísu trú um að hans markmið sé að ná upp úr henni upplýsingum. Ellí hefur verið góða stelpan allt sitt líf og á því í mestu vandræðum með að vinna úr tilfinningum sínum.
Stéttaskiptingin spilar hérna sterkt inn í eins og í öllum enskum bókmenntum virðist vera. Mikey býr í bæjarblokk en Ellí er af stofni aristókrata. Í bókinni fylgjumst við með þessu ástarsambandi og erfiðleikunum sem þau glíma við. Mikey vill hjálpa systur sinni og fjölskyldu, eiga vini og halda vinnunni en líka elska Ellí. Ellí vill hjálpa bróður sínum, ganga vel í skólanum en líka elska Mikey.
Þetta reynist ekki hið einfaldasta mál.
Þessi bók verður að flokkast sem unglingabók. Sumt virkar barnalega og kjánalega á mann. Mikey virðist mun reyndari og vitrari en aldur hans segir til um. Ellí er að þessu leyti trúverðugari persóna. 16 ára skólastelpa sem þarf að þroskast hratt við erfiðar aðstæður.
Þarna liggur líka styrkleiki bókarinnar. Þemað kynferðisglæpur sem rammi utan um ástarsögu er auðvitað frekar þungt. En það er vel skrifað utan um þetta. Hinn meinti nauðgari er nokkuð sannfærandi og atburðarásin trúverðug. Faðir nauðgarans er hins vegar óþarflega mikil erkitýpa. Ríki kallinn sem trúir engu upp á einkason sinn og hefur takmarkaðan tíma fyrir dóttur sína.
Niðurstaða: "má ekki elska þig" er fín bók fyrir það sem hún er. Ég myndi segja að markhópurinn sé 13 - 30 ára áhugamenn um ástarsögur. 3 stjörnur.
Friday, December 13, 2013
Bók #49: VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM
Ég fékk VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM á Íþöku. Bókin er erftir Halldór Armand Ásgeirsson. Þetta er hans fyrsta bók eftir því sem ég kemst næst. Ég segi bók, því þetta er ekki eiginleg skáldsaga heldur tvær smásögur. Þetta er þó ekki vel ljóst fyrir grunlausum bókaunnendum.
Á kápunni stendur VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM en á titilsíðunni VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM OG HJARTAÐ ER JÓJÓ. Þar kemst upp um glæp útgefandans. Fyrri sagan fjallar sem sagt um Vince Vaughn og nær frá síðu 7 til 78. Síðari sagan, HJARTAÐ ER JÓJÓ spannar síður 81 til 149.
Nú er það mögulega svo að smásögur seljast ekki jafnvel og skáldsögur. Engu að síður er það mjög skrítin ákvörðun að spyrða þessum tveimur sögum saman og selja undir merkjum annarar. Lesandinn er blekktur. Á bakhliðinni er gerð tilraun til að samþætta sögurnar og láta eins og bókin hafi eitt þema sem er líka frekar langsótt og nokkuð augljóst að höfundur hefur ekki hugsað það þannig.
Kápan sjálf er mjög fín. Notalegur þrívíddar-effekt á forsíðunni og frábær ljósmynd af höfundi á bakhlið.
Saga 1: Ég giskaði á að titillinn "Vince Vaughn í skýjunum" benti til dæmigerðrar fyrirsagnar af slúðurmiðli á vefnum. Sagan fjallar þó bókstaflega um þetta. Sara er stelpa sem vinnur í Laugardalslauginni um sumar. Dag einn sér hún magnaða skýjamyndun sem hún tekur upp á símann sinn. Þar virðist sjálft mini-selebbið Vince Vaughn gægjast í gegnum skýin.
Sara setur myndbandið á vefinn og upptakan slær í gegn. Hún birtist í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og Sara verður "fræg".
Þessi saga er nokkuð lengi í gang. Nokkru púðri er eytt í myndrænar lýsingar af sundlauginni og andrúmsloftinu þar. Lesandinn dettur þannig ekki beint inn í söguna. Fléttan sjálf er hins vegar mjög vel unnin og frásögnin afar góð og kímin.
Mér finnst höfundur ná að vinna mjög vel með þetta fyrirbæri sem stundarfrægð er. Fjölmiðlasirkúsinn í kringum mjög ómerkilega hluti. Jafnvel þegar hinn frægi einstaklingur er kannski ekki mjög frægur. Vince Vaughn hlýtur allavega að hafa verið í skýjunum með þetta.
Endir þessa þáttar er líka flottur. Sagan fjarar bara út og lífið heldur áfram, rétt eins og stundarfrægðin.
Niðurstaða 1: Smásagan VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM er mjög vel unnin. Ég gef henni fjórar stjörnur.
Saga 2: "Hjartað er jójó" fjallar um lottókynninn Þóri. Hann er ekkert sérstaklega ánægður með sinn stað í lífinu. Nótt eina dreymir hann kvæði. Hann skrifar það niður strax þegar hann vaknar. Þórir fær þá flugu í höfuðið að kvæðið hljóti að vera eftir eitt af þjóðskáldum Íslendinga sem hafi vitjað hans í draumi.
Þórir sendir fjölmiðlum upplýsingar um þessi merkilegu tíðindi. Furðulegt nokk sýna þeir því þó engan áhuga. Næsti leikur Þóris er þá að flytja kvæðið í heild sinni í Lottóinu. Þar vekur hann auðvitað athygli en honum finnst þó aðalatriðið, kvæðið sjálft, ekki fá næga virðingu.
Þema þessarar sögu er nokkuð gott. Aðalpersónan virðist búa í sínum lokaða heimi og fókuserar eingöngu á þetta eina atriði. Sagan minnir að því leyti nokkuð á leikrit.
Sagan endar á mjög óvæntan og gróteskan hátt sem er frekar erfitt að botna í. Höfundi tekst ekki að binda slaufu á söguna og klára hana á sannfærandi hátt.
Þó er margt mjög fyndið í henni. Hinn hrifnæmi Þórir eldri með sitt klósett í stofunni á mjög góða innkomu.
Niðurstaða 2: Smásagan HJARTAÐ ER JÓJÓ er ekki eins vel unnin og fyrri sagan þó hugmyndin sé fín. Ég gef henni 2,5 stjörnur.
Tuesday, December 3, 2013
Bók #48: THE RACKETEER
Mér áskotnaðist bókin THE RACKETEER eftir John Grisham og las hana á nokkrum kvöldum. Sagan er 386 síður og kom út árið 2012. Grisham hefur skrifað fjölmargar bækur. Kvikmyndir hafa verið gerðar eftir mörgum þeirra. Pelican Brief, The Firm, A Time to Kill og fleiri. Þetta efni er frá tíunda áratugnum. Bækur Grishams á 21.öldinni eru ekki eins kunnuglegar.
THE RACKETEER segir sögu lögmannsins Malcolm Bannister. Sá situr í fangelsi og hefur afplánað fimm ár af tíu. Hann var dæmdur sekur fyrir peningaþvætti en er að sjálfsögðu saklaus. Malcolm starfaði á lítilli stofu í smábæ. Það fór lítið fyrir honum og hann hefði seint orðið ríkur á störfum sínum. Hann var giftur konu og á 6 ára strák. Hún skilur þó við hann fljótlega eftir að refsivistin hefst.
Malcolmi er farið að leiðast þófið í fangelsinu og er kominn með plan um hvernig sleppa skal út. FBI er nefnilega að leita að manni sem myrti dómara. Malcolm einn veit hver það er og hvar hann er að finna. Honum tekst að semja um sakaruppgjöf fyrir þessar upplýsingar. Planið gengur eftir og Malcolm sleppur út. Fær meira að segja að fara í vitnavernd.
Á þessum tímapunkti er svona þriðjungur af bókinni búinn og hún skiptir þá algjörlega um gír. Malcolm fer að búa til heimildarmynd um náunga sem lesandinn botnar lítið í hver er eða hvað er í gangi. Ekkert er útskýrt varðandi plott Malcolms. Maður flettir til baka og reynir að rifja upp en nei, þessi persóna var aldrei kynnt til leiks.
Þessi flétta dregst mjög á langinn og ég var alvarlega að íhuga að gefast upp. Það kemur þó fljótlega í ljós að það er miklu dýpra á plotti Malcolms en virðist í fyrstu. Malcolm er ekki allur þar sem hann er séður og er greinilega óáreiðanlegur sögumaður. Þetta er vissulega mjög áhugavert. Enda stendur á kápunni: HE WAS BETRAYED BY THE FBI. NOW HE WANTS REVENGE.
Söguhetjan er sem sagt að hefna sín grimmilega á FBI. Malcolm dregur hverja kanínuna á fætur annarri upp úr hattinum og bókin endar næstum bókstaflega á því að hann ríður syngjandi inn í sólsetrið vellauðugur með gullfallega konu upp á arminn.
Fyrir utan erfiða miðju leiðist manni ekki við lestur bókarinnar. Margt virkar þó afskaplega ótrúlega. Malcolm er þvílíkur sigurvegari og leikur á alla sem á vegi hans verða. Þetta er sérstaklega ótrúverðugt í ljósi þess hvað hann á að hafa verið "venjulegur" fyrir fangelsisvist sína.
Tengsl hans við fjölskyldu sína eru líka skrítin. Hann á að hafa verið góður faðir. Hins vegar er varla minnst á þennan 6 ára son hans eftir sakaruppgjöfina.
Niðurstaða: THE RACKETEER er ágætis spennusaga. Höfundur heldur þó ekki nógu vel á spöðunum. Það á víst að gera kvikmynd eftir bókinni. Það gæti alveg orðið vel heppnað með réttum breytingum á handritinu. Ég gef bókinni 2 stjörnur.
Subscribe to:
Posts (Atom)