Ég fékk bókina FÆREYSKUR DANSUR lánaða hjá tengdamóður minni. Téð bók er eftir Huldar Breiðfjörð sem skrifaði þá athyglisverðu bók, Góðir Íslendingar, sem ég hef lesið tvisvar og kann vel að meta. Í slíkri bók, sem er ferðasaga, segir höfundur frá reynslu sinni af því að flakka um krummaskuð á Íslandi að vetrarlagi. Eina mannlífið sem hann finnur er á vídjóleigunum. Það væri áhugavert að vita hvar fólkið heldur sig núna 15 árum síðar þegar internetið hefur tekið við af vídjóleigunni.
FÆREYSKUR DANSUR er frekar stutt bók, 153 síður. Hún kom út árið 2009 og er á beinan og óbeinan hátt uppgjör við HRUNIÐ. Söguhetjan, höfundur ber manni að skilja, vinnur á auglýsingastofu í hruninu og finnst það eitthvað frekar skrítið. Hann vill taka þátt í nýja Íslandi, skapa eitthvað nýtt, gera eitthvað. Hann hættir í vinnunni og pantar sér ferð til Færeyja þar sem hann ætlar að dvelja í fjórar vikur. Markmiðið er að skrifa ferðasögu.
Afurðin á síðan að vera bókin sem lesandinn hefur í höndunum. Sagan er bæði skrifuð í fyrstu og annarri persónu sem er óþægilegt og skrítið. Á bls. 11:
Þegar þú bíður eftir töskunum rýnirðu betur í hin færeysku andlit. Þau líkjast þeim íslensku, en eru þó ekki alveg eins. Sumt fólkið virkar bjartara yfirlitum og er hressilegra og minnir á Dani.
Á bls. 34:
Ég var nýkominn heim og enn að ná úr mér hrollinum með kaffibolla þegar rauðvirkinn og glottandi maður um fertugt í vinnusamfestingi gekk inn í eldhúsið.
Skrifin eru afar raunsæ og nákvæm. Höfundur lýsir ferðum sínum og upplifunum. Svefnlausum nóttum vegna látanna í tölvuleikjum nágrannans. Honum leiðist, ferðalagið er ómarkvisst. Manni finnst maður vera með í leiðangrinum og samsvarar sér mjög vel með söguhetjunni. Höfundur lýsir því að hann er reynslubolti í slíkum ferðalögum og ástæðulaust að örvænta þó lítið sé í gangi framan af ferðalagi. Það þurfi bara að bíða eftir að maður detti inn í það.
Höfundur þvælist aðallega um Þórshöfn og síðar um önnur þorp. Hann reynir að fá tilfinningu fyrir færeyskri þjóðarsál og ber saman við hina íslensku. Færeyingarnir virðast vera einfaldari menn. Una vel við sitt fiskerí. Þetta er svo sett í samhengi við hrunið og Íslendingarnir eru dálítið málaðir eins og stóri bróðir sem flaug of nálægt sólinni.
Ég hugsaði það á meðan lestrinum stóð hvort fyrirbærið ferðasaga á þessu formi hefði ekki úrelst með interneti og bloggi. Mér finnst eitthvað letilegt við að lesa lýsingu á því þegar höfundur ákvað að drífa sig upp á herbergi svo hann næði að skrifa í dagbókina fyrir svefninn. Einmitt svona efni á mjög vel heima á vefnum. Maður myndi hins vegar seint nenna að lesa skáldsögu í litlum bútum fyrir framan tölvuna.
Í lok bókar kemur skáletraður kafli, skrifaður í fyrstu persónu, þar sem segir að "ég" hafi haft áhuga á því að segja sögu af ferðalagi sem aldrei var farið. Þetta setur bókina vissulega í nýtt samhengi. Var þetta þá skáldskapur eftir allt saman? Letilegu línurnar þá bara alls ekkert letilegar heldur úthugsuð snilld.
Er bókin ferðasaga eða skáldsaga? Skiptir það kannski engu máli? Getur letilega skrifuð ferðasaga verið meistaralega skrifuð skáldsaga? Er þetta mögulega einhvers konar loka-ádeila á hrunið?