Friday, May 31, 2013

Bók #23: FÆREYSKUR DANSUR

Ég fékk bókina FÆREYSKUR DANSUR lánaða hjá tengdamóður minni. Téð bók er eftir Huldar Breiðfjörð sem skrifaði þá athyglisverðu bók, Góðir Íslendingar, sem ég hef lesið tvisvar og kann vel að meta. Í slíkri bók, sem er ferðasaga, segir höfundur frá reynslu sinni af því að flakka um krummaskuð á Íslandi að vetrarlagi. Eina mannlífið sem hann finnur er á vídjóleigunum. Það væri áhugavert að vita hvar fólkið heldur sig núna 15 árum síðar þegar internetið hefur tekið við af vídjóleigunni.


FÆREYSKUR DANSUR er frekar stutt bók, 153 síður. Hún kom út árið 2009 og er á beinan og óbeinan hátt uppgjör við HRUNIÐ. Söguhetjan, höfundur ber manni að skilja, vinnur á auglýsingastofu í hruninu og finnst það eitthvað frekar skrítið. Hann vill taka þátt í nýja Íslandi, skapa eitthvað nýtt, gera eitthvað. Hann hættir í vinnunni og pantar sér ferð til Færeyja þar sem hann ætlar að dvelja í fjórar vikur. Markmiðið er að skrifa ferðasögu.

Afurðin á síðan að vera bókin sem lesandinn hefur í höndunum. Sagan er bæði skrifuð í fyrstu og annarri persónu sem er óþægilegt og skrítið. Á bls. 11: 
Þegar þú bíður eftir töskunum rýnirðu betur í hin færeysku andlit. Þau líkjast þeim íslensku, en eru þó ekki alveg eins. Sumt fólkið virkar bjartara yfirlitum og er hressilegra og minnir á Dani.
 Á bls. 34:
Ég var nýkominn heim og enn að ná úr mér hrollinum með kaffibolla þegar rauðvirkinn og glottandi maður um fertugt í vinnusamfestingi gekk inn í eldhúsið.


Skrifin eru afar raunsæ og nákvæm. Höfundur lýsir ferðum sínum og upplifunum. Svefnlausum nóttum vegna látanna í tölvuleikjum nágrannans. Honum leiðist, ferðalagið er ómarkvisst. Manni finnst maður vera með í leiðangrinum og samsvarar sér mjög vel með söguhetjunni. Höfundur lýsir því að hann er reynslubolti í slíkum ferðalögum og ástæðulaust að örvænta þó lítið sé í gangi framan af ferðalagi. Það þurfi bara að bíða eftir að maður detti inn í það.

Höfundur þvælist aðallega um Þórshöfn og síðar um önnur þorp. Hann reynir að fá tilfinningu fyrir færeyskri þjóðarsál og ber saman við hina íslensku. Færeyingarnir virðast vera einfaldari menn. Una vel við sitt fiskerí. Þetta er svo sett í samhengi við hrunið og Íslendingarnir eru dálítið málaðir eins og stóri bróðir sem flaug of nálægt sólinni.


Ég hugsaði það á meðan lestrinum stóð hvort fyrirbærið ferðasaga á þessu formi hefði ekki úrelst með interneti og bloggi. Mér finnst eitthvað letilegt við að lesa lýsingu á því þegar höfundur ákvað að drífa sig upp á herbergi svo hann næði að skrifa í dagbókina fyrir svefninn. Einmitt svona efni á mjög vel heima á vefnum. Maður myndi hins vegar seint nenna að lesa skáldsögu í litlum bútum fyrir framan tölvuna.

Í lok bókar kemur skáletraður kafli, skrifaður í fyrstu persónu, þar sem segir að "ég" hafi haft áhuga á því að segja sögu af ferðalagi sem aldrei var farið. Þetta setur bókina vissulega í nýtt samhengi. Var þetta þá skáldskapur eftir allt saman? Letilegu línurnar þá bara alls ekkert letilegar heldur úthugsuð snilld.

Er bókin ferðasaga eða skáldsaga? Skiptir það kannski engu máli? Getur letilega skrifuð ferðasaga verið meistaralega skrifuð skáldsaga?  Er þetta mögulega einhvers konar loka-ádeila á hrunið? 


Niðurstaða:  FÆREYSKUR DANSUR er mjög vel skrifuð og skemmtileg bók. Huldar Breiðfjörð er góður penni með næmt auga fyrir smáatriðum og mannlegum tilfinningum. Ég gef Færeyskum dansi þrjár stjörnur.

Tuesday, May 28, 2013

Bók #22: WHATEVER YOU LOVE

Ég greip bókina WHATEVER YOU LOVE frekar handahófskennt úr hillu á bókasafninu. Slík bók er eftir Louise Doughty og kom út árið 2010. Höfundinn hef ég aldrei heyrt talað um. Bókin var tilnefnd til COSTA BOOK AWARDS 2010, eins og kápan bendir  frekar frekjulega á.


Söguhetjan heitir Laura. Hún er hjúkrunarfræðingur í Bretlandi. Strax í byrjun er sagt frá andláti 9 ára dóttur hennar. Bókin skiptist síðan nokkurn veginn í tvennt. Annars vegar er sagt frá sorg móður og fjölskyldu í kjölfarið, hins vegar er saga fjölskyldunnar rakin fram að þessum atburði.

Sú saga er ágæt. Laura verður ástfangin af David. Sá er kvennabósi. Það tekur þau nokkur ár að ná saman. Að lokum biður David Lauru að giftast sér við bjargbrún. Þó ekki fyrr en hann heldur henni yfir brúninni og lætur sem hann ætli að steypa henni fram af. Þetta er besta sena bókarinnar og skilar vel hve tilfinningalega ruglaður þessi maður á að vera. Sem og hve blind og ástfangin Laura er.

 


Þau eignast dótturina Betty en hann David er ekki í rónni. Hann fer fljótlega að halda fram hjá og stofnar að lokum nýja fjölskyldu með Chloe. 

Þegar Betty er orðin 9 ára fær hún að labba ein heim úr skólanum með vinkonu sinni. Hún verður fyrir bíl á leiðinni ásamt vinkonu sinni. Við fylgjumst svo með viðbrögðum Lauru við þessu. Hún er auðvitað í rúst, en David virðist höndla þetta ögn betur.

Laura vill hefna sín. Því er líst nokkuð vel í bókinni hvernig konan missir vitið.

Það verður að teljast sögunni til hróss að hún er ekki mjög fyrirsjáanleg. Samt er það þannig að það situr ekkert mikið eftir. Höfundur er að reyna að skrifa einhvers konar sálfræðitrylli. Laura fær dularfull bréf. Skyldi Chloe vera að senda þau? Þar sem hún gerir ráð fyrir því, er of augljóst að svo er ekki, svo spennan er algjörlega farin fyrir lesandann.


Hversu langt getur maður gengið við þessar aðstæður? Þessari spurningu reynir höfundur að svara. Vill maður drepa gerandann, eða er það ekki nóg? Hvað með að steypa frænda hans fram af sömu bjargbrún og fyrrverandi eiginmaður manns bar upp bónorðið á?

Niðurstaða: WHATEVER YOU LOVE er ágæt fyrir það sem hún er. Móðir glímir við dótturmissi. Maður vill synda í tilfinningum. Það gerist samt ekki. Í staðinn er þetta meira eins og spennusaga. Ég var ekki lengi að lesa bókina, maður vill vita hvað gerist næst.  Það stendur samt ekki mikið upp úr. Ég get ekki mælt með þessari bók. Tvær stjörnur.

Friday, May 24, 2013

Bók #21: BREKKUKOTSANNÁLL

Ég fékk bókina BREKKUKOTSANNÁLL í afmælisgjöf. Umrædd bók er eftir Halldór Laxness og kom út árið 1957. Af öðrum verkum skáldsins hef ég eingöngu lesið Íslandsklukkuna. Tvisvar hef ég byrjað á INNANSVEITARKRÓNÍKU en ekki komist mjög langt.


Brekkukotsannáll segir frá Álfgrími, ungum manni, sem elst upp hjá "afa og ömmu" í Brekkukoti. Það er bær sem stendur norðan megin við gamla kirkjugarðinn. Sagan er að einhverju leyti saga Halldórs sjálfs. Brekkukot hét í raun Melkot og þar ólst móðir hans upp.



Lengi framan af er erfitt að átta sig á því hvort bókin hafi eiginlegt plott. Hver kafli er eins og bloggfærsla. Álfgrímur þvælist niður í Sogamýri til að sækja hann Grána hest. Álfgrímur er óþekkur og fær smá skömm í hattinn frá ömmu. Í Brekkukoti býr alls kyns fólk og hver gestur fær sinn kafla. Ég átti erfitt með að greina í sundur Kaftein Hogensen, eftirlitsmanninn og Runólf Jónsson.


Fyrst fræðumst við aðeins um uppruna Álfgríms. Hann er sonur konu sem var á leið í vesturheim, ól drenginn í Brekkukoti og skildi þar eftir. Afi og amma eru sem sagt ekki skyld honum, né heldur eru þau raunar hjón. Framan af kynnumst við mannlífinu í Brekkukoti. Afi veiðir fisk á morgnanna og selur í bænum. Alltaf á sama verði, hagfræðingum til armæðu. Við fræðumst svo um hinar ýmsu persónur, og klukku.


Sagan sjálf snýst síðan í kringum óskabarn þjóðarinnar, nágranna okkar manns, söngvarann heimsþekkta, Garðar Hólm. Það er ómögulegt annað en að sjá fyrir sér Garðar Thor Cortes. Garðar þessi Hólm mun sem sagt hafa brotist til frægðar og komið fram bæði í Ástralíu og Japan, eða svo segir "Foldin" allavega.

Okkar maður er áhugamaður um tónlist og lítur upp til Garðars Hólms. Þeir eiga enda margt sameiginlegt. Þegar Garðar lætur svo lítið að koma í heimsókn til Íslands fer reyndar lítið fyrir söng. 


Garðar þessi er mjög tragískur og skemmtilegur karakter. Manni finnst hann auðveldlega eiga mikið erindi við nútímann. Garðari er mikið haldið á lofti á Íslandi, einkum í blöðunum. Innistæðan fyrir hólinu er þó líklega ekki mikil. Garðar er þannig sigurvegari út á við, en ekki inn á við.

Áhrifin og tengingin við hinn unga Álfgrím er einnig mikilvæg, enda fyrirstillir hann hina ungu íslensku kynslóð. sem mun kannski sigra heiminn á nýjan hátt. Mun Álfgrímur þiggja fé af burgeisinum eða fetar hann sína eigin slóð?



Niðurstaða: Ég var afar lengi að lesa BREKKUKOTSANNÁL. Rúmar tvær vikur. Maður ræður reyndar varla við meiri hraða, þá missir maður af gullkornunum. Á hinn bóginn var bókin ekki mjög grípandi, heldur afar svæfandi. "Lýsingu hvaða furðufugls sofnaði ég aftur út frá í gær?" - spurði ég mig.

Í heildina er þetta góð lesning. Þetta er bók sem maður sér fyrir sér að lesa aftur. Ekki eins stressaður á söguþræði. Ég gef BREKKUKOTSANNÁL þrjár stjörnur.

Wednesday, May 22, 2013

Bók #20: THE POSITION

Tuttugasta bókin nefnist the Pos!tion og er eftir Meg Wolitzer. Ég greip þessa bók á bókasafninu fyrir rælni. Seinna komst ég að því að ég hef lesið aðra bók eftir þessa konu. Sú nefnist THE UNCOUPLING og var nokkuð áhugaverð. Í þeirri bók falla álög á lítinn bæ í BNA með þeim afleiðingum að konurnar fara í kynlífsverkfall. Þetta á að vera einhvers konar nútíma-Lysistrata. Sniðug hugmynd, en ekki nógu vel unnið úr efniviðnum og bókin varð frekar langregin.

Meg Wolitzer virðist vera þekkt fyrir bókina The Interestings. Um hana segir á Amazon og vitnað er í New York Times Book Review: 
"among the ranks of books like Jonathan Franzen’s Freedom and Jeffrey Eugenides The Marriage Plot." 
Þessi setning er móðgun. The Marriage Plot er ömurleg bók en Freedom er ein af bestu bókum sem ég hef lesið.



The Pos¡tion hefst á því að fjögur börn, systkini, á ýmsum aldri komast í bók úr hillu foreldra sinna. Sú bók inniheldur lýsingar á hinum ýmsu stellingum sem elskendur geta notað í ástarlífinu. Bókin er auk þess myndskreitt. Höfundarnir og fyrirsætur myndanna reynast vera foreldrar systkinanna.

Þessi atburður og "frægð" foreldranna tengd útgáfu þessa rits hefur mikil áhrif á systkinin. Bókin segir sögu þeirra á fullorðinsárum. Við höfum samkynhneigða manninn, þunglynda manninn, óreglu-konuna og félagsfælnu konuna.



Við fylgjumst mest með þunglynda manninum. Hann ferðast til Flórída þar sem faðir hans býr. Markmiðið er að sannfæra hann um að leggja blessun sína yfir endurútgáfu kynlífs-ritsins, nú 30 árum síðar. Hjónun skyldu sem sagt fljótlega eftir útkomu bókarinnar. Í Flórída hættir þunglyndi maðurinn að taka þunglyndislyfin sín og líf hans tekur nýja stefnu..

Það er voðalega lítið meira um "plott" bókarinnar að segja. Við fylgjumst með þessu fólki gera sitt besta á afmörkuðum tíma í þess lífi. Þetta getur alveg verið ágætt ef höfundur er frjór og hefur frá nógu að segja. En einhvern veginn er þetta ekki nógu eftirminnilegt hér. Ég stend mig að því að fletta upp í bókinni til að rifja upp hvað verður um persónurnar, en það verður eiginlega ekkert um þær. Lífið heldur bara áfram.

Sem er ágætt, þannig. Samlíkingin við Jonathan Franzen er ekkert galin. Þetta er svona fjölskyldu-drama. Það vantar bara aðeins meira drama í þetta. Hún Meg kemst bara ekki með tærnar þar sem Franzen hefur hælana



Niðurstaða: The Pos!tion er ekki leiðinleg bók. Hún er auðveld aflestar, manni leiðist ekki. Þetta er eins og að horfa á þátt úr 19.seríu af The Simpsons. Meðalmennska. Ég gef þessu tvær stjörnur. 
-Ég er að hugsa um að lesa ekki fleiri bækur eftir Meg Wolitzer.

Friday, May 17, 2013

Bók #19: SUMARHÚS MEÐ SUNDLAUG



Ég las bókina SUMARHÚS MEÐ SUNDLAUG eftir HERMAN KOCH á einni helgi. Umrædd bók kom út á íslensku á síðasta ári og var sumarsmellurinn 2012.

Umræddur Koch skrifaði einnig bókina KVÖLDVERÐURINN sem var vinsæl fyrir nokkrum árum. Aftan á kápunni er skjáskot af kápu KVÖLDVERÐARINS og tilvitnun í Kolbrúnu Bergþórsdóttur þar sem hún virðist vera að mæra bókina. Það er að segja KVÖLDVERÐINN. Óþolandi vinnubrögð. Ef að það besta sem hægt er að segja um bók er að ja, fyrri bók höfundar hafi verið býsna góð, þá er betra að sleppa því að segja nokkuð yfir höfuð.


Söguhetjan er heimilislæknirinn Marc sem er einhvers konar geðþekkur sósíópati. Í byrjun bókar er dramatísk sena þar sem kona ryðst inn á læknastofuna og ásakar lækninn um morð. Þá er spólað til baka og bókin er næstum öll endurlit.

Marc rekur vinsæla læknastofu. Hann sérhæfir sig nefnilega í að hlusta vinalega á sjúklingana, sem hann fyrirlítur samt flesta í raun. Hann er líka liðlegur að skrifa upp á örvandi lyf þar sem það á við. Síðast en ekki síst er hann alls ekkert dæmandi gagnvart hinum fjölmörgu alkahólistum sem hann sinnir. Þeir drekka bara hálfa flösku af hvítvíni með matnum, ekki meira! Marc tekur hlutverk sitt sem forvörður sérfræðinganna alvarlega.


Þessar lýsingar af læknastofunni og yfirlæti læknisins eru mjög fyndnar og skemmtilegasti hluti bókarinnar. Um leið er höfundur að stinga á kýlum. Áfengissýki, hlutverk heilbrigðiskerfisins og þörf mannsins til að bera grímu.

Hin eiginlega flétta spinnst í kringum einn nýjan sjúkling Marcs. Sá er leikari, einhvers konar Gérard Depardieu týpa. Marc ber virðingu fyrir honum, en fyrirlítur hann um leið. Þeir taka upp vinskap og fjölskyldur þeirra fara í frí saman, í sumarhús með sundlaug.

Marc og Gérard eru eins og andstæður. Gérard er barnslega einfaldur. Leikur sér með flugelda, lifir ljúfa lífinu, borðar duglega og drekkur mikið. Vill helst liggja allsber í sólbaði. Marc er hins vegar sjálfsmeðvitaður, vill alls ekki bera nekt sína. Allt sem hann gerir er útreiknað.


Framhjáhald, perraskapur, kynferðisbrot, traust. Um þetta fjallar bókin. Það sem stendur þó upp úr eru persónurnar. Siðlausi læknirinn, góðviljaði leikarinn. Kannski eru þeir ekki svo ólíkir.

Niðurstaða: SUMARHÚS MEÐ SUNDLAUG er skemmtilegt lesning. Maður vill helst klára hana í einum rykk. Sagan fjarar samt aðeins út í endann. Lýsingar á augum dótturinnar í fjölskyldualbúminu passa ekkert voðalega vel. Það dregur líka aðeins úr væginu hve formúlan er lík þeirri úr KVÖLDVERÐINUM. Ég gef bókinni 3,5 stjörnur.

Wednesday, May 15, 2013

Bók #18: í trúnaði

Í trúnaði er bók eftir Hélene Grémillon. Umrædd bók kom út í NEON-klúbbnum nýlega. Bókin er 245 síður í þýðingu Kristínar Jónsdóttur. Á kápunni eru ekki notaðir hástafir. Það er kostur, í þeim skilningi að sá siður útgefanda að láta bækur heita eitthvað eins og BREKKUKOTSANNÁLL er afar þreytandi. Á hinn bóginn hefði bókstafurinn 'Í' gjarnan mátt vera hástafur. Svo sem og upphafsstafirnir í nafni höfundar. 

Myndin á kápunni er skemmtileg. Hún sýnir konu sitja á steinbekk, mögulega við strönd, að draga hár frá andliti sér. Þannig sjást andlitsdrættirnir ekki vel og gerir konuna mjög óræða. Þetta passar fullkomnlega við innihald bókarinnar. Plús í kladdann fyrir kápuhönnuð Bjarts og ljósmyndarann Elif Sanem Karakoc.



Um er að ræða tvöfalda rammasögu. Í nútímanum fær kona, Camille, bréf frá ókunnum manni að nafni Louis. Maðurinn segir sögu fólks sem Camille kannast ekki við. Fljótlega talar maðurinn um konu að nafni Annie, segir frá fundi þeirra þar sem Annie segir honum sögu sína, sem Lous segir aftur Camille í bréfinu, eins og Annie hafði sagt honum söguna.

Þetta er afar ruglingslegt fyrir lesandann á fyrstu metrunum. Það er erfitt að átta sig á persónunum, allt er skrifað í fyrstu persónu og engin viðvörun gefin hvenær bréfið er að tala og hvenær Camille, nema smá leturbreyting, sem ég tók ekki einu sinni eftir. Þar að auki er bréfið bæði sagt frá sjónarhóli Annie og Louis. 

Það tekur um 50 síður fyrir söguna sjálfa að komast af stað en fram að því hefur bókin svæfandi áhrif á lesandann. Ég held ég hafi verið tvö kvöld með þessar 50 síður.



Saga aðalpersónunnar, Annie'ar er þessi: Hún elst upp í þorpi fyrir utan París. Í þorpið flytur rík kona, frú M, og maður hennar. Frú M tekur Annie "í fóstur". Bíður henni heim til sín, skaffar henni aðstöðu til að sinna ástríðu sinni, málun. 

Í ljós kemur að frú M er óhamingjusöm í hjónabandi vegna þess að hún getur ekki eignast barn með manni sínum. Þeim verður að ráði að Annie beri barnið fyrir þau. Þó er þetta fyrir tíma nútímatækni og hún verður því að gerast barnshafandi upp á gamla mátann með eiginmanni frú M. 

Það er ekki erfitt að giska á að þetta plan reynist ekki alveg fullkomið.


Milli þess sem saga Annie'ar og félaga er sögð í bréfinu reynir Camille að átta sig á því hvernig þetta mál tengist sér. Sá hluti er þó í aukahlutverki.

Síðari heimsstyrjöld setur atburðina í enn tragískari umgjörð. 


Niðurstaða: Ég var mjög ánægður með þessa bók. Sagan er mjög grípandi og bæði dramatísk og spennandi. Tveir óvæntir snúningar í endann eru líka mjög vel útfærðir.  Ég gef Í trúnaði 3,5 stjörnur.