Tuesday, August 20, 2013

Bók #37: Bringing up Bébé

Ég keypti bókina BRINGING UP BÉBÉ á kyndilinn. Mig minnir að ég hafi lesið jákvæða umfjöllun í einhverju tímariti sem ég greip í á bókasafninu. Allavega hafði þetta síast nógu vel inn í undirmeðvitundina til að ég splæsti 15 dollurum í þetta.


Höfundurinn er Ameríkaninn Pamela Druckerman. Hún býr í París með enskum eiginmanni sínum og eignast þar barn. Bean. Höfundur tekur eftir því að frönsk börn virðast almennt haga sér betur en Bean og reyndar almennt þau börn sem hún þekkir frá heimalandinu.

Persóna höfundar er í forgrunni bókarinnar. Þetta er ekki beinlínis leiðarvísir eða sjálfshjálparbók. Að sumu leyti minnir efnið mann á bloggfærslur. Bókin er frekar lengi af stað. Við fylgjumst með Pamelu starfa sem blaðamaður í ýmsum alþjóðlegum verkefnum. Hún er rekin úr vinnunni og endar í París með eiginmanninum. Þar vinnur hún að því að skrifa bók, þó ekki þá sem við erum að lesa heldur aðra sem fjallar um framhjáhald; Lust in Translation.

 

Við fylgjumst sem sagt með Pamelu og Símóni aðlagast frönsku samfélagi, sem gengur ekkert sérstaklega vel. Henni finnast Frakkar dónalegir og stuttir í spuna. Þetta virkar ágætlega á lesandann og fær mann til að trúa að höfundur sé ekki einstrengisleg klappstýra fyrir allt sem franskt er.

Höfundur fer að velta fyrir sér muninum á frönsku og bandarísku uppeldi og leita að lyklinum að góðum aga franskra barna. Fljótlega eftir að dóttirin fæðist fara nágrannarnir að spyrja hvort hún sé farin að sofa í gegnum nóttina. Höfundi finnst þetta fáránleg tilhugsun en frönsku börnin byrja víst mörg að sofa heilu næturnar nokkrum vikum eftir fæðingu. Pamela leitar skýringa á þessu.

Helsta uppgötvun hennar er sú að Frakkar kenni krökkum sínum að vera þolinmóðir allt frá fæðingu. Eitt lykilatriði er að sinna gráti og kvörtunum ekki strax heldur "bíða" alltaf aðeins og vera viss um að barnið sé í alvöru að kvarta.


Það er ýmislegt fleira athyglisvert í þessu. Frönsku börnin haga sér yfirleitt vel í matarboðum og geta beðið eftir matnum sínum eins og fullorðna fólkið. Hérna er þolinmæðin aftur lykilatriði ásamt mikilli áherslu frá unga aldri á að borða á matartímum. Frönskum krökkum er kennt að borða klukkan 8, 12, 16 og 20. Menning fyrir snarli þar á milli er ekki til. 

Annað áhugavert er áhersla franskra foreldra á að hafa tíma fyrir sjálfa sig og að sinna eigin velferð. Í Frakklandi er ekki mikil félagsleg pressa á að gefa brjóst mjög lengi. Akkúrat öfugt við það sem við þekkjum. Almennt er hugmyndafræðin sú að foreldrar eigi ekki að vera fangar barnsins. 


Sum umfjöllunarefni bókarinnar eru minna áhugaverð en önnur. Það er heill kafli um leikskólamál. Ameríkaninn virðist eiga mjög erfitt með að setja barnið sitt á leikskóla. Hérna eru Íslendingar og Frakkar samstíga. 

Niðurstaða: BRINGING UP BÉBÉ er mjög áhugaverð bók um barnauppeldi. Eða kannski frekar heimspeki barnauppeldis. Maður tekur engu bókstaflega, en það er margt í bókinni sem fær mann til að hugsa. Ég gef bókinni 4 stjörnur og mæli með henni við alla sem eiga ung börn.

Friday, August 16, 2013

Bók #36: MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN

Nýlega kom bókin MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN út á íslensku. Sagan kom út á frummálinu árið 1972. Bókin segir frá dvöl homma í fangabúðum nasista í síðari heimsstyrjöld. Höfundur samkvæmt bókarkápu er Heinz Heger. Samkvæmt því sem eftirmálinn skýrir frá er það dulnefni manns að nafni Hans Neumanns. Hans þessi skrifaði söguna eftir Josef Kohout. Jósef sá, er sem sé hinn eiginlegi sögumaður. Myndin á bókarkápunni er af honum. Þýðandi bókarinnar er Guðjón Ragnar Jónasson, samkennari minn í MR.


Í byrjun er sögumaður háskólanemi í Vín (ekki sögulega nákvæmt, samkvæmt eftirmála). Hann á í ástarsambandi við annan mann í háskólanum. Gestapó kemst yfir ljósmynd þar sem einhver ástarorð þeirra á milli standa. Sögumaður er handtekinn og dæmdur í 6 mánaða fangelsisvist. Hana afplánar hann við ágætan aðbúnað en er svo í kjölfarið sendur í fangabúðir.

Stíll bókarinnar er frekar stirðbusalegur og harðsoðinn. Sum atriði eru ekki dramatíseruð eins mikið og maður á von á. Þetta atriði, að vera settur úr fangelsi í fangabúðir í þýskalandi er auðvitað reiðarslag, en það er ekki beinlínis fjallað um það þannig í bókinni. Eftirmáli Þorvaldar Kristinssonar segir að hvorki Hans né Josef hafi verið miklir stílmenn. Það er þó eitthvað frískandi við þetta harðsoðna form. Minnir mig sannast sagna á Hemingway!

Strax á leiðinni í fangabúðirnar byrja hörmungarnar. Í lestinni eru tveir fangar sem höfðu verið dæmdir fyrir morð. Þeir draga upp úr söguhetjunni hvað hann hefur gert af sér og hafa mestu skömm á honum. Þó ekki meiri en svo að þeir neyða hann til að eiga við sig munnmök. Þetta þema kemur fyrir aftur og aftur. Hinn venjulegi maður hefur skömm á hinni opinberu samkynhneigð og því að elska annan karlmann. Smávegis kynlíf með öðrum karlmanni er þó alls staðar.


Lýsingarnar á aðbúnaði í fangabúðunum eru hræðilegar. Pyntingar og refsingar fyrir minnstu "brot". Sumt af þessu hefur maður lesið áður. Höfndur varpar þó áhugaverðu ljósi á þau úrræði sem fangar hafa til að komast af. Til að fá aukna matarskammta og fleira er nauðsynlegt njóta verndar flokkstjóra. Sú vernd er keypt með því að "láta vilja þeirra" og gerast elskhugi.

Með þessum hætti tekst sögmanni að lifa af. Í gegnum tengsl sín fær hann síðar sjáfur stöðu flokksstjóra og er þá eins konar yfirmaður annarra fanga. Síðustu árin í fangabúðunum verða þannig nokkuð bærilegri.

Ein afleiðing hins knappa stíls er að sagan er mjög stutt, 142 síður. Það er í rauninni mikill kostur og gerir bókina áhrifaríkari en ella. Eftir standa mjög sterkar myndir af ofbeldinu, kúguninni og ekki síst hatrinu og tvískinnungnum í garð samkynheigðra. 


Niðurstaða: MENNIRNIR MEРBLEIKA ÞRÍHYRNINGINN er mögnuð saga. Höfundur stráir samfélagsádeilu inn í textann og ljóst er að samfélagið hefur ekki þokast langt í réttindum samkynhneigðra þegar bókin kemur úr 1972. Það er ánægjulegt að ástandið sé betra nú til dags en bókin er þörf áminning um mannhatrið sem viðgekkst gagnvart samkynhneigðum á 20.öld. Ég gef henni fjórar stjörnur.

Wednesday, August 14, 2013

Bók #35: VOPNIN KVÖDD

Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingsay kom út á frummálinu árið 1929 og í fyrsta sinn á íslensku 1941 í þýðingu Halldórs Laxness. Sagan er 320 síður.


Ég las nýlega endurminningabókina Veisla í farangrinum. Til að skilja höfundinn betur hafði ég áhuga á að lesa skáldsögu eftir hann. Eins og Laxness segir í eftirmálanum: 
"Höfuðrit Hemingways, þau er best gefa hugmynd um manninn, eru þessi fjögur: A Farewell to Arms (Vopnin kvödd, Friðrik Hinrik í heimsstyrjöldinni), Death in the Afternonn (Dauðinn um nónbil; um nautaat), The Green Hills of Africa (Grænborgir Afríku; um ljónaveiðar) og For Whem the Bell Tolls (Hverjm klukkan glymur; Róbert Jórdan í Spánarstyrjöldinni)."
Þetta munu vera karlmannlegar bækur. Ég valdi Vopnin kvödd á grundvelli þess að hún er ástarsaga.

Sagan fjallar um hann Friðrik. Sá er Bandaríkjamaður en tekur þátt í fyrri heimsstyrjöld með Ítölum. Hann er lautinant í sjúkrabíla-deildinni. Breska stúlkan Katrín starfar á sjúkrahúsi. Þau kynnast í gegnum sameiginlega vin og taka upp samband. Upphaflega lítur Friðrik meira á þetta sem dægradvöl en fljótlega tekur ástin völdin. Ekki finnst manni mikill aðdragandi að þeim sviptingum.


Fiðrik slasast í stríðinu. Katrín hjúkrar honum til heilsu. Eftir árangsríka innrás Austurríkismanna flýr herdeild Friðriks. Á flóttanum er Friðrik handtekinn af uppreisnaröflum í hernum sem halda míní-réttarhöld yfir yfirmönnum og skjóta þá svo. Friðriki tekst að flýja. Þau Katrín hittast á ný og flýja til Sviss þar sem loka-senur bókarinnar eiga sér stað.

Sagan "greip mig" ekki. Ég var lengi að lesa þessa bók. Mikið af nákvæmum samtölum og hugleiðingum sem ýta fléttunni lítið áfram. Ég skal þó ekki útiloka Laxness-faktorinn í þesu:
Ég vildi að við hefðum haft einhvern napóleon, en í þess stað höfðum við generálinn Kadorna, spikfeitan ríkisbubba, og Viktor Emanúel, þennan mjóslegna mann með langa hálsinn og hafurskeggið. Hægramegin höfðu þeir hertogann í Áostu. Hann var kannski í það laglegasta til að geta verið mikill generáll en það var þó eitthvert mannsmót að honum. Heilmargir mundu hafa viljað gera hann kóng. Hann leit út einsog kóngur. Hann var frændi konungsins og stjórnaði Þriðja hernum. Við vorum í Öðrum hernum. Það voru nokkur bresk fallbyssustæði uppfrá Þriðja hernum. Ég hafði mætt tveimur skyttum úr þeim hóp, í Mílanó. Það voru prýðisdrengir og við slógum í meiriháttar kvöld. 
Sumt er þó mjög fyndið. Elja Friðriks við að skaffa sínum mönnum mat á vígstöðvunum rétt áður en árás er gerð er mjög kómísk.

Margt í bókinni er reyndar eftir því. Það er vissulega stríð og það er hræðilegt, en fær þó ekki alltaf mikið á söguhetjuna. Friðrik nýtur lífsins, drekkur vín og hefur það gott. Skreppur út á vatn að veiða fisk ef honum leiðist. Eins skiptir máli að fá gott að borða á fremstu víglínu. Hann er þannig mikil macho-týpa en Katrín er ekki sérlega merkileg persóna. Maður fær aldrei alveg á tilfinninguna að þau séu raunverulega ástfanginn. Meira þannig að hún sé ein af landvinningum hans og í ljósi aðstæðna sé eins gott að hlaupast á brott með henni.


Eins og áður verður maður mjög meðvitaður um þýðandann og fer að giska á hvernig orðalagið sé eiginlega frummálinu. Þetta er með furðulegri lesningum:
 "Ég [...] fór að lesa Bostonarblöðin úr stakknum sem frú Mægir hafði skilið eftir handa drengjunum sínum á spítalanum. Hvítu Soxarnir frá Síkagó höfðu sigrað amríska bandalagsflaggið og Nýjujórvíkurrisarnir höfðu vinninginn yfir Þjóðlega bandalagið. Beibí Rut var kastarinn og tefldi fyrir Boston."
Þeir félagar Laxness og Hemingway voru í skjallbandalagi. Enn finnst mér ég þurf að fá betri tilfinningu fyrir höfundinum. Eina leiðin er líklega að lesa hann á frummálinu. Eins og Laxness segir í eftirmálanum:
 "Sú þýðing sem hér birtist, Vopnin kvödd, ber því miður ekki nema hálfan svip af hinni einstæðu frásagnarlist bókarinnar A Farewell to Arms. Töfrar Hemingways verða yfirleitt ekki fluttir af öðrum manni á ólíka tungu, heldur felast þeir í anda þeim og orðalagi, sem höfundinum hefur tekist að gæða móðurmál sitt [..]. Þessi þýðing bendir aðeins í áttina til þess, hvernig Hemingway skrifar, en ekki meir."

Niðurstaða: Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingway er að mörgu leyti eftirminnileg bók. Mér fannst þó eitthvað vanta upp á persónusköpunina. Ég gef henni 2,5 stjörnur með fyrirvara um íslenskun.

Friday, August 9, 2013

Bók #34: SWEET TOOTH

Ég tók bókina SWEET TOOTH eftir Ian McEwan á bókasafninu nýlega. Slík bók kom út í fyrra og er 320 blaðsíður. Ian McEwan er einn mikilvægasti rithöfundur samtímans. Bækur hans hafa verið þýddar á íslensku. Fríðþæging, Brúðkaupsnóttin, Barnið og tíminn. Allt frábærar bækur.


Ég var því frekar spenntur að lesa þetta nýjasta verk. Sagan fjallar um hana Serenu og gerist í upphafi áttunda áratugarins. Serena er afar falleg og greind stúlka sem hefur mikinn áhuga á bókalestri og bókmenntum. Serena fer þó í háskólanám í stærðfræði gegn betri vitund. Í gegnum samkynhneigðan kærasta sinn kynnist hún háskólaprófessornum Tony. Þau hefja ástarsamband. Tony er eitthvað tengdur bresku leyniþjónstunni og reddar Serenu starfsviðtali.


Serena er ráðin til starfa en vinnan er ekkert voðalega glamúrus. Hún er bjúrókrati í lægstu lögum. Fljótlega fær hún þó verkefnið sem nefnist Sweet Tooth. Það gengur út á að leyniþjónustan sponsi and-kommúníska rithöfunda í skrifum sínum. Fronturinn er bókaútgáfa sem Serena á að tengjast. Hún fær því það verkefni að tala við rithöfundinn Tom Haley og bjóða honum styrk

Tom þiggur styrkinn og þau hefja ástarsamband. Hér kemur ákveðinn veikleiki bókarinnar fram. Serena á að vera greind og falleg kona sem hefur heiminn í höndum sér. Hún verður þó ástfanginn af hverjum einasta karlmanni sem hún hittir í þessari sögu og kastar sér á þá. Þetta mál er að nokkru leyti útskýrt í síðustu setningu bókarinnar en setur þá raun alla söguna í uppnám.


Ástarsambandi Serenu og Toms er skemmtilega lýst. Þau njóta lífsins, þökk sé hinum væna styrk sem Tom fékk. Þau drekka mikið af hvítvíni, borða skelfisk, fara út að borða og njóta lífsins. Serena þarf þó alltaf að glíma við samvisku sína enda leikur hún tveimur skjöldum. 

Í rauninni er ég búinn að lýsa allri fléttunni og það er mögulega helsti galli bókarinnar. Það skortir ákveðna dýpt. Mér fannst eins og höfundur væri að stilla leikmönnunum upp og svo kæmi að dramatískum seinni hluta. En það gerist sem sagt ekki.


Bókin er samt alls ekki slæm. Það er gaman að lesa um þennan kaldastríðs-heim og setja sig inn í það sem leyniþjónustan er að pæla. Þetta tengist svo líka inn á Írland og IRA. Það er mikið af meta-bókmenntum í þessu. Tom Haley á mikið sameiginlegt með Ian McEwan sjálfum. Söguþráður fimm smásagna hans, Toms, eru raktir og það er dálítið erfitt að hafa þolinmæði fyrir því. 

Niðurstaða: SWEET TOOTH er ekki besta bók Ians McEwans. Manni leiðist þó (næstum) aldrei við lesturinn. Sögusviðið er áhugavert. Ég gef bókinni 3 stjörnur.

Tuesday, August 6, 2013

Bók #33: MANNESKJA ÁN HUNDS

Bókin MANNESKJA ÁN HUNDS er eftir Svíann Håkan Nesser. Hún kom út árið 2006 á frummálinu en 2013 á íslensku. Sagan fyllir 491 blaðsíðu. Þýðandi er Ævar Örn Jósepsson en útgfandinn UNDIRHEIMAR. Bókin er ein af þessum norrænu glæpasögum sem ég hef venjulega litla þolinmæði fyrir. Þessari var þó lýst fyrir mér sem fjölskyldudrama sem ég hef alltaf gaman af að lesa svo ég sló til.


Sagan byrjar mjög vel og segir frá hinni lífsleiðu Rosemarie sem vill helst drepa eiginmann sinn, Karl-Erik, sem hún þolir ekki. Þau hjónin störfuðu bæði við kennslu í grunnskóla en eru nýlega hætt störfum. Karl-Erik, "máttarstólpi menntunnar" virðist frekar sjálfumglaður náungi með sérviskulegar skoðanir. Hann hefur meiraðsegja krafist þess að fara í sumarfrí til Íslands..

Þau hjónin, les: Karl-Erik, stefna nú á að flytjast búferlum til Spánar. Ástæðan er hneyksli í fjölskyldunni. Hinn ómögulegi sonur, Róbert, komst á forsíðu slúðurblaðanna með fyrirsögninni "RÚNK-RÓBERT". Mjög fyndið, en að ástæðulausu útskýrir höfundur það mál ekki fyrr en um miðja sögu, sem er pirrandi.

Fjölskyldan kemur saman í síðasta skipti á heimili gömlu hjónanna. Karl-Erik á afmæli, sömuleiðis elsta dóttirin Ebba. Auk þess koma Róbert og hin dóttirin, Kristina. Börn og makar koma líka. Sér í lagi synir Ebbu, Henrik og Kristoffer.



Það sem gerist er að Róbert læðist út um kvöldið og fer að hitta konu. Hann segir það engum, nema lesandanum. Hann skilar sér ekki heim. Næstu nótt laumast Henrik út að hitta frænku sína Kristínu á hóteli. Fundur þeirra er kynferðislegs eðlis. Hann segir engum, nema lesandanum. Henrik skilar sér ekki heim.

Tvöfalt mannshvarf, fjölskylduharmleikur. Þetta gerist á fyrstu 100 síðum bókarinnar. Næst tekur við þáttur rannsóknarlögreglumannsins Gunnars Barbarotti sem reynir að leysa úr flækjunni. Sá hluti er bara alls ekki nógu góður og alltof langdreginn. Lesandinn veit meira en löggan og maður bíður eftir að eitthvað nýtt gerist.


Lausn málanna er síðan frekar fyrirsjáanleg og óspennandi. Persóna Gunnars er ágæt en hann heldur ekki uppi heilli bók.

Persónusköpunin almennt er mjög fín og höfundur heldur mjög vel utan um fjölskyldumeðlimina. Ebba brotnar saman þegar sonur hennar týnist og við fylgjumst töluvert með ferlinu þegar sárin gróa. Þetta er bara ekki nóg. Maður vill sjá fólkið njóta sín meira í víðara samhengi.



Niðurstaða: MANNESKJA ÁN HUNDS byrjar vel en veldur síðan vonbrigðum. Þetta er víst fyrsta bókin af fimm í flokknum um Gunnar Barbarotti. Ég hyggst ekki lesa fleiri. 2 stjörnur.

Thursday, August 1, 2013

Bók #32: TIGERS IN RED WEATHER

Ég tók bókina TIGERS IN RED WEATHER eftir Lizu Klaussmann á bókasafninu eftir rælni. Blaðsíðufjöldinn er 389 og kom sagan út árið 2012. 


Þetta er fyrsta bók höfundar sem áður hefur starfað sem blaðamaður. „Intelligent beach read of the summer“ segir Sunday Times. Mátulega yfirlætisleg ummæli sem höfðuðu til mín ásamt ágætri kápu.

Sagan gerist á árunum 1945-1967. Í forgrunni eru hjónin Nick (kvk) og Hughes (kk). Hann snýr heim úr stríðinu og þau reyna að byrja fjölskyldulíf saman. Það gengur ekki sérlega vel framan af. Við fylgjumst með Nick leika hlutverk hagsýnu húsmóðurinnar í Flórída meðan Hughes starfar enn fyrir herinn. Það umhverfi hentar henni ekki. Þau flytja á æskuslóðirnar á norðausturströndinni og eignast dótturina Daisy.


Bókin skiptir miskunnarlaust um sjónarhorn og tíma. Persóna Helenu, frænku Nickur, er mikilvæg. Hún á soninn Ed og þau búa í Kaliforníu ásamt lúsernum eiginmanni hennar.

Megin-flétta bókarinnar hverfist um morð sem framið er 1959. Frændsystkinin Ed og Daisy ganga fram á líkið. Ed virðist frekar ógeðug persóna og lesandann grunar að hann viti meira en ljóst er í byrjun.


Hér spilar frásagnaraðferð höfundar sterkt hlutverk. Fyrst er Nick sögumaður, þá Daisy, svo Helena, Hughes og loks Ed. Þannig fær maður upplifun hverrar persónu af atburðum og heildarmynd púslast saman, smám saman.

Persónurnar eru trúverðugar og litríkar, en að vísu frekar klisjukenndar. Veikleiki sögunnar liggur í skortinum á almennilegum söguþræði. Umhverfi og tíðaranda er líst mjög vel. Það er þó eins og persónurnar nái ekki alveg að njóta sín í þessari skáldsögu. Þær hafa einfaldlega ekki úr nógu miklu að spila. Það getur verið skemmtilegt fyrir lesanda að sjá sama atburðin frá fleiri en einu sjónarhorni en í þessari bók er um of mikla endurtekningu að ræða.


Annar galli er persóna Eds. Hann á að vera einhvers konar vondi-kall bókarinnar en þó ef til vill bara misskilinn einfari. Hann á ömurlega foreldra sem á að útskýra geðslag hans. Þrátt fyrir allt kynnumst við honum aldrei af neinni dýpt. Lokaatriði bókarinnar með Ed í miðpunkti kemur þannig eins og skrattinn úr sauðaleggnum.

Niðurstaða: TIGERS IN RED WEATHER er bók sem skilur lítið eftir og vinnur ekki nógu vel úr efniviði. Forðist að taka með á ströndina. Notist ekki til aukningar á greindarvísitölu. 1,5 stjarna.