Bókin MANNESKJA ÁN HUNDS er eftir Svíann Håkan Nesser. Hún kom út árið 2006 á frummálinu en 2013 á íslensku. Sagan fyllir 491 blaðsíðu. Þýðandi er Ævar Örn Jósepsson en útgfandinn UNDIRHEIMAR. Bókin er ein af þessum norrænu glæpasögum sem ég hef venjulega litla þolinmæði fyrir. Þessari var þó lýst fyrir mér sem fjölskyldudrama sem ég hef alltaf gaman af að lesa svo ég sló til.
Sagan byrjar mjög vel og segir frá hinni lífsleiðu Rosemarie sem vill helst drepa eiginmann sinn, Karl-Erik, sem hún þolir ekki. Þau hjónin störfuðu bæði við kennslu í grunnskóla en eru nýlega hætt störfum. Karl-Erik, "máttarstólpi menntunnar" virðist frekar sjálfumglaður náungi með sérviskulegar skoðanir. Hann hefur meiraðsegja krafist þess að fara í sumarfrí til Íslands..
Þau hjónin, les: Karl-Erik, stefna nú á að flytjast búferlum til Spánar. Ástæðan er hneyksli í fjölskyldunni. Hinn ómögulegi sonur, Róbert, komst á forsíðu slúðurblaðanna með fyrirsögninni "RÚNK-RÓBERT". Mjög fyndið, en að ástæðulausu útskýrir höfundur það mál ekki fyrr en um miðja sögu, sem er pirrandi.
Fjölskyldan kemur saman í síðasta skipti á heimili gömlu hjónanna. Karl-Erik á afmæli, sömuleiðis elsta dóttirin Ebba. Auk þess koma Róbert og hin dóttirin, Kristina. Börn og makar koma líka. Sér í lagi synir Ebbu, Henrik og Kristoffer.
Það sem gerist er að Róbert læðist út um kvöldið og fer að hitta konu. Hann segir það engum, nema lesandanum. Hann skilar sér ekki heim. Næstu nótt laumast Henrik út að hitta frænku sína Kristínu á hóteli. Fundur þeirra er kynferðislegs eðlis. Hann segir engum, nema lesandanum. Henrik skilar sér ekki heim.
Tvöfalt mannshvarf, fjölskylduharmleikur. Þetta gerist á fyrstu 100 síðum bókarinnar. Næst tekur við þáttur rannsóknarlögreglumannsins Gunnars Barbarotti sem reynir að leysa úr flækjunni. Sá hluti er bara alls ekki nógu góður og alltof langdreginn. Lesandinn veit meira en löggan og maður bíður eftir að eitthvað nýtt gerist.
Lausn málanna er síðan frekar fyrirsjáanleg og óspennandi. Persóna Gunnars er ágæt en hann heldur ekki uppi heilli bók.
Persónusköpunin almennt er mjög fín og höfundur heldur mjög vel utan um fjölskyldumeðlimina. Ebba brotnar saman þegar sonur hennar týnist og við fylgjumst töluvert með ferlinu þegar sárin gróa. Þetta er bara ekki nóg. Maður vill sjá fólkið njóta sín meira í víðara samhengi.
Niðurstaða: MANNESKJA ÁN HUNDS byrjar vel en veldur síðan vonbrigðum. Þetta er víst fyrsta bókin af fimm í flokknum um Gunnar Barbarotti. Ég hyggst ekki lesa fleiri. 2 stjörnur.
No comments:
Post a Comment