Friday, August 16, 2013

Bók #36: MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN

Nýlega kom bókin MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN út á íslensku. Sagan kom út á frummálinu árið 1972. Bókin segir frá dvöl homma í fangabúðum nasista í síðari heimsstyrjöld. Höfundur samkvæmt bókarkápu er Heinz Heger. Samkvæmt því sem eftirmálinn skýrir frá er það dulnefni manns að nafni Hans Neumanns. Hans þessi skrifaði söguna eftir Josef Kohout. Jósef sá, er sem sé hinn eiginlegi sögumaður. Myndin á bókarkápunni er af honum. Þýðandi bókarinnar er Guðjón Ragnar Jónasson, samkennari minn í MR.


Í byrjun er sögumaður háskólanemi í Vín (ekki sögulega nákvæmt, samkvæmt eftirmála). Hann á í ástarsambandi við annan mann í háskólanum. Gestapó kemst yfir ljósmynd þar sem einhver ástarorð þeirra á milli standa. Sögumaður er handtekinn og dæmdur í 6 mánaða fangelsisvist. Hana afplánar hann við ágætan aðbúnað en er svo í kjölfarið sendur í fangabúðir.

Stíll bókarinnar er frekar stirðbusalegur og harðsoðinn. Sum atriði eru ekki dramatíseruð eins mikið og maður á von á. Þetta atriði, að vera settur úr fangelsi í fangabúðir í þýskalandi er auðvitað reiðarslag, en það er ekki beinlínis fjallað um það þannig í bókinni. Eftirmáli Þorvaldar Kristinssonar segir að hvorki Hans né Josef hafi verið miklir stílmenn. Það er þó eitthvað frískandi við þetta harðsoðna form. Minnir mig sannast sagna á Hemingway!

Strax á leiðinni í fangabúðirnar byrja hörmungarnar. Í lestinni eru tveir fangar sem höfðu verið dæmdir fyrir morð. Þeir draga upp úr söguhetjunni hvað hann hefur gert af sér og hafa mestu skömm á honum. Þó ekki meiri en svo að þeir neyða hann til að eiga við sig munnmök. Þetta þema kemur fyrir aftur og aftur. Hinn venjulegi maður hefur skömm á hinni opinberu samkynhneigð og því að elska annan karlmann. Smávegis kynlíf með öðrum karlmanni er þó alls staðar.


Lýsingarnar á aðbúnaði í fangabúðunum eru hræðilegar. Pyntingar og refsingar fyrir minnstu "brot". Sumt af þessu hefur maður lesið áður. Höfndur varpar þó áhugaverðu ljósi á þau úrræði sem fangar hafa til að komast af. Til að fá aukna matarskammta og fleira er nauðsynlegt njóta verndar flokkstjóra. Sú vernd er keypt með því að "láta vilja þeirra" og gerast elskhugi.

Með þessum hætti tekst sögmanni að lifa af. Í gegnum tengsl sín fær hann síðar sjáfur stöðu flokksstjóra og er þá eins konar yfirmaður annarra fanga. Síðustu árin í fangabúðunum verða þannig nokkuð bærilegri.

Ein afleiðing hins knappa stíls er að sagan er mjög stutt, 142 síður. Það er í rauninni mikill kostur og gerir bókina áhrifaríkari en ella. Eftir standa mjög sterkar myndir af ofbeldinu, kúguninni og ekki síst hatrinu og tvískinnungnum í garð samkynheigðra. 


Niðurstaða: MENNIRNIR MEРBLEIKA ÞRÍHYRNINGINN er mögnuð saga. Höfundur stráir samfélagsádeilu inn í textann og ljóst er að samfélagið hefur ekki þokast langt í réttindum samkynhneigðra þegar bókin kemur úr 1972. Það er ánægjulegt að ástandið sé betra nú til dags en bókin er þörf áminning um mannhatrið sem viðgekkst gagnvart samkynhneigðum á 20.öld. Ég gef henni fjórar stjörnur.

No comments:

Post a Comment