Wednesday, August 14, 2013

Bók #35: VOPNIN KVÖDD

Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingsay kom út á frummálinu árið 1929 og í fyrsta sinn á íslensku 1941 í þýðingu Halldórs Laxness. Sagan er 320 síður.


Ég las nýlega endurminningabókina Veisla í farangrinum. Til að skilja höfundinn betur hafði ég áhuga á að lesa skáldsögu eftir hann. Eins og Laxness segir í eftirmálanum: 
"Höfuðrit Hemingways, þau er best gefa hugmynd um manninn, eru þessi fjögur: A Farewell to Arms (Vopnin kvödd, Friðrik Hinrik í heimsstyrjöldinni), Death in the Afternonn (Dauðinn um nónbil; um nautaat), The Green Hills of Africa (Grænborgir Afríku; um ljónaveiðar) og For Whem the Bell Tolls (Hverjm klukkan glymur; Róbert Jórdan í Spánarstyrjöldinni)."
Þetta munu vera karlmannlegar bækur. Ég valdi Vopnin kvödd á grundvelli þess að hún er ástarsaga.

Sagan fjallar um hann Friðrik. Sá er Bandaríkjamaður en tekur þátt í fyrri heimsstyrjöld með Ítölum. Hann er lautinant í sjúkrabíla-deildinni. Breska stúlkan Katrín starfar á sjúkrahúsi. Þau kynnast í gegnum sameiginlega vin og taka upp samband. Upphaflega lítur Friðrik meira á þetta sem dægradvöl en fljótlega tekur ástin völdin. Ekki finnst manni mikill aðdragandi að þeim sviptingum.


Fiðrik slasast í stríðinu. Katrín hjúkrar honum til heilsu. Eftir árangsríka innrás Austurríkismanna flýr herdeild Friðriks. Á flóttanum er Friðrik handtekinn af uppreisnaröflum í hernum sem halda míní-réttarhöld yfir yfirmönnum og skjóta þá svo. Friðriki tekst að flýja. Þau Katrín hittast á ný og flýja til Sviss þar sem loka-senur bókarinnar eiga sér stað.

Sagan "greip mig" ekki. Ég var lengi að lesa þessa bók. Mikið af nákvæmum samtölum og hugleiðingum sem ýta fléttunni lítið áfram. Ég skal þó ekki útiloka Laxness-faktorinn í þesu:
Ég vildi að við hefðum haft einhvern napóleon, en í þess stað höfðum við generálinn Kadorna, spikfeitan ríkisbubba, og Viktor Emanúel, þennan mjóslegna mann með langa hálsinn og hafurskeggið. Hægramegin höfðu þeir hertogann í Áostu. Hann var kannski í það laglegasta til að geta verið mikill generáll en það var þó eitthvert mannsmót að honum. Heilmargir mundu hafa viljað gera hann kóng. Hann leit út einsog kóngur. Hann var frændi konungsins og stjórnaði Þriðja hernum. Við vorum í Öðrum hernum. Það voru nokkur bresk fallbyssustæði uppfrá Þriðja hernum. Ég hafði mætt tveimur skyttum úr þeim hóp, í Mílanó. Það voru prýðisdrengir og við slógum í meiriháttar kvöld. 
Sumt er þó mjög fyndið. Elja Friðriks við að skaffa sínum mönnum mat á vígstöðvunum rétt áður en árás er gerð er mjög kómísk.

Margt í bókinni er reyndar eftir því. Það er vissulega stríð og það er hræðilegt, en fær þó ekki alltaf mikið á söguhetjuna. Friðrik nýtur lífsins, drekkur vín og hefur það gott. Skreppur út á vatn að veiða fisk ef honum leiðist. Eins skiptir máli að fá gott að borða á fremstu víglínu. Hann er þannig mikil macho-týpa en Katrín er ekki sérlega merkileg persóna. Maður fær aldrei alveg á tilfinninguna að þau séu raunverulega ástfanginn. Meira þannig að hún sé ein af landvinningum hans og í ljósi aðstæðna sé eins gott að hlaupast á brott með henni.


Eins og áður verður maður mjög meðvitaður um þýðandann og fer að giska á hvernig orðalagið sé eiginlega frummálinu. Þetta er með furðulegri lesningum:
 "Ég [...] fór að lesa Bostonarblöðin úr stakknum sem frú Mægir hafði skilið eftir handa drengjunum sínum á spítalanum. Hvítu Soxarnir frá Síkagó höfðu sigrað amríska bandalagsflaggið og Nýjujórvíkurrisarnir höfðu vinninginn yfir Þjóðlega bandalagið. Beibí Rut var kastarinn og tefldi fyrir Boston."
Þeir félagar Laxness og Hemingway voru í skjallbandalagi. Enn finnst mér ég þurf að fá betri tilfinningu fyrir höfundinum. Eina leiðin er líklega að lesa hann á frummálinu. Eins og Laxness segir í eftirmálanum:
 "Sú þýðing sem hér birtist, Vopnin kvödd, ber því miður ekki nema hálfan svip af hinni einstæðu frásagnarlist bókarinnar A Farewell to Arms. Töfrar Hemingways verða yfirleitt ekki fluttir af öðrum manni á ólíka tungu, heldur felast þeir í anda þeim og orðalagi, sem höfundinum hefur tekist að gæða móðurmál sitt [..]. Þessi þýðing bendir aðeins í áttina til þess, hvernig Hemingway skrifar, en ekki meir."

Niðurstaða: Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingway er að mörgu leyti eftirminnileg bók. Mér fannst þó eitthvað vanta upp á persónusköpunina. Ég gef henni 2,5 stjörnur með fyrirvara um íslenskun.

No comments:

Post a Comment