Wednesday, January 23, 2013

Bók #6: MONSJÖR KÍKÓTI

Sjötta bók ársins heitir MONSJÖR KÍKÓTI og er eftir Graham Greene. Þetta er fyrsta skáldsagan sem ég les eftir Greene. Bókin kom út á frummálinu 1982 og kom í íslenskri þýðingu Áslaugar Ragnars 1983. Um er að ræða 235 síður. Þetta er ein af þeim bókum sem komu í stafla frá nágrannanum á dögunum.



Sem sjá á myndunum höfum við dæmigerða íslenska harðspjaldabók. Dóttir mín tók að sér að rífa titilinn af lausu kápunni. Bækur fá sjálfkrafa nokkur mínusstig hjá mér fyrir að vera á þessu formi. Það er best fyrir alla þegar bók er í kilju. Myndin á kápunni er skemmtileg og sýnir fyndið atriði úr sögunni. Að því sögðu þá finnst mér bókin ekki girnileg. Ég hefði ekki laðast að þessari bók úr fjarska. Ég sé fyrir mér að hún sé til í stöflum í Kolaportinu. Monsjör Kíkóti, tilvalin í jólagjöf árið 1983.



Í grunninn er söguþráðurinn þessi: Tveir vinir, prestur (Monsjör Kíkóti) og fyrrum bæjarstjóri (Sansjó) í þorpi á Spáni fara í stutt ferðalag um Spán. Þeir ferðast um á gömlum SEAT bíl sem heitir Rósínant. Þeir eru vel hlaðnir af víni. Á leiðinni lenda þeir í ýmsum ævintýrum en bókin er þó að verulegu leyti byggð upp á samtölum þeirra tveggja og gæti vel sómt sér sem leikrit.


 Á vissan hátt er þannig verið að færa söguna um Don Kíkóta til nútímans. Ég hef ekki lesið slíka bók og því ekki dómbær á allar vísanir. Greene heldur þó hönd manns og persónur bókarinnar benda lesandanum á í hvert sinn sem þeir feta í fótspor forfeðra sinna. Þannig kljást þeir til dæmis við vindmyllur nútímans í formi spilltu lögreglunnar.



Monsjör Kíkóti er sem sagt kaþólskur prestur og bæjarstjórinn Sansjó er kommúnisti. Á ferðum sínum ræða þeir þessi mál og pota í gallana við kenningar hins. Oftar en einu sinni stoppa þeir bílinn nálægt læk við þjóðveginn, skella nokkrum vínflöskum út í til kælingar og ræða málin vel á fjórðu flösku. Fyndnasta atriði bókarinnar er þegar Kíkóti reynir að útskýra hugmyndina með heilagri þrenningu. Þeir hafa tvær tómar vínflöskur (faðirinn og sonurinn) og eina tóma hálfflösku (heilagur andi). Allt vínið kom samt af sama akrinum og er þannig í eðli sínu "sama vínið". Kíkóti áttar sig síðan strax að hann gerði alvarlega villu þarna með því að láta hálfflöskuna standa fyrir heilagan anda. Það er nefnilega alvarleg synd að gera gys að heilögum anda.



Að mörgu leyti minnir þessi bók mig á kvikmyndina/bókina Sideways. Þar eru líka tveir félagar að ferðast um landið, drekka vín og ræða málin. Í Monsjör Kíkóta er þó farið dýpra í mannlegt eðli. Manni líður vel eftir að hafa lesið þessa bók. Ég gef henni 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.

Monday, January 21, 2013

Bók #5: First Shift - Legacy

Fimmta lesna bókin heitir First shift - Legacy og er sjötta bókin í seríu sem nefnist Wool. Þessi bók er aðallega seld sem rafbók. Fyrri fimm bækurnar má fá á góðum kjörum á einu bretti. Höfundur er Hugh Howie.


Bókin fékkst lánuð frá mágkonu minni. Hún er 238 síður skv. Amazoni en á Kyndlinum hefur maður litla tilfinningu fyrir slíkum hlutum. Hún er frekar fljótlesin og ég kláraði þetta efni á þremur kvöldum.

Það hefur ýmsa kosti að lesa á kyndlinum. Það er t.d. þægilegt að lesa uppi í rúmi. Það er ekkert vandamál að liggja á hliðinni og láta fara vel um sig. Það er líka hentugt að grípa í kyndilinn þegar maður er að sinna stelpunni og getur lagt apparatið í flýti frá sér án þess að týna staðnum.

Það eru þó ókostir. Maður hefur minni tilfinningu fyrir bókinni. Ég verð líka að viðurkenna að ég sakna kápunnar. Þetta er ekki alveg sama upplifunin og að lesa holdlega-bók. Ljósmyndun "bókarinnar" verður heldur ekki ýkja áhugaverð..



Í Wool seríunni kynnumst við mannkyninu í framtíðinni. Þetta er sem sagt vísindaskáldsaga. Fólk býr í sílói (tunnu? sívalningi? sarpi?) ofan í jörðinni. Fyrstu bækurnar (sem eru margar mjög stuttar) fjalla um leit fólks að sannleikanum um sílóið. Er eitthvað fyrir utan? Af hverju er fólkið í þessari stöðu?

Á efstu hæð sílósins er skjár þar sem íbúar geta séð út. Ástandið úti er frekar eymdarlegt. Enginn fer út nema í þar til gerðum galla og jafnvel þá endast menn ekki lengi. Menn eru hins vegar sendir út af yfirvöldum og virkar það sem eins konar dauðarefsing. Föngum er þá um leið uppálagt að þrífa linsurnar á myndavélunum sem vísa út og bæta þannig útsýni íbúanna.



Í fyrstu bókinni fylgjumst við með lögreglustjórnaum Holston. Hann reynir að sinna skyldum sínum er þó fyrst og fremst að rannsaka hvað olli því að eiginkona hans fór sjálfviljug "út að þrífa". Að þessu leyti minnir bókin á eina frægustu og bestu vísindaskáldsögu í heimi: Caves of steel eftir Isac Asmiov. Hér er líka ákveðið dystópíuþema sem höfundur vinnur mjög vel.


Legacy-bókin sem ég var að klára er prequel (forsaga?). Hún segir frá tilurð sílósins og hvað olli því að mannkynið býr við þennan kost. Mér fannst þessi saga sú lakasta í flokknum og ekki ná að skapa sömu spennu og sérstaka andrúmsloft sem finna má í hinum fyrri fimm bókunum. Ég gef henni þrjár stjörnur af fimm mögulegum. Flokknum í heild gef ég fjórar stjörnur.


Algengt umkvörtunarefni unglinga sem lesa lítið er að erfitt sé að finna efni sem höfðar til þeirra. Ég myndi segja að þessi bókaflokkur sé mjög unglingavænn. Ég mæli með WOOL seríunni fyrir áhugamenn um vísindaskáldsögur og unglinga. Ég mæli ekki með WOOL fyrir móður mína. Fyrsta bókin er bara 58 síður og kostar ekki krónu. Eftir hverju ertu að bíða? Til athugunar: Ekki er nauðsynlegt að eiga kyndil til að lesa rafbók frá Amazon. Mjög einfalt er að lesa bók af tölvuskjá í gegnum vef Amazon.

Friday, January 18, 2013

Staflinn

Það eru venjulega þrjár aðferðir sem ég beiti til að finna mér nýtt efni að lesa. Skilvirkasti kosturinn er að finna bók á Amazon fyrir kyndilinn. Hagstætt er að skoða listann með bókum sem kosta minna en fjóra dollara. Heimild. Reyndar kosta bækurnar oft aðeins meira á evrópumarkaði.


Oft finn ég líka bók á bókasafninu. Við notum Aðalsafn við Tryggvagötu. Það verður samt að segjast að það er ekki alltaf auðvelt að finna bók á bókasafni. Sömu bókunum er alltaf stillt upp. Hafi maður ekkert sérstakt í huga er manni ekki mikið hjálpað.

Ég skil ekki af hverju bókasöfn reyna ekki að stilla upp bókum á svipaðan hátt og bókabúðir. Í bókabúð er manni alltaf bent á nýtt efni og auðvelt að finna eitthvað spennandi. Á bókasafni er á hinn bóginn auðvelt að finna fjórða bindið í ritröð Siðfræðistofnunnar Háskólans um Siðfræði í samtímanum..


Þriðji möguleikinn er að fá bók lánaða hjá ættingja eða vini. Eftir að 52 bækur hófu göngu sína hef ég mest lesið bækur í gegnum þennan möguleika.


Bækurnar streyma til mín hraðar en ég get lesið þær. Tvær komu frá tengdamóður

Ein kom frá efnafræðikennara niðri í skóla. The Alchemy of Air er reyndar ekki skáldsaga.

Stærsti fengurinn kom þó frá nágrannanum sem birtist eitt kvöldið með sjö af uppháldsbókunum sínum.
                          

Nú er bara spurning hvað maður á að lesa fyrst af þessu! 

Wednesday, January 16, 2013

Bók #4: FRJÁLSAR HENDUR - kennarahandbók

Ég las bókina FRJÁLSAR HENDUR - kennarahandbók á tveimur kvöldum. Umrædd bók er eftir Helga Ingólfsson (full disclosure: Helgi er samkennari minn við Menntaskólann í Reykjavík). Bókin er því fljótlesin, rétt rúmlega 200 síður. Hún er gefin út af Óðinsauga 2012.


Ég fékk bókina á Borgarbókasafni og því er slíkur ólekker miði framan á henni sem tjáir takmarkaðan lánstíma vegna væntra vinsælda bókarinnar. Þessi límmiði dró úr lestraránægjunni um svona 13% og skemmdi fyrir fagurfræðilegum markmiðum kápunnar.

Að því sögðu tel ég titil bókarinnar og kápu hennar nokkð misheppnaða. Titillinn segir beinlínis að um kennarahandbók sé að ræða. Ekki er víst að allir sem reka augun í bókina átti sig á að hún er skáldsaga. Myndin á kápunni er af listaverki eftir Stefán Jón Brimar Sigurjónsson sem heitir Reikningsdæmið. Þessi mynd er falleg, en ekki beinlínis dæmigert val á kápu á gamansögu.




 Helgi hefur skrifað nokkrar bækur. Andsælis á auðnuhjólinu og Þegar kóngur kom standa upp úr að mínu mati, þó ólíkar séu. Frjálsar hendur sver sig í ætt við hina fyrrnefndu. Hér er sem sagt um að ræða gamansögu.Við kynnumst meðal annars starfsfólki Fjölbrautaskólans við Kringlumýri og heimskupörum nemenda þar.

Höfundur er þannig að skrifa út frá eigin reynsluheimi sem kennari og setur ýmsar uppákomur í kennslu í spaugilegt ljós. Nemendur skilja ekki einföldustu hugtök og eru dónalegir við kennarann og aðra nemendur. Kennarar eru líka hinir mestu gallagripir.

Hér komum við þó að einum helsta galla sögunnar. Hún er sögð út frá sjónarhóli ýmissa persóna. Ég átti mjög erfitt með að halda utan um persónusafnið og ruglaði Eiríki rauða saman við Randver og Gissur alveg fram í lok bókarinnar. Þannig er líka erfitt að tala um að eitthvað ákveðið plott sé í bókinni. Nálægt endanum skýrist þó að Randver er í rauninni aðalpersónan og glíma hans við skólayfirvöld og lögregluna er eins konar klímax sögunnar.


Aðrar persónur koma líka við sögu. Til dæmis stjórnmálamaðurinn og framapotarinn Hafsteinn Hafberg. Að ógleymdum Jónasi Geir sem ég botnaði alls ekkert í og taldi vera sömu persónunina og Hafstein Hafberg fram á síðustu metrana.

Það er óhjákvæmilegt að máta persónur bókarinnar við þær sem þekktar eru af kennarastofunni. Í rauninni er samt ljóst að allar persónurnar byggjast á höfundi frekar en nokkrum öðrum. Höfundur skrifar sig frá ýmsum hugmyndum og í miðri bók ætlar ein persónan, sem hefur skrifað bókina Þægar stelpur, (ólíkt Helga Ingólfssyni sem skrifaði Þægir strákar) að byrja á bók sem nefnist Frjálsar hendur. Þannig er bókin orðin meta-bók og höfundur er kominn á kaf í sjálfs-satýru. Persónan grínast t.d. með að nauðsynlegt sé að breyta kyninu á skólameistaranum frá raunveruleikanum til að ekki sé of augljóst um hvern verið er að skrifa. Nefna má að í bókinni er kyn skólameistara Fjölbrautaskólans við Kringlumýri er öfugt við kyn skólameistara MR. 



Ómögulegt að gera bókinni skil án þess að nefna skemmtilegasta hlutann sem er rammasagan Hrímlendinga saga eftir Randver. Sú saga fjallar meðal annars um Dávíðan konung og Hörða-Geir. Skessuna Krísu og Ísbjörgu. Óleifur sýr kemur líka við sögu:
Óleifur hét höfðingi, kallaður spaki, vestfirskur að öðli. [...] Þennan mann kjöri landslýður til allsherjargoða, en eigi voru sumir um það sáttir. Átti hann margt óvildarmanna er nefndu hann sýr. Konu hafði Óleifur rænt, er hann var í austurvíking, og hét það man Þórríður. Var hún kvenna þokkasælust og dóttir keisarans af Jórsölum.


Niðurstaða: Það er margt fyndið í bókinni Frjálsar hendur - kennarahandbók. Hún er þó ekki nógu markviss til að komast á stall með betri bókum Helga Ingólfssonar. Ég gef henni 3 stjörnur af 5 mögulegum.

Sunday, January 13, 2013

Bók #3: SKUGGI VINDSINS

Ég byrjaði á bókinni SKUGGI VINDSINS um síðustu helgi og lauk við hana áðan. Lesturinn tók því rúmlega viku. 

Umrædd bók er eftir spænska rithöfundinn Carlos Ruiz Zafón. Tómas R. Einarsson þýddi. Bindið er 550 síður. Á forsíðunni er tilvitnun í fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, Joschka Fischer sem segir: "Leggðu allt annað frá þér og lestu fram á rauðanótt!" Íslenski útgefandinn veit sem er; Íslendingar snobba fyrir þýskum fyrirmennum.



Einnig er skemmtilegt að á forsíðunni sést að Amazon.com hefur gefið bókinni 4,5 stjörnur. Eins og kunnugt er það ekki Amazon sem gefur bókum einkunn, heldur lesendur. Einkunnin er þannig háð tíma og ég myndi ekki mæla með að nota þessa markaðssetningu. Þegar þetta er ritað 6 árum eftir að bókin kom út, heldur bókin þó enn þessum stað í stjörnugjöf á slíkri síðu.

Bókin gerist á Spáni um miðja síðustu öld. Nánar tiltekið Barcelóna. Maður upplifir borgina sjálfa mjög sterkt við lestur bókarinnar og greinilegt er að höfundur er öðrum þræði að skrifa um hana. Ekki ósvipað og New York borg í Woody Allen mynd. Annað stórt atriði er spænska borgarastyrjöldin sem mikið er vísað í og hefur haft mikil áhrif á persónur bókarinnar.



Aðalpersóna bókarinnar er Daníel. Hann er ungur maður. Í upphafi bókarinnar fer hann með föður sínum í Kirkjugarð gleymdu bókanna. Á slíkum stað eru bækur varðveittar og þeim forðað frá gleymsku og eyðileggingu. Daníel má velja sér eina bók til að taka með sér heim en hann verður að varðveita þá bók að eilífu. Hann velur sér bókina "Skuggi vindsins". 

Hér koma tvö mikilvæg atriði fram. Í fyrsta lagi fær bókin strax ákveðinn ævintýrablæ og lesandinn er ekki viss um að venjuleg náttúrulögmál gildi í sögunni. Sú tilfinning magnast seinna meir þegar sjálfur djöfullinn verður að persónu.
Í annan stað eru bækur yfir höfuð mikilvægt umfjöllunarefni bókarinnar. Daníel og faðir hans reka bókabúð og bækur koma mikið við sögu. Höfundur notar ýmis tækifæri til að sýna bókalestur í rómantísku ljósi:
Bea segir að listin að lesa sé smám saman að deyja út, að hún sé afar persónuleg athöfn, að bók sé spegill og að við getum aðeins fundið í henni það sem við berum innra með okkur áður en að lestri kemur, að þegar við lesum leggjum við í það hugann og sálina og að þær eigindir verði æ fátíðari.

Á næstu 500 síðum fylgjumst við með leit Daníels að höfundi Skugga Vindsins, Julian Carax. Hann virðist vera gufaður upp og jafnvel dáinn. Eða hvað? Bókin er þannig spennusaga, drama, glæpasaga og umfram allt þroskasaga. 


Niðurstaða
Skuggi vindsins er mjög góð bók. Ég gef henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Ég myndi mæla með henni við alla.

Tuesday, January 8, 2013

Þrjár bækur undir gleraugnalinsunum

Ég er með þrjár bækur í vinnslu. 

Á náttborðinu er bókin SKUGGI VINDSINS eftir Carlos Ruiz Zafón. Ég bað mömmu að lána mér bók. Uppáhaldsbókina sína. Úr hillinu kom téð bók, "en þú hlýtur að hafa lesið hana.." -sagði mamma. Svo var alls ekki. Ég er sirka hálfnaður með lesturinn. Held enn legvatninu, en góð er hún.


Á eldhúsborðinu er bókin FRJÁLSAR HENDUR. KENNARAHANDBÓK. Hún er eftir Helga Ingólfsson. Umrædda bók tók ég á bókasafninu. Ég hef rétt lesið 30 blaðsíður yfir morgunrjómanum og líkar vel.

Á svæfingarkollinum liggur First Shift. Hún er sú sjötta í röðinni í Wool flokknum.  Heimild. Arndís lánaði mér hana á kindilinn. Fyrstu 5 bækurnur höfðu afar mikið vægi. (Og fást á góðum prís á rafrænu formi. Meðmæli.). Ég er rétt nýbyrjaður að lesa (gengur alltof vel að sofna greinilega) og hef ekki forsendur til að meta gæði bókarinnar.

Markmiðið er að klára þessar bækur innan tveggja vikna. Skuggi vindsins er ógurlegur doðrantur.

Friday, January 4, 2013

Bók #2: HÉR LIGGUR SKÁLD

Á þremur kvöldum las ég bók Þórarins Eldjárns sem nefnist HÉR LIGGUR SKÁLD. Bókin er frekar stutt, 164 síður. Leturgerðin er Palatino Linotype, 10 punktar. Ég las áritað eintak sem jók gæði lestursins um svona 27 prósent.

Efni bókarinnar byggist á íslendingaþættinum um Þorleif Ásgeirsson jarlsskáld. Heimild. Bókin flokkast því væntanlega sem söguleg skáldsaga. Jafnvel nútíma-íslendingasaga?

Í þeim anda er bókin torlesin framan af. Mér fannst erfitt að setja mig inn í ættartrén og hinar stríðandi fylkingar í austur og vestur Svarfaðardal. Þegar höfundur er búinn að raða öllum leikmönnum á borðið færist þó fjör í leikinn. Seinni hlutinn er mjög skemmtilegur og ég gat varla lagt bókina frá mér.

Söguhetjan er sem sagt umræddur Þorleifur. Frásögn í fyrstu persónu frá hans sjónarhóli hefst þó ekki fyrr en á síðu 65. Þar á undan erum við sett inn í mál í Svarvaðardal. Okkar maður tekur þátt í deilum þar sem enda með því að hann verður að flýja land. Þar tekur við skemmtilegasti hluti sögunnar.

Niðurstaða: Ég hafði gaman af lessari bók. Margt er mjög fyndið. Til dæmis persónan Klaufi, sem er mjög klunnalegur og vonlaus sem barn, en kemur svo í ljós að mikið gagn er af honum ef leggjast þarf í víking. Bara ef þessi fítus væri mögulegur í dag. Svo er skemmtilegt hvernig ómögulegir hlutir eru látnir gerast eins og ekkert sé sjálfsagðra. Menn berjast við drauga og níðkvæði sem flutt er af söguhetju hefur þann eiginleika að andlag níðsins þjáist af ofsakláða.


Ég gef bókinni HÉR LIGGUR SKÁLD þrjár stjörnur af fimm mögulegum.

Wednesday, January 2, 2013

Bók #1: LEIKARINN

Þá hef ég lokið við fyrstu bókina. Sú nefnist LEIKARINN og er eftir Sólveigu Pálsdóttur.


Full disclosure: Ég byrjaði á þessari bók 30.desember og lauk lestrinum á nýársdag. Karl Rove hefði ekki látið bjóða sér þessi vinnubrögð en ég ætla í siðleysi mínu að telja þessa bók með. Ég lauk enda við lestur hennar á nýju ári. Allar bækur sem ég klára á þessu ári teljast með.

Bókin

Þessi bók fellur í flokkinn GLÆPASAGA. Eða eins og stendur aftan á henni: "Íslenskur sálfræðitryllir af bestu gerð" - ÞÓRKATLA AÐALSTEINSDÓTTIR SÁLFRÆÐINGUR.

Um er að ræða morðgátu. Bókin hefst á andláti stórleikarans Lárusar Þórarinssonar. Við sjáum atburðarrásina aðallega út frá sjónarhóli PROPSARANS Öldu Ingþórsdóttir. Sögumaður er ekki alvitur. (Þetta er eina bókmenntahugtakið sem ég kann. Takið ekki mark á bókadómum rituðum af verkfræðingum).

Bókin er vel skrifuð og atburðarásin er nokkuð hröð. Þannig er hún auðveld aflestrar. Persónusköpunin er að mestu mjög trúverðug. Samt fannst mér lýsingin af samskiptum lögreglumannanna þriggja stundum skrítin. Lögreglukonan Særós er einhvers konar erki-nákvæmnis-týpa og yfirmaðurinn Guðgeir á að vera bæði strangur en samt svo mannlegur og skilningsríkur. Vinnustaðurinn virkar þannig frekar dysfunctional og alltof mikið af skömmum og látum til að vera trúverðugur



SPOILER - SPOILER - SPOILER 

Það truflaði mig að Alda reyndist vera morðinginn. Mér finnst pirrandi þegar manni er sýnt inn í hugarheim persónu, sem reynist svo bara vera hálfgerð blekking. Þetta virðist vera réttlætt með því að úrskurða Öldu sýkópata en mér fannst það ekki sannfærandi.

Niðurstaða

Ég gef LEIKARANUM 2,5 stjörnur af 5 mögulegum. Fín lesning, en skilur ekki mikið eftir sig.